Embætti Landlæknis segir að notkun læknis fyrirtækisins Heilsuverndar á forritinu Heilsuveru sé röng, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar, og að hún sé til skoðunar hjá stofnuninni. Læknirinn hafði samband við fyrrverandi skjólstæðinga sína, sjúkratryggða einstaklinga á Akureyri, og bauð þeim að koma í viðskipti við Heilsuvernd. Heimildin fjallaði um mál læknisins í byrjun febrúar.
Þetta kemur fram í svörum frá embætti Landlæknis við spurningum Heimildarinnar: „Miðað við þær upplýsingar sem komið hafa fram í umfjöllun um málið þá virðist þetta vera röng notkun á Heilsuveru sem er hugsuð fyrir sendingar á klínískum upplýsingum og samskiptum milli læknis og sjúklings í tengslum við meðferð. Málið er til skoðunar hjá embættinu.“
Heilusvera er forrit sem er samstarfsverkefni Landslæknisembættisins, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítala-háskólasjúkrahúss. Þar getur fólk skráð sig í heilsugæslustöð, átt í samskiptum við heimilislækna, fengið endurnýjun á lyfseðlum og fleira.
„Embætti landlæknis hefur aftur á móti eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum og af þeim sökum er umrætt mál sem áður segir til skoðunar hjá embættinu.“
Heilsugæsla í Kópavogi en læknir á Akureyri
Teitur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Heilsuverndar, hefur sagt að hann vilji opna heilsugæslustöð á Akureyri. Hann hefur ráðið til sína lækna í bænum og er einn þeirra Valur Helgi Kristinsson, sá sem sendi skilaboðin úr Heilsuveru. Sjúkratryggðir einstaklingar á Íslandi geta valið á hvaða heilsugæslustöð þeir skrá sig, hvort svo sem hún er ríkis- eða einkarekin, og fylgir þeim þá fjármagn frá Sjúkratryggingum Íslands.
Heilsuvernd er hins vegar ekki komin með samning við Sjúkratryggingar Íslands um að opna heilsugæslustöð á Akureyri. Þetta breytir því hins vegar, miðað við skilaboð Vals Helga, að hann getur þjónustað viðskiptavini Heilsuverndar á Akureyri.
Í skilaboðunum sagði orðrétt: „Nú hef ég látið af störfum á Heilsugæslunni á Akureyri og er farinn að vinna á Heilsugæslunni í Urðarhvarfi í Kópavogi en verð á Akureyri með starfsaðstöðu á Læknastofum Akureyrar á Glerártorgi. Þeir sem vilja halda áfram hjá mér þrátt fyrir þetta geta flutt sig yfir því að breyta skráningu á heilsugæslustöð, annars mun HSN halda áfram að sinna þér ef þú vilt það frekar.“
Bara notkun sem tengist sjúkraskrá heimil
Í svari embættis Landlæknis kemur fram að þær reglur gildi um notkun Heilsuveru að eingöngu megi nota forritið þegar um er að ræða notkun á sjúkraskrá einstaklinga. Í tilfelli Vals Helga var hins vegar um markaðslegan tilgang að ræða þar sem hann bauð skjólstæðingum sínum að skipta úr opinberri heilsugæslu og yfir í einkarekna.
Um tilgang Heilsuveru segir í svari Landlæknis: „Í stuttu máli má segja að notkun Heilsuveru af hálfu læknis eða annars heilbrigðisstarfsmanns eigi ekki að vera með öðrum hætti en þegar um notkun sjúkraskrár er að ræða. Embætti landlæknis hefur ekki gefið út leiðbeiningar eða verklagsreglur um almenna notkun á viðmótinu, enda á heilbrigðisstarfsfólk að þekkja ákvæði laga nr. 55/2009 um sjúkraskrá. Enn fremur er það svo að embætti landlæknis heldur úti Heilsuveru en stýrir ekki notkun hennar eða hefur aðgang að þeim upplýsingum sem þar er að finna. Slíkt er, líkt og kveður á um í fyrrnefndum lögum, á ábyrgð starfstöðva heilbrigðisstarfsfólks hverju sinni.“
Landlæknir segir að embættið hafi eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum og þjónustu heilbrigðisstofnana og að þess vegna sé umrætt mál inn á borði þess nú „Heilbrigðisstofnanir hafa eftirlit með aðgengi að sjúkraskrá og notkun þeirra, og Heilsuvera er í raun framlenging á sjúkraskrá. Embætti landlæknis hefur aftur á móti eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum og af þeim sökum er umrætt mál sem áður segir til skoðunar hjá embættinu.“
Athugasemdir