Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi HS Orku, segir hitavatnslögn sem þjónustar Reykjanesbæ og stóran hluta Suðurnesja vera í hættu vegna hraunflæðis. „Hún gæti orðið fyrir skemmdum ef ekki tekst að verja hana í tíma.“ Í þessum töluðu orðum er starfsfólk HS Orku á vettvangi að reyna að fergja hana.
„[Við] erum að reyna að fergja lögnina og tryggja að hitavatnsæðin muni áfram virka sem skyldi,“ segir Birna.
Í uppfærslu frá eldfjalla- og náttúruvárhópi Suðurlands, sem haldið er úti af sérfræðingum á Facebook, segir að staðan sé „mjög alvarleg“. Í færslu hópsins, sem birtist rétt fyrir klukkan 11 í dag segir að aðeins einn kílómetri sé frá Grindavíkurvegi, sem hraunið hefur þegar þverað, og að hitaveituæðinni.
Hjá HS Orku hefur á síðustu vikum verið unnið í samræmi við hraunflæðilíkön og viðbragðsáætlanir við að koma lögninni í jörðu. „En verkefninu var ekki lokið og þeir sem hafa unnið að því verkefni eru á staðnum núna að gera það sem í þeirra valdi stendur,“ segir Birna.
Í samtali við RÚV segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn Almannavarna hjá Ríkislögreglustjóra, að samkvæmt hraunflæðislíkönum sem unnið er út frá núna muni það taka innan við þrjár klukkustundir fyrir hraunið að ná hitaveituæðinni.
Í tilkynningu frá HS Veitum kemur fram að hraunflæðið renni nú í átt að stofnlögn sem flytji heitt vatn frá Svartsengi til Fitja í Reykjanesbæ. Afleiðingar þess að hraun flæði yfir lögnina eru að ekkert heitt vatn berist frá Svartsengi til Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar, Grindavíkur og Voga.
Nú þegar hefur afhending á heitu vatni verið skert til stórnotenda.
Íbúar og atvinnulíf á svæðinu eru beðnir um að lækka hitann á húsum sínum og nota ekki heitt vatn til baða. Er þetta til þess að hitavatnsbirgðir endist sem lengst til að halda hitanum á húsum á svæðinu.
Athugasemdir