Þann 14. nóvember síðastliðinn var strikað yfir nafn Grindavíkur á skilti við afleggjara kaupstaðarins á Reykjanesbraut. Fjórum dögum fyrr hafði bærinn verið rýmdur sökum þess að logandi hraun var talið á leið til yfirborðs og spár vísindamanna á þann veg að gos gæti hafist þá og þegar, jafnvel undir húsum íbúa. Þá höfðu jarðskjálftar staðið yfir í rúm þrjú ár og þrenn gos orðið innan bæjarfélagsins – þó ekki enn í byggð.
Miklar jarðhræringar fylgdu kvikusöfnuninni undir Grindavík þarna fjórum dögum áður en strikað var yfir nafnið á skiltinu. Stór sprunga opnaðist í bænum miðjum, frá nyrstu einbýlishúsum, framhjá inngangi íþróttahússins, hjá innkeyrslu kirkjunnar, eftir aðalbrautinni endilangri og út í sjó til suðvesturs. Vestan megin sprungunnar seig byggðin niður um sem nemur hæð ruslatunnu frá sorphirðustöðvum landsins. Fjöll í grenndinni færðust til um því sem nemur venjulegu dyraopi.
Um fjögur þúsund manns flýðu heimili sín þessa nótt í nóvember. Fólk um allt land opnuðu hús sín fyrir þeim og í versta falli þurftu fjölskyldur að gista um tíma á beddum í fjöldahjálparstöð á höfuðborgarsvæðinu. Hjúkrunar- og öldrunarheimilið í Grindavík rifnaði í tvennt, svo horfa mátti út um rifurnar til suðurs, upp í himininn, norður og niður. Veikasta fólkinu var komið fyrir á hjúkrunardeildum nærliggjandi bæjarfélaga og grindvískir starfsmenn keyrðu á milli staða til að sinna þeim.
Þegar líða fór á aðventuna var farið að áætla tímabundna heimkomu. En þá kom upp eldgos norðan við bæinn sem stóð í þrjá daga. Við það losnaði um spennu í jarðskorpunni og skjálftum fækkaði. Á Þorláksmessu gáfu yfirvöld íbúum leyfi til að flytja heim. Jólin voru haldin hátíðleg á 50 – 60 heimilum en jarðhræringar héldu áfram og juku grun um endurtekna atburðarás sem gæti endað með enn einu gosinu. Einungis var gist á 23 grindvískum heimilum um áramótin. Bygging varnargarða til að verja mikilvæga innviði var hafin. Á nýju ári fjölgaði fólki aftur í Grindavík.
Þann 10. janúar gerðist síðan sá hræðilegi atburður að maður hvarf niður um sprungu sem hann hafði starf við að fylla upp í á lóð við íbúðarhús í bænum. Eftir tveggja daga viðamiklar aðgerðir var ákveðið að hætta leit að manninum því lífi björgunarsveitarfólks var ógnað ofan í sprungunni í grjóthruni af völdum jarðskjálfta. Þarna virtust yfirvöld gera sér grein fyrir því að undir bænum væri mikið holrými og engin leið að tryggja að fleira fleira fólk hyrfi ekki ofan í jörðina.
Almannavarnir tilkynntu að innan þriggja sólarhringa leyfðist engum nema viðbragðsaðilum að vera á ferli í Grindavík. Áður en sá frestur rann út fór aftur að gjósa. Sprunga opnaðist innan varnargarða og alveg við byggð. Heimili urðu undir hrauni og allt í beinni útsendingu. Eldgosið varði aðeins í 44 klukkustundir en olli stórtjóni á eigum og innviðum. Í þessum hamförum myndaðist nýr sigdalur og eystri hluti bæjarins sökk. Á milli sigdældanna tveggja stendur nú íbúðablokk á rúmlega eins metra háum hól sem áður var eiginleg hæð bæjarins. Jörðin er enn á hreyfingu og líklegra en ekki að gjósi í febrúarmánuði.
Ljóst má vera að ekki verður búið í Grindavík næstu árin, hvort sem næsta eldgos verður það síðasta að sinni eða ekki. Undir bænum liggja dauðadjúpar sprungur. Fyrirtæki og atvinnuveitendur þurfa að finna öruggan stað til að vera á, ef þau eru ekki nú þegar búin að leggja niður stóran hluta starfsemi sinnar. Kvótinn er alveg örugglega ekki allur aftur á leiðinni heim. Ekki er þörf fyrir þá þjónustu sem veitti stórum hluta bæjarbúa atvinnu. Tugir húsa eru með öllu eyðilögð. Ekki er vitað með restina.
Við búum á eldfjallaeyju norður í Atlantshafi. Við vissum að þetta gæti gerst. Vísindamenn voru búnir að reikna út að sirka svona gæti þetta orðið. Sagan segir okkur að eldfjallið Ísland sé ekki kulnað. Búast mátti við því að Reykjanesið vaknaði á ný.
Samt var ekki til neitt plan. Ekkert regluverk var til í landinu sem sagði hvernig ætti að bregðast við gagnvart íbúum þegar byggð leggst í eyði vegna eldgoss. Stjórnmálaöfl hafa áratugum saman frestað því að hugsa um hið augljósa. Auðlinda- og hátekjuskattar sem búa til þjóðarsjóð til að bregðast við í neyð hafa verið slegnir út af borðinu aftur og aftur. Hið eðlilega viðbragð við manngerðum hamförum í hruninu fyrir einum og hálfum áratug síðan var að setja saman nýja stjórnarskrá sem tryggði að sameign þjóðarinnar væri fjárhagslegur grundvöllur innviða samfélagsins. Því var frestað. Það er ekkert plan.
Ætla má að raunum Grindvíkinga sé nú senn að ljúka eftir þriggja ára hamfaraskeið. Nú séu þeir allir komnir í öruggt skjól. Því er nú verr og miður öfugt farið. Fæstir þeirra fjögur þúsund íbúa sem flýja þurftu heimili sín eiga sér varanlegan íverustað. Forsvarsfólk Náttúruhamfaratrygginga Íslands hafa oftar en einu sinni sagt opinberlega að þau viti ekki hvort eða hvernig þau megi bregðast við því tjóni sem enn stendur yfir. Mikil óvissa ríkir. Stjórnvöld segjast ætla að færa óvissuna af Grindvíkingum yfir á ríkissjóð. Kemur neyðarplanið sem kynnt verður á föstudaginn til með að virka? Og verður farið að gera gáfuleg plön fyrir framtíðina?
Fá Grindvíkingar hús fyrir hús? Íbúð fyrir íbúð? Atvinnu fyrir atvinnu? Sömu laun? Fá þau öryggi sitt aftur? Fá þau kannski skuldir sínar í bakið ofan í þær sem þau þurfa nú að stofna til vegna þaks yfir höfuðið á nýjum stað. Hraust fólk farið að láta á sjá. Líkamleg veikindi eru farin að koma í ljós í streitunni sem fylgir því að vera á flótta og vita ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Raunum þeirra er ekki lokið. Þau upplifa algjöra óvissu í húsnæði til bráðabirgða og horfa fram á atvinnumissi. Ástandið hefur aldrei verið jafn slæmt og akkúrat núna þegar þau vita að yfirstrikunin á skilti Vegagerðarinnar við Grindavíkurafleggjarann gæti verið raunveruleg; Grindavík.
Fjölskyldu Lúðvíks Péturssonar sem féll niður um sprungu í Grindavík þann 10. janúar er vottuð samúð.
Athugasemdir