Laun og hlunnindi bankaráðsmanna, bankastjóra, framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna Landsbankans, að meðtöldu mótframlagi í lífeyrissjóði, aukast verulega á milli ára.
Árið 2022 námu greiðslur til hópsins sem skilgreindur er með þessum hætti 446 milljónum króna en heildargreiðslurnar í fyrra voru 572 milljónir króna, eða 126 milljónum krónum hærri. Það er aukning á kostnaði vegna þessa hóps upp á 28,2 prósent. Í ársreikningi Landsbankans vegna síðasta árs, sem var birtur í gær, má sjá að við bætast þrír ónafngreindir einstaklingar í hópinn, einn fyrrverandi lykilstarfsmaður og tveir lykilstarfsmenn. Viðbótarkostnaður vegna þeirra á síðasta ári var 89,3 milljónir króna.
„Meðalmánaðarlaun hennar hækkuðu um 370 þúsund krónur á mánuði milli ára, og heildarlaunin á árinu um 4,4 milljónir króna“
Eftir standa því 36,8 milljónir króna sem laun, hlunnindi og lífeyrissjóðsgreiðslur þeirra 17 bankaráðsmanna og stjórnenda sem störfuðu hjá bankanum 2022 og 2023, hækkuðu um á milli ára.
Launaskrið hjá formanni bankaráðs
Bankastjórinn Lilja Björk Einarsdóttir er launahæsti starfsmaður bankans með 66 milljónir króna í laun, hlunnindi og mótframlag í lífeyrissjóð, en það felur bæði í sér framlag í séreignasjóð og lögbundið mótframlag í sameignarsjóð. Það þýðir að Lilja var með 5,5 milljónir króna í laun að meðaltali á mánuði á árinu 2023.
Meðalmánaðarlaun hennar hækkuðu um 370 þúsund krónur á mánuði milli ára, og heildarlaunin á árinu um 4,4 milljónir króna. Sú sem fékk mestu launahækkunina var hins vegar Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans og formaður starfskjaranefndar bankans. Laun hennar og hlunnindi hækkuðu um 21 prósent milli ára og voru 1,5 milljónir króna á mánuði. Til viðbótar fékk hún mótframlag í lífeyrissjóði upp á 1,9 milljónir króna á síðasta ári sem þýðir að meðallaun í heild á mánuði voru tæplega 1,7 milljónir króna.
Alls hækkuðu greiðslur til bankaráðsins og tveggja varamanna í því, samtals níu manns, um 6,9 milljónir króna. Af þeirri upphæð fór 46 prósent til Helgu Bjarkar.
Landsbankinn er að nánast öllu leyti í eigu íslenska ríkisins og bankaráðsmenn því fulltrúar þess. Landsbankinn hagnaðist um 33,2 milljarða króna á síðasta ári og ætlar að greiða um helming þess hagnaðar, alls 16,5 milljarða króna, út í arð til hluthafa bankans.
Það er örugglega gaman fyrir suma að hafa ofurlaun og líka fyrir aðra að hafa háar arðgreiðslur, en hafa ber í huga að kakan er bara ákveðið stór hvort sem er hjá einkafyrirtækjum eða hjá ríkinu og ef sumir taka "ofursneiðar" þá er bara minna til skiptanna fyrir hina. Auk þess verður varan sem fyrirtækið framleiðir að vera dýrari fyrir vikið sem bitnar á neytendum eða skattgreiðendum.Ég heyrði um daginn stungið uppá að hæstu laun væru fjórföld lágmarkslaun, mér finnst það ekki slæm hugmynd í ljósi þess að öll störf eru mikilvæg og að sanngirni sé gætt. Það þyrfti þá að koma betur til móts við námsmenn þ.a. námslánin séu að meiru leiti styrkur en lán, þ.a. fólk tapaði ekki á að mennta sig. En þar sem sumir taka stærri sneiðar af kökunni en aðrir (og sumir raunar mun meira en þeir hafa nokkurn tíma þörf fyrir) þá finnst mér sanngjarnt að þeir leggi meira til svo sanngirni sé gætt.