Svo virðist sem veðurspár hafi gengið eftir á suðvesturhluta landsins og gott betur. Spáð var 15-20 metra vindhraða á sekúndu og raungerðist það víða. Þannig fóru hviður í Reykjavík í 28 m/s á mælum Veðurstofunnar milli kl. 14 og 15 í dag. Meðalvindur var þá um 17-18 m/s.
Mestur vindur á láglendi hafði kl. 16.00 í dag mælst við Reykjanesvita. Þar var meðalvindur 28 m/s og allt upp í 38 metra í hviðum. Litlu minni vindur mældist á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og á Fróðárheiði á Snæfellsnesi.
Um tíma voru allar helstu leiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu lokaðar, m.a. Hellisheiði, Kjalarnes Mosfellsheiði og Reykjanesbraut. Sú síðastnefnda var opnuð á ný síðdegis en þar er enn stórhríð og snjóþekja, segir á kortum Vegagerðarinnar. Þar má líka sjá að 28 m/s vindur mældist í hviðum á Miðbakkanum í Reykjavík í dag.
Veðrið á að ganga niður á höfuðborgarsvæðinu um kl. 17.30 og verður gulri viðvörun Veðurstofunnar þá aflétt. Á Suðurlandi er varað við dimmum éljum og skafrenningi með lélegu skyggni fram á kvöld.
Athugasemdir