„Þessi einstaklingur sem þegar var sviptur frelsi sínu þurfti að sætta sig við sjálfræðissviptingu og það að taka lyf gegn vilja sínum,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga og annarra áhugamanna um fangelsismál og betrun.
Hann segir þau hjá Afstöðu hafa haft málefni mannsins til meðferðar hjá sér „en hann hefur um nokkurt skeið talið sig beittan miklum órétti. Að hans mati hafa sérfræðingar brugðist honum með röngum greiningum og í kjölfarið ólöglegum þvingunum,“ segir Guðmundur Ingi.
Reiður og ringlaður
„Hann er eðlilega mjög reiður og ringlaður en einnig sár enda má ekki betur sjá en að hann hafi haft rétt fyrir sér,“ segir hann.
„Að hans mati hafa sérfræðingar brugðist honum með röngum greiningum og í kjölfarið ólöglegum þvingunum“
Maðurinn sem um ræðir hefur verið í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni síðan í lok mars 2023. Hann hefur lagst gegn því að vera lagður inn á geðdeild og mótmælt því að taka geðrofslyf í töfluformi. Hann var sviptur sjálfræði þann 2. janúar í Héraðsdómi Reykjavíkur en Landsréttur vísaði málinu frá dómi og maðurinn því aftur kominn með sjálfræði. Í millitíðinni var hann þvingaður til að taka geðrofslyf - lyf sem hann vill ekki taka.
„Allt rangt við þetta“
Verjandi mannsins, Ingi Freyr Ágústsson, sagði við Heimildina á föstudag að grafalvarlegt væri „að dæla lyfjum í fólk án nokkurrar heimildar. Og þetta eru sterk lyf. Það er það sem mér finnst alvarlegast í þessu,“ segir Ingi Freyr og bætir við: „Það er allt rangt við þetta.“
Ingi Freyr kærði úrskurðinn til Landsréttar fyrir hönd skjólstæðings síns. Þegar málið var fyrir héraði var aðalkrafa hans sú að málinu væri vísað frá því það ætti ekki heima hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og þar af leiðandi væri rangur aðili að krefjast sjálfræðissviptingarinnar, velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Landsréttur kemst að þeirri niðurstöðu í úrskurði þann 23. janúar að rétt varnarþing málsins sé Héraðsdómur Suðurlands og réttur aðili sveitarstjórnaryfirvöld í Árborg.
Farsjúkt fólk í fangelsi
Guðmundur Ingi segir ekki annað hægt en að vera hugsi yfir hvernig komið sé fyrir geðheilbrigðismálum fanga og sömuleiðis vinnubrögðum héraðsdómara í málinu.
„Það er ekki hægt að meta einstakling mjög veikan en um leið segja að hann eigi heima í fangelsi en ekki á sjúkrahúsi“
„Þá er það gríðarlega gagnrýnivert að ef umræddur einstaklingur er greindur jafn veikur og komið hefur fram að hann skuli enn vera vistaður í fangelsi. Við vitum að geðdeild hefur ekki viljað taka við honum vegna þess að samkvæmt matsmanni er hann of erfiður skjólstæðingur. Við erum þessu að sjálfsögðu ekki sammála eða því að umræddur matsmaður skuli vera yfirlæknir á sama sjúkrahúsi og neitar honum um vistun þar. Það er ekki hægt að meta einstakling mjög veikan en um leið segja að hann eigi heima í fangelsi en ekki á sjúkrahúsi. Það er bein mótsögn og hlýtur hreinlega að vera brot á sjálfsögðum mannréttindum umrædds einstaklings,“ segir Guðmundur Ingi.
„Öllum er ljóst að víða er pottur brotinn þegar kemur að meðferð þessa máls og mörgum öðrum, og á meðan heilbrigðiskerfið og dómskerfið deila um hver eigi að sjá um einstaklinginn er fólk fársjúkt í fangelsi. Hvar erum við eiginlega stödd?“ spyr hann og segist vel geta tekið undir orð Inga Freys lögmanns „um að það er bara allt rangt við þetta og að þetta er mjög alvarlegt mál.“
Athugasemdir