Einn var úrskurðaður látinn þar sem bílslys varð skammt vestur af Pétursey, milli Sólheimasands og Víkur í Mýrdal, um miðaftann, klukkan 18. Í slysinu rákust á jeppi og dráttarvél.
„Aðrir slasaðir voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítala í Fossvogi,“ segir í tilkynningu lögreglunnar á Suðurlandi. Tildrög slyssins eru í rannsókn. Mikil hláka hafði verið þar sem slysið varð, en veghiti við frostmark og stinningskaldi úr vestri.
Óvenjumörg banaslys hafa orðið í umferðinni í janúarmánuði. Nú eru sex látnir í umferðinni innan eins mánaðar en allt árið í fyrra létust níu manns á þjóðvegunum.
Fyrir tveimur vikum lést ökumaður fólksbíls eftir að hafa lent í árekstri við flutningabíl sem kom úr andstæðri átt og rekist á annan flutningabíl í kjölfarið á þjóðvegi 1 skammt frá Hvalfjarðarvegi. Þann 12. janúar létust tveir í slysi á Hringveginum vestan við Skaftafell og 5. janúar lést tvennt á Grindavíkurvegi.
Í samtali við Ríkisútvarpið fyrr í mánuðinum sagðist Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu, fjölda banaslysa vera einsdæmi. „Ég man alla vega ekki eftir að svo margir hafi látist svona snemma á árinu.“
Á þessari öld létust flestir í umferðinni árið 2000, eða 32. Í venjulegu árferði eru banaslys fátíðari á Íslandi en í flestum öðrum löndum. Árin 2018 til 2022 létust sem samsvarar 2,78 af hverjum 100 þúsund íbúum í bílslysum hérlendis. Af evrópskum samanburðarlöndum létust eingöngu færri í Bretlandi, Svíþjóð og Noregi.
Athugasemdir