Framlög til Ríkisútvarpsins hækkuðu um 1,6 milljarða króna á árunum 2017 til 2023 vegna fólksfjölgunar. Þetta kemur fram í svari Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra við skriflegri fyrirspurn Vilhjálms Árnasonar þingmanns Sjálfstæðisflokks.
Samkvæmt heimasíðu Skattsins er útvarpsgjald lagt á öll fyrirtæki auk einstaklinga á aldrinum 16-70 ára sem eru með tekjur yfir tekjumörkum. Tekjumörkin nema 2.276.569 krónum fyrir árið 2024. Upphæðin er sú sama fyrir alla óháð tekjum og eignum og er nú 20.900 krónur.
Í svarinu frá menningarráðherra kemur fram að þótt fleiri nýti sér þjónustu RÚV aukist kostnaðurinn við þjónustuna ekki í jöfnu hlutfalli við mannfjölgunina. Þó geti kostnaður aukist með frekari þjónustu við ólíka hópa samfélagsins. Til dæmis aukið framboð á efni fyrir ólíka aldurshópa, efni á auðskildu máli sem meðal annars er ætlað fötluðu fólki og efni sem ætlað er fólki af erlendum uppruna.
Athugasemdir