Hvernig veður maður yfir samfélög og náttúru á skítugum skónum? Eitt skref í einu.
Eitt skref er lítið, það munar ekkert um það ef engin önnur skref fylgja á eftir. Hver vegferð er einstök þar til hún er sett í samhengi við aðrar. Fram að því er engin heildarmynd, bara pússlubitar í óreiðu. Lítil lagabreyting hér og reglugerðarbreyting þar, að ekki sé nú minnst á þær breytingar sem ekki nást í gegn, sýna sig síðar þegar á reynir. Þá stendur almenningur uppi og spyr sig: Hvernig gat þetta gerst?
Falin með 9,9
Ein snjallasta aðferðin til að troða allskonar virkjunum í gegn án þess að röflarar landsins fái nokkuð að gert, er að reisa virkjun sem er undir 10 MW. Þegar hún er komin, þá er landið þar orðið raskað og þar með hverfa öll rök um gildi óraskaðra svæða. Þá verður lítið mál að fá að stækka virkjunina, því til þess þarf voða lítið rask, jafnvel ekkert meira rask, bara stærri túrbínu. Það eru margar svoleiðis virkjanir á teikniborðum og borðum skipulagsafgreiðenda víða um land.
Nýjasta hugmyndin að undir 10 MW virkjun kíkir upp úr umsögn Landsvirkjunar um tillögur að Svæðisskipulagi Suðurhálendisins.
Blásið á víðerni
Landsvirkjun byrjar á að þvogla um víðerni og bendir á að þótt „óbyggð víðerni“ séu skilgreind í lögum um náttúruvernd, þá sé engin almenn og viðurkennd skilgreining á víðernum. Í greinargerð með náttúruverndarlögunum var boðað að kortleggja ætti víðerni fyrir 1. júní 2023, en þar sem það er ekki búið er minnt á að til þess þurfi aðkomu „hagaðila“. Í tillögunni að Svæðisskipulagi Suðurhálendisins segir að „nýir virkjanakostir skulu ekki skerða víðerni“. Tillaga Landsvirkjunar að orðalagi („samræmi í texta“) er: „nýjar virkjanir og háspennulínur verða eingöngu heimilar þar sem skerðing á víðernum er í lágmarki.“ Eflaust geta hagaðilar ráðlagt hvernig á að skilgreina það lágmark.
Hóflega raskað mannvirkjabelti
Í umsögn Landsvirkjunar er kaflinn: Tækifæri tengd mögulegri Hágönguvirkjun. Sá kafli hefst svona: „Landsvirkjun hefur til skoðunar jarðvarmavirkjun við Hágöngur og býður sú virkjun upp á margvíslega áhugaverða möguleika sem styðja við uppbyggingu ferðaþjónustu á Suðurlandi. Hér á eftir má sjá sértækar athugasemdir Landsvirkjunar er varða mögulega jarðvarmavirkjun við Hágöngur og samræmi í texta.
Virkjunarkosturinn við Hágöngur er í biðflokki þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar (rammaáætlun). Sú útfærsla Hágönguvirkjunar sem lögð var fram er með 150 MW uppsettu rafafli og áætlaðri orkuvinnslugetu upp á 1260 GWst á ári. Sem hluta af undirbúningsrannsóknum hefur Landsvirkjun nú þegar aflað gufu við Hágöngur með áætluðu 3−4 MW afkastagetu í rafafli. Öll mannvirki virkjunarkostsins eru við Hágöngulón og innan mannvirkjabeltis þess.”
Til skýringar þá er mannvirkjabeltið við Hágöngulón rétt utan Vatnajökulsþjóðgarðs. Til þess er hlykkur á þjóðgarðsmörkunum austurfyrir Sveðjuhraun, sem er hraun austan Hágöngulóns þar sem áformað er að reisa Hágönguvirkjun með skáborun undir Hágöngulónið sem drekkti háhitasvæðinu sem nú er áformað að virkja.
Í umsögninni segir frá því að það að Sveðjuhraun sé raskað svæði stafi af því að stjórnvöld voru eitthvað að raska áformum um hið lygna Hágöngulón árið 1996, þegar Skipulagsstofnun kvað á um að rannsaka skyldi jarðhitasvæðið áður en Hágöngulón yrði fyllt. Út úr þessari stjórnvaldsskipuðu kvöð kom svo í ljós að það væri jákvætt að virkja háhitann líka og þess vegna lagði Landsvirkjun fram tillögu um Hágönguvirkjun og boraði smá rannsóknarholur þar. Nú er Hágönguvirkjun í biðflokki, en „Landsvirkjun hefur nú til skoðunar að leggja fram endurskoðaðan orkukost við Hágöngur til meðferðar verkefnisstjórnar rammaáætlunar.“
Hágöngubaðlón
Eftir að Landsvirkjun hefur „lagt verulega fjármuni í að kanna möguleika hagnýtingar jarðhita“ hefur hún komist að því að „möguleikar eru til staðar hvort sem yrði af virkjunarframkvæmdum yfir 10 MW í kjölfar flokkunar í orkunýtingarflokk rammaáætlunar, eða smávirkjun sem nýtti borholu sem nú þegar er á svæðinu og stutt gæti við aðra nýtingu svæðisins á sjálfbæran hátt.“ Svo kemur nánari lýsing á nýtingu þessarar 3-4 MW borholu, sem er vel að merkja núna á röskuðu víðerni.
Til að minnka umhverfisáhrif af gufustrókum frá borholunum er lagt til að kæla gufuna niður með köldu vatni sem nóg er af í Hágöngulóni. Kalt vatn + heit gufa = baðlón! Eða eins og segir í bréfi Landsvirkjunar: „Sem hluta af endurskoðun virkjunarkostsins hefur Landsvirkjun til skoðunar hugmyndir um sameiginlega nýtingu starfsmannabyggingar og gestastofu með Vatnajökulsþjóðgarði ásamt gistingu fyrir ferðamenn“ .... ásamt „mögulegri baðiðkun“ og „upphituðu tjaldsvæði“.
Í samhengi við þetta gerir Landsvirkjun athugasemd við boðaða lækkun ferðaþjónustustigs við Hágöngur úr flokki skálasvæðis niður í fjallasel og vill að „Hágöngur verði áfram í flokki skálasvæðis og/eða sá möguleiki kannaður að hækka þjónustustig í hálendismiðstöð“.
Þúfan sem veltir hlassinu
Í grein sem ég skrifaði á vefritið Kjarnann, 17. maí 2015, undir fyrirsögninni Skrokkalda – þúfan undir hlassinu, segir: „Af hverju leggur virkjanageirinn svona mikla áherslu á að fá Skrokkölduvirkjun inn í nýtingarflokk Rammaáætlunar? Það er af því þeir hafa fyrir löngu síðan leysa barnaskólagátuna: Hvernig borðar maður fíl? Einn bita í einu!
Skrokkalda er litla þúfan sem á að velta stóra hlassinu, fleiri virkjunum á miðhálendinu sem tengjast skulu inn á nýja raflínu yfir hálendið og uppbyggðum vegi til að þjóna virkjununum. Jarðgufuvirkjanir við Hágöngulón, vatnsaflsvirkjun við Skrokköldu, Sprengisandslína og uppbyggður vegur yfir Sprengisand, eru óaðskiljanlegar framkvæmdir.”
Síðar í grein minni segir: „Vandi Landsvirkjunar liggur ekki í því hvernig eigi að brytja fílinn, heldur á hvern hátt eigi að reiða fram bitana til að dekstra þeim ofan í krakkaormana, umhverfisverndarfólk og stjórnmálamenn.“
Landsvirkjun er í óðaönn að brytja fíl. Skrokkölduvirkjun er á leið í nýtingarflokk og allt á fullum snúningi við að hrinda henni í framkvæmd. Að henni og að Hágöngulóni stendur til að leggja uppbyggðan veg með skeringum og fyllingum sem á að vera opinn í a.m.k. 6 mánuði á ári (að vísu þarf heilsársveg að stórri jarðgufuvirkjun). Fílakjötið er komið í maríneringu með uppbyggðum vegi, hálendismiðstöð, gestastofu, veitingahúsi, hóteli, baðlóni og upphituðu tjaldsvæði. Eftir allt þetta manngerða rask verður síðar auðsótt að fá hina eiginlegu 150 MW Hágönguvirkjun.
Svo þarf að ráðast í smá mótvægisaðgerðir við Skrokköldu, þar sem eitthvert Eyrarósargil gæti horfið. Mótvægisvinnuflokkurinn getur örugglega planta nokkrum plastblómum þar.
Athugasemdir