Tveir karlmenn standa andspænis hvor öðrum, það vill svo til að þeir fæddust í sömu tímalúppunni í endaleysi eilífðarinnar; tveir miðaldra menn árið 2024.
Nema annar kemur frá Gaza, hinn býr í Garðabæ. Sá fyrrnefndi á hvergi heima, síðarnefndur kemur af sterkefnaðri fjölskyldu með ítök víða í fámennu samfélagi.
Þeir standa andspænis hvor öðrum á Austurvelli í janúarargráma og tala. Rödd þess úr Garðabænum berst á ljóshraða inn á svo að segja hvert heimili á Íslandi. Hinn hefur enga áheyrendur.
Hann býr á götunni, það á að reka hann úr landi. Hann heitir Ahmad Almamlok. Hinn heitir Bjarni Benediktsson.
Í þessu leikriti segir Bjarni: Það er hörmung að sjá þig hérna. Óboðlegt með öllu að þú sért hér, á þessum helga stað.
Ahmad segir: Ég missti fjögur börn og konuna mína þegar Ísraelar sprengdu heimili okkar. Dóttir mín var bara níu ára. Hún lifði særð í örfáa daga en enginn gat aðstoðað við að koma henni á spítala. Hún dó.
En þetta er helgur staður, segir Bjarni þá. Þú ert ekki nógu helgur til að dvelja hér.
IceHot1 og flóttamaður Miðflokksins
Inn á hið helga svið stígur þá fjölradda kór, klæddur kjólum sem eru munstraðir eins og íslenski fáninn og syngur við tónana úr Ave Maria: IceHot1, við skiljum áhyggjur og óvissu þeirra sem hér dvelja fjarri fjölskyldum sínum, IceHot1, en hér er maður, helgur staður ...
Til hliðar við kórinn standa Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra og Birgir Þórarinsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum flóttamaður úr Miðflokknum. Þau eru bæði afar helg á svip, líka Birgir sem fylgdi köllun sinni með brotthlaupi úr flokknum sem hann var kosinn til að þjóna – þannig að rökstyðja mátti að hann hefði með því móti vanhelgað kosningahelgi þjóðarinnar. Einhverju liði úti í bæ finnst vera hins syrgjandi föður öllu alvarlegri en sú vanhelgun lýðræðislegra gilda þegar Birgir sneri baki við kjósendum sínum kortéri eftir kosningar – á grundvelli forsenda sem lágu fyrir í aðdraganda þeirra.
IceHot1 IceHot1 ... heldur kórinn áfram að syngja, snarheilögum rómi, og horfir frelsandi augnaráði á Ahmad sem reyndi að hringja í Rauða krossinn á Íslandi til að biðja um hjálp við að færa dóttur sína á spítala en enginn svaraði. Fyrr en daginn eftir að hún lést.
Amen, tuldra Guðrún, Birgir og Bjarni, um leið og þau lúta höfðum, sameinuð í vissu sinni að Austurvöllur sé ekki staður til að krefjast fjölskyldusameiningar, þar geti menn ekki leyft sér að frjósa í tjaldi og óttast það helst að börn þeirra, eiginkonur og ættingjar látist meðan þeir bíða þar. Til þess er Austurvöllur of helgur.
Ásmundur Friðriksson krossfestur
Ásmundur Friðriksson stendur álengdar en reynir ákaft að komast til þeirra, inn á völlinn sjálfan, en kemst hvergi því búið er að slaufa honum vegna skoðana hans á hælisleitendum. Krossfesta enn einn helgan manninn. Það hafa svokallaðir vinstri sinnaðir fjölmiðlar gert – og allir Píratar þessa heims!
Honum liggur á að verja sinn stað og grætur vanmátt sinn þegar ungur maður, sýnilega útlendingur – að mati hans, stígur út úr tjaldi á hinum helga stað og maðurinn segir: Við erum fjölskyldufólk.
En kórinn heldur áfram að syngja. Á meðan veruleikinn brýtur allt og bramlar. Þeytir kjólunum af kórmeðlimum og feykir styttunni af Jóni Sigurðssyni inn í tjald þeirra sem þrá að eiga sér land. Hitta börnin sín. Ættingja sína. Lifandi.
Ég bara minni á lýðveldið! hrópar Ásmundur af nístandi örvæntingu, um leið og palestínski fáninn fýkur framan í Bjarna Ben og hylur andlit hans. Ég minni á bensínið! hrópar þá Bjarni á ökuþórinn. Á N1 – allt bensínið sem þú keyptir hjá Olíufélaginu – okkar allra. Kúlúlán vort!
Hættið að ganga á grasinu!
Þjóð vor er knúin áfram af helgi, hrópar þá eitthvert þeirra en Birgir stígur fram í tilraun til að stöðva framrás tímans. Þennan óþolandi spriklandi veruleika sem fékk alþjóðasérfræðing til að gefa út bókina Breyttur heimur – fyrir þó nokkrum árum síðan.
Og Birgir hrópar upp úr skrifum sínum: Austurvöllur er helgur staður í huga Íslendinga. Þar standa minnisvarði Jóns Sigurðssonar forseta, Alþingishúsið og Dómkirkjan. Það ætti því að vera skylda hvers manns að ganga vel um staðinn og sýna honum virðingu. Þetta sagði Jón Benonýsson í viðtali í Vísi árið 1965. Jón var vörður á Austurvelli og gekk um völlinn með einkennishúfu frá morgni til kvölds allt árið í ýmsum veðrum og sá til þess að staðurinn væri þrifalegur, þar færi ekkert misráðið fram og ekki væri gengið á grasinu.
Já, hættið að ganga á grasinu! skipar Bjarni og fær nokkur þúsund læk.
Jafnvel búin að fá tilveru leyfi á Íslandi eða Noregi ? Þvílíkt óréttlæti sem Almamlok lendir í !
En stærstu skipulögðu glæpasamtök á Íslandi, sjálfstæðisflokkurinn.
Hefur skipulagslega komið í veg fyrir að íslenska þjóðin fái að samþykkja fyrrir samþyktir þjóðarinnar.
Og viðbjóðurinn heldur áfram í boði verkalýðsfólks, öryrkja ☻g ellilíeyrisþega, þaðan sem þessi skipulögðu GLÆPASAMTÖK sækja sitt mesta fylgi.
Go figure!
Beinmynduninn á milli eyrnanna á kjósendum er að kristallast hraðar en heilatuðran þeirra nær að mellta viðbjóðinn.
Ef þetta fær ekki þjóina til að hugsa sinn gang.
Þá er engin björgun í sjónmáli.