Ríkisstjórnin er lifandi lík. Traust milli flokka og einstakra stjórnmálamanna er ekkert orðið. Málefnaágreiningur, pirringur og vaxandi heift einkenna öll samskipti æ meira og það er alveg sama hve Katrín Jakobsdóttir brosir breitt — hún getur ekki falið lengur að tilraun hennar mistókst.
Eins og hún mátti raunar vita og var vöruð við frá fyrstu stundu.
Enda er svo komið að hennar einkavinur Bjarni Benediktsson virðist nú leggja sig sérstaklega fram um að niðurlægja hana í hverju málinu af öðru með því að ganga fram af stuðningsmönnum VG (þeim sem eftir eru) og ætla svo Katrínu að afsaka hátterni sitt gagnvart þeim.
Meira að segja sá orðvari prófessor Eiríkur Bergmann segir nú fullum fetum að ríkisstjórnin sé búin að vera, þótt hann orði það ekki nákvæmlega svona.
En þrátt fyrir að pólitísku samstarfi ríkisstjórnar Katrínar sé í reynd lokið, þá sýnist mér að flestir búist við því að enn verði reynt að tjasla stjórninni saman og láta hana hökta eitthvað áfram.
Því það sé eðlilegt að stjórnarflokkarnir vilji ekki kosningar á þessum tímapunkti þegar skoðanakannanir gefi til kynna að þeir muni allir tapa fylgi — þar eð fólk er að vonum hætt að treysta þeim.
En það er ekkert „eðlilegt“ við að stjórnmálaflokkar reyni að hanga á völdunum þótt öll merki í umhverfinu gefi til kynna að fólk vilji þá burt.
Það er þvert á móti óeðlilegt, ósiðlegt, óréttlátt og ósanngjarnt.
Flokkar eiga vissulega ekki að hlaupa eftir hvaða skoðanakönnun sem er, en þegar svo er komið að allir VITA að stór meirihluti fólks vill losna við tiltekna ríkisstjórn og láta gefa upp á nýtt, þá ætti þvert á móti að vera eðlilegt að sú ríkisstjórn lúti þeim vilja og fari frá.
Siðferði hinna lifandi dauðu snýst eins og við þekkjum úr óteljandi Zombía-myndum um að halda í lengstu lög í síðasta lífsneistann og reyna að leggjast á lifandi fólk til að nærast af því.
Það er gott og gilt í sjónvarpsþáttunum Living Dead en ætti ekki að teljast eðlilegt í íslensku stjórnmálalífi.
Siðferði Zombíanna er ekki til eftirbreytni.
Og ég held að þjóðin vilji síst af öllu að sjálfdauð ríkisstjórnin nærist lengur á henni í valdagræðgi sinni og pólitískri blindu.
Stjórnin á að fara frá og það tafarlaust — aðeins það mundi að minnsta kosti auka virðingu mína fyrir þeim stjórnmálaflokkunum sem þar um véla, ef þau gætu tekið svo sjálfsagða ákvörðun án þess að hafa eingöngu sín eigin völd og sitt eigið launaumslag í huga.
Athugasemdir