Ég var fyrir stuttu stödd í búningsklefa líkamsræktarstöðvar á annatíma með vinkonu minni. Vinkona þessi lætur allt flakka. Með tignarlegan handklæðatúrban á höfðinu og hálfan skrokkinn inni í skápnum fann ég hvernig hún mændi á mig þegar ég stóð andspænis henni, nakin og berskjölduð. „Hvað!“ sagði ég og setti í brýrnar og eignaði henni allar heimsins grunsemdir. „Djöfull líturðu vel út!“ sagði hún og nikkaði í átt að kviknöktum skrokknum mínum.
„Ha!“ sagði ég og hló vandræðalega og varð óþægilega meðvituð um sjálfa mig. Ég sá út undan mér að nokkar konur veittu samtali okkar eftirtekt. „Já, takk,“ sagði ég og hélt áfram að klæða mig. „Hvað ertu þung?“ heyrðist síðan spurt. Ég fraus með brækurnar um mig miðja. Á örskotsstundu fór taugakerfið á yfirsnúning. Ég varð skyndilega eins vör um mig og antílópa innan um tígrisdýr. Hættuástand hafði skapast. Ég fann kaldan hroll fara eftir hryggnum og hvernig öndunin varð grynnri. Mig svimaði smá og óraunveruleikatilfinning tók yfir. Ég fann hvernig augun leituðu strax að útgönguleið.
Konurnar í klefanum stóðu stjarfar úr hræðslu í kringum okkur með augun galopin eins og ofurviðbrigðnar uglur. Frosnar af forundran yfir markarleysi vinkonu minnar. Það mátti heyra saumnál detta. Kvíðatilfinningin sem ég var að upplifa var kvíði okkar allra þarna inni í klefanum. Það var verið að krefjast svars á því sem aldrei er sett í orð. Þyngdartölu kvenna. Mælikvarðinn á allt sem að okkur snýr. Ég var ekki ein um að vilja koma mér á eldingshraða út úr þessum aðstæðum.
Hlussan sem hló
Það sem gerðist í kjölfarið var að þrálát þörf mín til að skilja umhverfi mitt tók yfir. Ég svaraði fremur hátt „Ég er 90 kíló.“ Uglurnar tóku andköf yfir því að ég svaraði í vitna viðurvist. „Ha! Ertu 90 kíló! Þú lítur ekki út fyrir að vera 90 kíló,“ sagði hún í tón sem gaf til kynna að ég ætti að vera þakklát fyrir að líta ekki út fyrir að eiga kílóin mín.
„Ég gerðist ótugt og fór að segja konum í óspurðum fréttum hvað ég væri þung og fór að spyrja þær um þeirrar þyngdartölur“
„Nú! Hvernig líta 90 kíló út?“ spurði ég. Hún yppti öxlunum og varð ögn meðvitaðri um sjálfa sig í aðstæðunum. „Hvað ert þú þung?“ spurði ég. Hún svaraði lágt „Ehhh, svona 68, held ég,“ og horfði í kringum sig til að athuga hvort uglurnar hefðu nokkuð heyrt skömmina. „Þú lítur ekki út fyrir að vera 68 kíló,“ sagði ég með tón. „Hvað meinarðu?“ sagði hún hissa. „Nú! Hvernig líta 68 kíló út?“ sagði ég þá, yppti öxlum og hló. Á leiðinni heim úr líkamsræktarstöðinni fór ég að velta því fyrir mér af hverju sé svona mikil skömm yfir þyngdartölu kvenna.
Ótugtin
Ég gerðist ótugt og fór að segja konum í óspurðum fréttum hvað ég væri þung og fór að spyrja þær um þeirra þyngdartölur. Ég fór að venjuvæða að tala um mína þyngdartölu án þess að finna til skammar. Ég áttaði mig hins vegar fljótlega á að þessar spurningar mínar voru ekki þær vinsælustu.
Forvitni mín tók samt sem áður yfirhöndina og ég henti í litla könnun til að sjá hvort karlkyns vinir mínir skömmuðust sín líka fyrir sína þyngdartölu. Ég sendi fyrirspurn um þyngd á nokkra vinahópa og niðurstöðurnar voru líkt og mig grunaði. Nær allir karlkynsvinir mínir svöruðu um hæl og tengdu ekkert við sína tölu nema þyngd á skrokk. Svör kvennanna létu hins vegar oft á sér standa. Ég frétti það síðan að margar þeirra vildu ekki vera fyrstar til að opinbera töluna sína. Flestar voru seinar til svars og margar sendu mér frekar einkaskilaboð heldur en að deila í hópnum. Sumar svöruðu ekki og aðrar báðu um nánari útskýringar fyrir spurningu minni. Líkt og hvað ég ætlaði að gera við svörin og hvort nöfn þeirra myndu nokkuð fylgja. Karlkyns vinir mínir deildu ekki þessum áhyggjum.
Ég fór í kjölfarið að velta því fyrir mér hvort við túlkum spurninguna ólíkt eftir kyni og hvort konur séu í raun að heyra spurt „Hvað ert þú feit?“ Fátt hefur nefnilega verið jafn neikvætt gildishlaðið og lýsingarorðið „feit“ í umhverfi míns tíma.
Átaksnámskeiðin
Ég er af kynslóð „Átaksnámskeiðanna“. Það þýðir að ég upplifði linnulausan áróður frá líkamsræktarstöðvum um að brenna fitu og létta mig. Áreiti þessi voru mest áberandi eftir barnsburð kvenna og aðra almenna breytingu á þyngd, á miðjum breytingaaldri, eftir sumarfrí og eftir jól. Skilyrt var í hugsun flestra að framþróun og hamingja einstaklingsins væri einungis möguleg í líkamsformi sem var léttara en skynsemi gerði ráð fyrir. Þyngdaraukning varð að samfélagslegri skömm. Skömm þessi var byggð á ótta. Ótti þessi tengdist útskúfun meðal jafningja. Útkoma sem öll félagsdýr reyna að koma í veg fyrir, oftar en ekki með samlögun við aðra óháð fjölbreytileika einstaklingsins. Að gildishlaða þyngdartölu kvenna að því marki að þær fari að venjuvæða að beita sjálfskaðandi hegðun hefur lengi verið partur af menningu þjóða.
Þrátt fyrir það þá tók ég þátt í þessu þegar ég var yngri. Ég fór á hvert átaksnámskeiðið á fætur öðru til að brenna heiftugri mör sem var þó oft illa sjáanleg. Ég náði einungis skammvinnum árangri enda rökrétt að það endi þannig þegar markmiðin eru órökrétt. Eftir langt tímabil og umhverfi þar sem þyngdartala mín var hlaðin skömm varð heili minn það órökréttur að hann krafði mig um þyngdarleysi. Ég fékk í kjölfarið sjúkdóm og endaði á spítala. Mannfræðingurinn í mér hefur ákveðið að nálgast þennan tíma fortíðarinnar með hlutleysi og forvitni til að skilja betur. Á þessum tíma þótti það eðlilegt að konum væri skipað í raðir í upphafi átakstíma og þær vigtaðar og mældar í viðurvist allra hinna. Sumar fengu „Vel gert!“ og „Ahhhh kemur“ á meðan nokkrar fengu „Æi“ og aumkunarvert augnatillit. Okkur var stíft talin trú um að einhvers lags kjörþyngd ylti einungis á hitaeiningar inn og hitaeiningar út, og að geta ekki náð stjórn á þeirri jöfnu þýddi að við værum verðlausar með öllu. Þyngd okkar varð lýsandi fyrir alla eiginleika okkar. Rökleysan fæddist.
„Ég fór á hvert átaksnámskeiðið á fætur öðru til að brenna heiftugri mör sem var þó oft illa sjáanleg“
Í dag vitum við að m.a. hormónar, áföll, streita, efnaskipti, erfðir og óheilbrigðir fituvefir eru mikilvægar breytur þegar kemur að því að skilja fitudreifingu á líkama kvenna. Við vitum það líka í dag að kona kemur ekki bara í einni þyngd og að gera þær kröfur er hættuleg sálarheill allra.
Það er mér minnisstæð kona sem án efa var með sjúkdóminn „fitubjúg“ sem lítið var talað um á þeim tíma. Hún mætti ítrekað á átaksnámskeiðin og var sú sem var sterk, stór, í hörkuformi og tók mest á. Hún var ótrúlega flott. Hún léttist ekki neitt og fékk viðmót kennara samkvæmt því. „Æi“ sagði ein þessara ungfrúa Íslandsmeyja með yfirlætisfullum tón og höfuð konunnar hallaði undir í skömm. Henni var ekki hælt fyrir dugnað sinn, hörku eða þol.
Lokaorð
Að kona geti ekki svarað spurningu um eitthvað eins hlutlaust og þyngd sína án þess að upplifa að það endurspegli virði hennar er til marks um að áhersluþættir samfélags okkar eru á skjön við heilbrigða skynsemi. Þetta er bæði sorglegt og skaðlegt. Hispursleysi mitt gagnvart eigin þyngdartölu hefur hins vegar gert það að verkum að ég hef átt skemmtilegri samtöl við fólk undanfarið. Kunningjakona hallaði sér upp að mér um daginn og sagði sig vera þremur kílóum frá mér. „Reyndu að ná mér,“ sagði ég þá og svo hlógum við djöfullega. Skammarleysið var algjört og það var frelsandi.
Athugasemdir (3)