Það er auðvelt að fá leiða á því sem virðist ekki ætla að breytast. Auðvelt að missa dampinn, ástríðuna, verða samdauna umhverfinu, venjast aðstæðum, horfa annað. Það er allavega mín upplifun.
Ég skrolla stundum hratt yfir myndbönd af grátandi foreldrum með líflausa líkama barna sinna í örmunum, loka augunum þegar ég sé aðra mynd af höndum og fótum stingast út undan sundursprengdum húsarústum, sleppi því að hlusta á sannanir um miskunnarleysi árásarhersins og hunsa eyðilegginguna sem blasir við almenningi í Gaza. Langar ekki að sjá meiri hörmungar eftir nærri hundrað daga af linnulausu þjóðarmorði.
Þvílík forréttindi.
Þvílík forréttindi að geta horft undan, að taka sér pásu, að lifa venjulegu lífi, að neyðast ekki til að horfa upp á vini, nágranna og fjölskyldu vera myrt úti á götu, svelta í hel eða vera grafin lifandi.
Hin 17 ára Asil al Masri er ein þeirra sem var bjargað úr rústunum eftir að Ísraelsher sprengdi húsið hennar í loft upp. Hún missti móður sína, föður, systur, frænkur, frænda, frændsystkin, hverfið sitt og annan fótinn þennan dag.
„Við megum ekki láta forréttindin blinda okkur, megum ekki horfa undan.“
Síðastliðna helgi mætti hún á Austurvöll og lýsti yfir þakklæti. Þakklæti til Íslendinga fyrir að hafa leyft henni að hitta bróður sinn aftur. Þakklát fyrir að vera meðal þeirra örfáu sem hafa hlotið ríkisborgararétt, vernd, og fengið að sameinast eftirlifandi fjölskyldumeðlimum hér á landi.
Þakklát Íslendingum sem eru margir komnir með leiða á því að fylgjast með þjóðarmorðum í landinu hennar, leiða á að geta ekki keypt sér kók og snyrtivörur því það fjármagnar Ísraelsher, leiða á því að mæta á mótmæli, leiða á því að þurfa að horfa á sársauka annarra, leiða á því vegna þess að við neyðumst ekki til að upplifa það sjálf.
Það er auðvelt að fá leiða og gefast upp þegar ekkert virðist breytast en við megum ekki láta það eftir okkur. Megum ekki láta forréttindin blinda okkur, megum ekki horfa undan.
Athugasemdir (1)