Í byrjun desember sagði Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra Íslands, að „það þjóni [ekki] neinum tilgangi fyrir okkur að fara í einhliða viðskiptaþvinganir“ og bætir svo við að „almennt eigum við ekki að vilja fara þá leið að slíta stjórnmálasambandi“. Hver eru skilaboðin?
Ég er sammála því að almennt ættum við ekki að slíta stjórnmálasambandi við önnur ríki. En almennt eru ríki heims ekki að stunda grimmdarverk af þeirri stærðargráðu sem eiga sér stað á Gaza. Almennt er ekki verið að stunda þjóðernishreinsanir með hátæknivopnum. En þegar grimmileg, skipuleg og ríkisrekin fjöldamorð eru stunduð, þar sem konur og börn eru drepin í þúsundatali, þá gildir hið almenna ekki lengur. Þá gildir hið sérstaka.
En hvað með að hætta viðskiptum við Ísrael? Það þjónar kannski ekki neinum tilgangi fyrir okkur, eins og Bjarni sagði, ef við sjáum tilgang lífsins einungis í efnislegum gæðum. Að hætta viðskiptum við volduga þjóð með ennþá voldugri vini gerir okkur ekki ríkari. En það væri samt yfirlýsing um að við sem þjóð – lítil og vanmáttug þjóð á hjara hins byggilega heims – krefjumst þess að mannréttindi séu virt. Það væri yfirlýsing, jafnvel ákall, um að við viljum ekki að þjóðarmorð séu framin í okkar nafni.
En kannski þjónar engum tilgangi að tala fyrir mannréttindum þegar þau eru troðin undir hælum brjálaðra stríðsherra. Kannski þjónar engum tilgangi að hafna fjöldamorðum þegar þau eru stunduð með skipulegum hætti og studd öflugustu efnahags- og herveldum heims. Kannski er það bara öskur út í tómið.
Kannski, en stundum er betra að öskra heldur en að sitja þegjandi hjá. Við stöðvum ekki stríðið en við getum tekið afstöðu gegn því. Að tala máli mannréttinda og mannúðar þjónar þeim tilgangi að fólk geti horft í spegilinn á morgnana og sagt: „Við samþykkjum þetta ekki“. Kannski þjónar það þeim tilgangi að fólk geti farið út í daginn, þessa litlu birtu sem okkur hlotnast í skammdeginu, án þess að skammast sín fyrir að tilheyra þessari þjóð. Kannski, ef við finnum leið til að segja svo eftir verði tekið að við líðum ekki þjóðarmorð, þá getum við gengið upprétt og horft framan í hvert annað. Og ef við getum gengið þannig, við þessar fáu hræður á jaðri heimsins, þá kannski finna aðrar manneskjur, jafnvel aðrar þjóðir, leið til að segja líka: „Við líðum ekki þjóðarmorð“. Stundum veltir lítil þúfa stóru hlassi. Og þá kannski verður lífi nokkurra manneskja þyrmt.
Það var eftir hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar að nokkrar þjóðir komu saman og sömdu yfirlýsingu um það sem mætti ekki undir neinum kringum stæðum gera. Þetta var kallað mannréttindayfirlýsing vegna þess að hún fjallaði um réttindi sem eru svo mikilvæg að það er naumast hægt að lifa sem manneskja nema njóta þeirra. Nú er þessi yfirlýsing 75 ára. Þetta er ekki löng lesning og hún er alls ekki sérlega frumleg. Hún tilgreinir í raun aðeins nokkur fremur augljós atriði, eins og í þriðju greininni: „Allir eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi.“ Þetta er ekki flókið. En samt er það svo, að á Gaza skrifa foreldrar nöfn barna sinna á útlimi þeirra svo hægt verði að bera kennsl á partana sem tíndir eru saman úr rústum sundursprengdra húsa.
Lítil þjóð sem hefur ekki her og er ekki í neinni stöðu til að stöðva stríðsátök í fjarlægum löndum, hefur samt rödd. Spurningin er hvort þessi þjóð vilji finna þessa rödd og þá hvernig henni skuli beitt. Við getum valið að þegja, láta lítið fyrir okkur fara og vonast til að styggja ekki stríðsherrana. En þessi litla þjóð getur líka valið að taka afstöðu með mannréttindum og mannúð svo eftir verði tekið. Hún getur tekið afstöðu með mennskunni og hafnað því að reisa grimmdinni minnismerki. Það er tilgangur í því, mikill tilgangur, líka fyrir litla þjóð.
Og svo samhengið sé ljóst, þá eru hér tölur um átökin á Gaza og í Ísrael frá 27. desember, á degi 82.
Athugasemdir (2)