Fíasól gefst aldrei upp
Leikgerð: Maríanna Clara Lúthersdóttir og Þórunn Arna Kristjánsdóttir
Tónlist og söngtextar: Bragi Valdimar Skúlason
Leikstjórn: Þórunn Arna Kristjánsdóttir
Tónlistarstjórn og útsetningar: Karl Olgeirsson
Danshöfundur: Valgerður Rúnarsdóttir
Leikmynd: Eva Signý Berger
Búningar: Júlíanna Lára Steingrímsdóttir
Lýsing: Pálmi Jónsson
Hljóðmynd: Þorbjörn Steingrímsson
Leikgervi: Elín S. Gísladóttir
Alíslenskur og alúðlegur söngleikur fyrir alla aldurshópa.
Fíasól kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2004 í bókinni Fíasól í fínum málum. Tæplega tuttugu árum seinna er þessi kraftmikli karakter enn þá í fínustu málum enda gefst hún aldrei upp. Nú leiðir Fíasól áhorfendur inn í Borgarleikhúsið til að skemmta, mennta og njóta samverunnar.
Leikgerðin er í höndum Maríönnu Clöru Lúthersdóttur og Þórunnar Örnu Kristjánsdóttur, sem er einnig leikstjóri, og byggir á höfundarverki Kristínar Helgu Gunnarsdóttur. Bragi Valdimar Skúlason semur tónlistina og lagatextana. Í heildina heppnast sýningin með ágætum þar sem raunveruleiki og valdefling barna er sett fyrir sviðsmiðju. Fíasól er hugrökk og ákveðin en berst líka við óöryggi á meðan hún fetar sig áfram í veröldinni, ljómandi persóna fyrir ungt fólk og fullorðna til að spegla sig í og læra af.
Höfundum liggur mikið á hjarta
Höfundum liggur mikið á hjarta og að koma innra lífi barna til skila sem er virðingarvert: Tækjalausi dagurinn, Hjálparsveit barna, hrekkjavaka, hrekkjusvín, lyklabörn, stærðfræðipróf og dauði koma öll við sögu … Stundum verður skarkalinn svo mikill að sögurnar þvælast, þar má nefna amstrið í kringum tækjalausa daginn, sem er auðvitað stórt málefni en virðist eins og hugmynd sem var saumuð inn í sýninguna eftir á. Hæfileika Braga Valdimars sem texta- og tónlistarsmiðs þarf varla að kynna fyrir neinum. Hann á heiðurinn af ríflega tíu söngatriðum, laglega útsett af Karli Olgeirssyni, en þar stendur Draumaslóð hæst, þrátt fyrir að vera í rólegri kantinum.
Þórunn Arna kom eins og stormsveipur í hlutverki leikstjóra á síðasta ári með Emil í Kattholti í farteskinu. Hún er búin að finna sinn heimavöll á stóra sviðinu og fer metnaðarfullar leiðir til að gefa okkar yngstu leikurum pláss, leyfa þeim að njóta sín og undirstrika þeirra fjölbreyttu hæfileika, öllum á sinn hátt. Leikhópi barnanna er skipt í tvennt, þannig að sömu hóparnir vinna saman í hvert skipti. Fullorðnu leikararnir brúa síðan bilið sem myndar samfellu á milli sýninga.
Gleðiblandin ástríða og einlægni
Snúið er að ræða um frammistöðu einstaklinga sem eru kannski að stíga sín fyrstu skref á leiksviðinu, sum börnin höfum við þó séð áður í stórum uppsetningum. Lykilatriðið er að hópurinn sem heild setur allan sinn kraft í hlutverkin, uppljómuð af gleðiblandinni ástríðu og einlægni sem er ekki hægt að falsa. Samvinnan er góð, söngatriðin smitandi og fremst í flokki stendur Fíasól (leikin af Viktoríu Dalitso Þráinsdóttur í þetta skiptið) sem leiðir hersinguna af mikilli innlifun. Ungu leikararnir opna hjörtu sín fyrir áhorfendum, slík gjafmildi gleður og hrærir.
Leikmyndina hannar Eva Signý Berger, sem er óðum að verða einn helsti sviðsmyndahönnuður landsins þegar kemur að stórum uppsetningum. Fagurfræðin er blanda af litríkum ævintýraheim og bláköldum raunveruleikanum, skandinavísk heimilishönnun sem vettvangur óharðnaðs ímyndunarafls. En líkt og með leikgerðina þá eru hugmyndirnar nánast svo margar að leiksviðið teppist, plássið í hverri leikmynd fyrir sig er ekki ýkja mikið fyrir ærslagang eða orkumiklu dansa Valgerðar Rúnarsdóttur. Búningar Júlíönnu Láru Steingrímsdóttur eru að sama skapi uppfullir af litagleði en endurspegla líka hversdagsleikann. Sköpunargleðin springur síðan út í hrekkjavökuatriðinu, hver búningur listaverk.
Birna Pétursdóttir hefur blómstrað síðustu misseri eftir að hún sló í gegn á Akureyri. Hún er skínandi dæmi um að stóru leikhúsin megi ekki einblína á eina menntastofnun þegar kemur að leikaravali. Birna ber með sér útgeislun, afslappaða nærveru í hlutverki Dúnu mömmu og hæfileika sem vonandi fá að vaxa enn frekar í fyllingu tímans. Sveinn Ólafur Gunnarsson er henni til halds og stuðnings í hlutverki Láka pabba, en mætti stundum stíga aðeins fastar til jarðar í túlkun sinni.
Ekki er auðvelt að vera barn, hvað þá unglingur. Rakel Ýr Stefánsdóttir og Sölvi Dýrfjörð leika unga parið sem er að pota sér saman undir smásjá fjölskyldunnar, foreldrarnir reyna að láta lítið fyrir því fara en yngri systurnar síður. Börn vita nefnilega meira heldur en hinir eldri vilja endilega viðurkenna eða sætta sig við. Bæði leysa þau hlutverkið vel af hendi, þá sérstaklega Rakel Ýr, sem er í bland tryllingslega pirruð yfir öllu en líka góð systir þegar þarf.
Kunna fag sitt upp á tíu
Sigrún Edda Björnsdóttir mætir með sína alkunnu hlýju og hæfileika inn á leiksviðið, hokin af reynslu að leika ömmur og eldri konur. Til hennar er yfirleitt leitað þegar slíkt hlutverk þarf að leysa enda má alltaf treysta á gæði í hæsta flokki þegar hún er annars vegar. Hún er söngvin og sérlunduð, smá óþolandi og sjarmerandi, algjörlega með hlutverkið í hendi sér. Bergur Þór Ingólfsson er frekar utangátta, kannski í takt við hlutverkið, sem þarfnast aðeins meiri vinnu af hálfu höfunda. En eins og Sigrún Edda kann hann sitt fag upp á tíu.
Vilhelm Neto er í svipuðum sporum og Bergur Þór, þrátt fyrir að vera á öndverðum meiði hvað leikaraferilinn varðar, enda rétt að stíga sín fyrstu skref á leiksviðinu. Hann er í takmörkuðu hlutverki en nýtir tækifærið til hins ítrasta, sérstaklega í sínu stóra númeri og sýnir hvers hann er megnugur.
Fíasól gefst aldrei upp er falleg og grípandi sýning en stundum er of mikið í gangi, eins og höfundunum liggi svo mikið á hjarta. Þannig gleymist formið, afleiðingin er sú að sumar sögurnar missa marks. Fíasól býður upp á gleði og góðan boðskap, uppfull af mikilvægum skilaboðum og fínustu tónlist. Metnaðarfullur söngleikur þar sem börnin standa fremst og fyrst, þau bera sýninguna á herðum sér með örlítilli og örlátri hjálp hinna fullorðnu.
Niðurstaða: Alíslenskur og alúðlegur söngleikur fyrir alla aldurshópa.
Athugasemdir