Guðni Th. Jóhannesson tilkynnti í nýársávarpi sínu, nú fyrir skömmu, að hann muni ekki sækjast eftir því að endurnýja umboð sitt sem forseti Íslands. Fyrirhugaðar forsetakosningar munu fara fram á þessu ári þann 1. júní, ef fleiri en einn frambjóðandi verða í kjöri. Guðni þakkaði fyrir liðin ár og stuðninginn og sagði þetta ekki vera kveðjustund.
„Gott er að hætta leik þá hæst fer fram“
Sjötti forseti landsins frá lýðveldisstofnun
Guðni var fyrst kjörinn í embætti forseta Íslands 25. júní árið 2016, eftir að hafa sigrað spennandi kosningar þar sem honum tókst að tryggja sér um 39 prósent greiddra atkvæða. Í þeim kosningum buðu sig fram átta aðrir.
Þar á meðal voru Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, seðlabankastjóri og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, rithöfundurinn Andri Snær Magnason og Halla Tómasdóttir, rekstrarhagfræðingur og fjárfestir, en hún fékk næstflest atkvæða.
Í síðustu forsetakosningum árið 2020 vann Guðni öruggan sigur. Viðskiptamaðurinn Guðmundur Franklín Jónsson var sá eini sem að bauð sig fram gegn sitjandi forseta og fékk hann 7,9 prósent atkvæða.
Guðni hefur áður sagt að honum þyki eðlilegt að forseti sitji að hámarki í þrjú kjörtímabil. Fram að ávarpi sínu hafði Guðni þó ekki viljað tjá sig um áform sín um að sækjast eftir þriðja kjörtímabilinu.
Í viðtali við RÚV frá júní 2023 sagðist forsetinn ekki verið búinn að ákveða sig hvort hann ætli að fara fram í þriðja sinn. Þegar Guðni tilkynnti um framboð sitt árið 2020 gerði hann það í nýársávarpi sínu 1. Janúar 2020.
Forseti og fræðimaður
Áður en að Guðni tók við embætti forseta Íslands starfaði hann við rannsóknir og kennslu við sagnfræðideild Háskóla Íslands. Þá hefur hann einnig kennt við Háskólann í Reykjavík, Bifröst og University College London.
Í fræðistörfum sínum hefur Guðni einkum rannsakað stjórnmála- og utanríkissögu 20. og 21. aldar. Til að mynda hefur hann gefið út bækur og greinar um þorskastríðið og landhelgismál, síðasta bók hans, Stund milli stríða, kom út árið 2022 og rekur sögu landhelgismálsins 1961 til 1971.
Þá gaf Guðni einnig út bók um efnahagshrunið árið 2008, ævisögu Gunnar Thoroddsen árið 2010. Guðni ritaði einnig sögu forsetaembættisins á Íslandi frá lýðveldisstofnun til lok 20. aldar í bók sem kom út árið 2016.
Vorið 2016 varð Guðni flestum landsmönnum kunnur eftir að hafa verið tíður gestur í sjónvarpi, eftirminnilegast í þáttunum Kastljós. Þar sem hann var fenginn til þess að greina atburðina í kringum það þegar þáverandi forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, neitaði forsætisráðherra, þá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, um þingrof.
Í kjölfarið fóru ýmsir að skora á Guðna til þess að bjóða sig fram í forsetakosningunum sem fram fóru síðar um sumarið.
Athugasemdir (3)