Ég er vakinn flesta morgna aðra hvora viku af rauðum eldibrandi, dóttursyni á þriðja vetri, „hæ afi, hæ amma“ og við erum dregin framúr til að gera eitthvað, hann vill mala morgunkaffið með afa, fá hjálp hjá ömmu til að klæða sig. Stóra systir er fimm ára, furðulega ástrík og yfirveguð gagnvart litla bróður, þolir honum flest nema bit og barsmíðar, talar blíðlega um fyrir honum. Eldibrandurinn á frænda tæpu ári yngri, hæglátari og íbyggnari en alltaf fjör þegar þeir hittast, smátt og smátt að læra að það þarf ekki að slást um dótið, skemmtilegra að hlæja saman en gráta.
Þessi þrjú eru umhyggjusöm og góð við litlu brosmildu frænku sem er bara eins og hálfs, taka utanum hana, kyssa, leiða, lána dót. Svo eru það stóru frændsystkinin, tíu ára leikkona, leikskáld, dansari og þrettán ára gítarsnillingur, forvitin um heiminn, gleypa í sig fréttir, spyrja óþægilegra spurninga, til í að mæta á mótmæli.
Hvernig á að ræða við þau um landsins og heimsins gagn og nauðsynjar? Hikstana í gangverki heimsins, vistkreppu, stríð, afmennskun, morð og limlestingar barna á Gaza?
Klisjusöngur um orkuskort
Allt hangir saman, þræðir liggja frá heimskapítalisma og rasískri nýlendukúgun um vistkreppuna, þjóðarmorðin á Gaza, klikkuðu innrásina í Úkraínu, stjórnarfarsrústir í fyrrverandi nýlendum, popúlisma, allt á rætur í alræði auðmagns og djúpstæðri andúð á heimsvaldaráðríki Vesturlanda.
Hér á landi syngur virkjanalobbýið klisjusöng um orkuskort og mestallt þingið hrín með, vill ekki skilja, getur ekki skilið að heimurinn allur þarf að draga úr orkunotkun og neyslu til að sporna við vistkreppunni: loftslagshamförum, víðtæku hruni vistkerfa, aldauða tegunda, súrnun sjávar, eyðingu regnskóga – samspili orkusóunar og ofneyslu. Íslendingar bruðla með orku, lifa sig hundraðprósent inn í hagnaðarkvörnina sem malar vistkerfin í glópagull meðan þau endast.
„Íslendingar bruðla með orku, lifa sig hundraðprósent inn í hagnaðarkvörnina sem malar vistkerfin í glópagull meðan þau endast.“
Svartagallsraus! Var ekki flest í sómanum á árinu? Slarkandi hagvöxtur að vanda, náttúrlega óþægindi af vaxtahækkunum en aurarnir rata sína leið, þangað sem þeir eru fyrir, eldgosavesen með jarðskjálftum en við klöppum Grindvíkingum á bakið. Það náðist að murka lífið úr nokkrum hvölum í nafni skynsamlegrar nýtingar náttúruauðlinda. Vesen með Íslandsbanka og Pisa en það reddast. Leiðinda dónaskapur við Hillary og ljótt að skvetta glimmeri á Bjarna, velmeinandi fólk sem vill bara ræða málin, alltaf hægt að ræða saman og finna skynsamlegar lausnir, þó börn séu myrt á tíu mínútna fresti og olíufurstar stýri loftslagsumræðum.
Flestir nota járnadrasl í tonnatali undir rassinn á sér
Ég held mig samt við svartagallið, vitna í Stephan G. að vanda:
„En hver er heill að hugsa ið dimma bjart?
Það hamlar kveiking ljóssins, sem menn þyrftu.
Mér virðist sælla að vita myrkrið svart –
það vekur hjá mér löngun eftir birtu.“
Ég hjóla bara áfram í vinnuna meðan flestir nota járnadrasl í tonnatali undir rassinn á sér. Á leiðinni hugsa ég um heiminn, birtuvottinn hér og þar: hinsegin raddirnar, réttindabaráttu minnihlutahópa, hetjuvörn fyrir flóttamenn, mótmæli vegna Gaza, umhverfismótmæli, ögrandi mannúðarbaráttu,fólk sem skilur það sem grískur spekingur sagði fyrir 2500 árum, að ástin haldi höfuðskepnunum saman – eldi, jörð, lofti og vatni. Og ég hugsa um rauðan eldibrand, ljómandi ærslabros og frændsystkinin, ást þeirra og umhyggju sem bætir heiminn og fegrar agnarögn.
Athugasemdir