Ekki er tímabært að kanna hvort breyta ætti friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar, að mati bæjarstjórnar Vesturbyggðar sem fjörðurinn er innan. Áður en að slíku kemur ætti að setja þá tvo virkjunarkosti á Vestfjörðum sem þegar eru í nýtingarflokki rammaáætlunar í forgang og hefja strax vinnu við tvöföldun Vesturlínu, einu meginflutningslínunnar inn á Vestfirði. Tvöföldunin sé nauðsynleg til að tryggja flutning raforku til og frá svæðinu.
„Þannig fái náttúran í Vatnsfirði áfram að njóta vafans, og að ekki verði gengið lengra en nauðsynlegt er,“ segir í umsögn bæjarstjórnarinnar um erindi Orkubús Vestfjarða til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um afnám eða breytingu friðlýsingar Vatnsfjarðar svo fyrirtækið geti reist þar vatnsaflsvirkjun. Markmið fyrirtækisins með nýrri virkjun á svæði sem nú er friðland er að auka orkuframleiðslu innan svæðisins í þeim tilgangi að afhendingaröryggi rafmagns, svara aukinni eftirspurn fyrirtækja eftir orku og hafa til reiðu „grænt varaafl“ svo ekki þurfi að brenna olíu. Þá mætti líka nýta virkjunina til jöfnunar á móti vindorku.
En bæjarstjórnin segir: „Lokið verði fyrst við þær framkvæmdir sem þegar hafa verið undirbúnar til að mæta þeim mikilvægu almannahagsmunum sem felast í aðgengi að orku á Vestfjörðum áður en ákvörðun er tekin um afnám eða breytingu á friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar.“
Þær tvær virkjunarhugmyndir á Vestfjörðum sem Vesturbyggð vísar til í umsögn sinni og eru þegar í nýtingarflokki rammaáætlunar eru Austurgilsvirkjun og Hvalárvirkjun. Fyrrnefnda hugmyndin snýst um að virkja Austurgilsá sem fellur í Selá í Skjaldfannardal við Ísafjarðardjúp. Uppsett afl hennar er áformað um 35 MW. Síðarnefnda hugmyndin hefur verið mjög umdeild, ekki síst meðal íbúa Árneshrepps sem er fámennasta sveitarfélag landsins. Með Hvalárvirkjun (55 MW) yrðu vötn á Ófeigsfjarðarheiði stífluð og rennsli þriggja áa virkjað.
Gjöbreytt ásýnd fossa
Orkubú Vestfjarða fór þess á leit við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra snemma árs að hann breytti skilmálum Friðlandsins í Vatnsfirði. Ráðherra vildi frekari gögn og skilaði fyrirtækið greinargerð sinni nú í haust.
Samkvæmt henni myndu 3-4 hektarar af birkiskógi raskast með byggingu virkjunarinnar, vörður á fornri þjóðleið mögulega sömuleiðis og skert rennsli í ám, um allt að 74 prósent, myndi gjörbreyta ásýnd fossa. Þá má búast við raski á sérstæðum jarðmyndunum, m.a. skessukötlum. Að auki myndu miðlunarlón skerða óbyggð víðerni.
Til þessarar niðurstöðu vitnar bæjarstjórn Vesturbyggðar í umsögn sinni og að virkjun og tengdar framkvæmdir kæmu til með að raska náttúrufars- og menningarþáttum sem hafi hátt verndargildi. „Virkjunin myndi hafa í för með sér rask á birki sem nýtur sérstakrar verndar, áhrif á vatnalíf, rask á búsvæðum dýra, áhrif á menningarminjar á svæðinu, þ.e. varðaðri Þingmannaleið og áhrif á rennsli í Vatndalsá og Austurá sem mun hafa áhrif á ásýnd fossa sem njóta sérstakrar verndar í náttúruverndarlögum“.
Athugasemdir (1)