Mér líkar betur við oddatöluár heldur en sléttatölu. Ég er ekki heldur stærsti aðdáandi hlaupára. Covid-19 hófst á hlaupárinu 2020, innrás Rússa í Úkraínu hófst árið 2022. Næsta ár er aftur hlaupár og ég á ekki von á því að það verði auðvelt ár.
Í Rússlandi höldum við ekki jól eins og gert er á Vesturlöndum. Okkar hátíð er á gamlársdag – þá kemur jólasveinn með gjafir, þá borðum við kvöldmat saman. Um miðnætti, þegar klukkan á Rauða torginu slær tólf í beinni, óskum við okkur og drekkum kampavín fyrir framan sjónvarpið.
„Paradís er skáldskapur, en veruleikinn er helvíti.“
Þótt ég hafi ekki búið í Rússlandi í ellefu ár, er gamlársnótt eitthvað sem stendur mér nær en jól. Ég horfi til baka á árið og hugleiði, set mér nýjar áskoranir fyrir komandi ár. Í fyrra, þegar mínar dýpstu óskir rættust ekki, óskaði ég mér á miðnætti sjálfhverfa ósk um að líða vel á komandi ári.
Að elska sjálfan sig og aðra í heiminum
Þótt 2023 hafi ekki verið slæmt ár fyrir mig persónulega, var það hins vegar ekki bjart ár heldur. Sem einhver sem er fædd og uppalin í Rússlandi, get ég virt Ísland fyrir margt og í mörg ár var Ísland einhvers konar paradís í mínum augum. Kraftmikil náttúra dáleiddi mig á hverjum degi, öryggið og mannréttindin voru ekki bara tóm orð. Og ég – óboðinn gestur – stóð í þessari paradís.
Árið 2023 einbeitti ég mér að sjálfsást, sá um vellíðan mína, ferðaðist og gerði hluti sem ég elska. Það tókst ekki alltaf að njóta þess en ég hélt áfram að gera það. Að elska sjálfan sig og aðra í heiminum sem er að hrynja er krefjandi verkefni. Þetta ár snerist fyrir mig um paradísarmissi.
„En nú líður mér enn þá meira eins og heima, þegar ríkisstjórnin velur sig en ekki fólkið, peninga en ekki líf.“
Þegar ný útlendingalög tóku gildi var jaðarsettur hópur af umsækjendum um alþjóðlega vernd bókstaflega settur út á götu. Ég hef fundið fyrir djúpum harmi þegar ég fylgist með fréttum, þegar ég hitti þetta fólk. Það var ótrúlegt að sjá hvernig ríkisstjórnin hagaði sér eins og þetta væri þeim að kenna, eins og þeim væri refsað fyrir að velja líf í staðinn fyrir dauða, eins og það væri rangt val.
Þegar ríkisstjórnin velur sig en ekki fólkið
Hvalveiðar héldu áfram þrátt fyrir mikil mótmæli og mikla athygli í fjölmiðlum og enn og aftur vinna peningar, en ekki líf. Stríð breiðist út eins og meinvörp á jörðinni og við verðum vitni að því í beinni og getum ekki gert neitt. Það er ekki einu sinni hlustað á okkur. Ég byrjaði að finna déjà vu.
Eftir að hafa búið á Íslandi í um áratug líður mér eins og heima hér. Ég rata vel um Ísland, man næstum því alla rauðu dagana og veit hvernig á að borga skatt. En nú líður mér enn þá meira eins og heima, þegar ríkisstjórnin velur sig en ekki fólkið, peninga en ekki líf. Þegar þau ljúga í fjölmiðlum, þegar þau standa ekki við sín orð. Paradís er skáldskapur, en veruleikinn er helvíti.
Ég kem til Íslands nokkrum dögum fyrir áramót eftir að hafa dvalið í nokkra mánuði í Frakklandi, þar sem ég skrifaði mína nýju bók. Ég vildi sleppa óveðrinu og myrkrinu og fékk rigningu í nokkra mánuði í staðinn. Ég hef smá tíma eftir til að ákveða mig hvað mig langar að óska mér, en eins og er er óskalistinn minn tómur. Það er eins og óskir mínar heyrist ekki. Kannski er það bara hluti alheimsins.
Athugasemdir