Ég var rúmlega þrítug, hafði verið almennt lánsöm í lífinu, fengið að ferðast og starfa erlendis í meira en áratug. Bæði í löndum ekki ólíkum Íslandi, Danmörku og Frakklandi, og yfir til framandi samfélaga svo sem Mongólíu, Benín, Malasíu, Kína, Burkína Fasó og fleiri staða – þegar ég fékk tækifæri til að flytja til Japans, lands hinnar rísandi sólar, og starfa sem ráðgjafi hjá alþjóðlegu ráðgjafarfyrirtæki, McKinsey & Company.
Eftir reynslu úr ólíkum áttum taldi ég mig fullfæra í þennan japanska sjó, þrátt fyrir að kunna ekkert í tungumálinu og þekkja lítið sem ekkert til siða og reglna þar í landi. Ég setti undir mig hausinn eins og sagt er, fór á japönskunámskeið, reyndi að stilla mig inn á vinnutakt þjóðarinnar, sem m.a. samanstóð af nær ómannlega löngum vinnudögum, og las allt sem ég gat um þetta merkilega samfélag.
Japan er vissulega eitt þróaðasta iðnríki heims og þriðja stærsta hagkerfið. Allt er þar í röð og reglu, skipulagt, hreint, fallegt, nánast fullkomið. Ferkantaði vélaverkfræðingurinn í mér kunni vel við þessa ramma – þó svo smá hræðsla við þessa fullkomnu mynd blundaði í mér. Myndi ég standa mig hér og skila árangri í mínum störfum?
Verkefnið sem mér hafði verið falið var ekki lítið, en ég átti með góðum hópi fólks að koma með tillögur fyrir einkageira Japans til að efla hagvöxt þar í landi. Var þetta unnið fyrir forsætisráðuneyti Japans og því mikil pressa að standa sig. Mér hefðu alveg getað fallist hendur á fyrsta degi þar sem ég í raun vissi ekkert hvað ég var að fara út í – en þannig er lífið – maður verður að grípa tækifærin, láta reyna á hlutina.
Það leið þó ekki á löngu þar til ég var mætt hálf óðamála inn á fund til herra Kuwabara-san, sem var minn yfirmaður á Tókýó-skrifstofunni, og fór að útskýra fyrir honum að þetta verkefni væri mér algjörlega ofviða, ég þekkti allt of lítið til í Japan, tungumálið væri óskiljanlegt og ýmislegt fleira. Hann leyfði mér að blása nokkuð lengi þar til hann sagði: „Ásta-san, má ég taka til máls núna?“ Þá komu tveir gullmolar sem ég hef lært af og tekið með mér út í lífið:
Í fyrsta lagi útskýrði hann fyrir mér hversu mikilvægt væri að fá sjónarmið, spurningar og gagnrýni frá einhverjum sem kæmi úr allt annarri átt. Einhverjum sem væri óhræddur við að spyrja spurninganna sem annars einsleitum hópi Japana kæmi aldrei til hugar. Fjölbreytileiki væri það helsta sem skorti í Japan og ég væri valin í verkefnið til að sýna fram á hvernig hann getur verið styrkur í verkefni sem þessu.
Í öðru lagi sagði hann: „Ásta-san, you need to learn how to embrace uncertainty“ eða upp á íslensku að „þú verður að læra að taka óvissu opnum örmum“. Ég hefði haft hugrekki til að hoppa út í djúpu laugina, en yrði að geta höndlað óvissuna sem getur fylgt, „því lífið er ekkert nema óvissa – alltaf“. Óvissa væri eini fastinn í lífinu að hans mati og því yrði maður að læra að lifa með henni og opna faðminn fyrir henni. Skipulagsvélin sem ég hafði reynt að vera yrði að læra, að það væri ekki hægt að teikna lífið upp í Excel eða vita fyrir fram hvernig hlutirnir færu!
Á þessari stundu varð mér hugsað til orðatiltækis okkar Íslendinga: „Í lífsins ólgusjó“. En það er einmitt svo góð lýsing á þessu ferðlagi. „Allt er breytingum háð“. Eitthvað sem við höldum að sé tryggt er það ekki. Og þessi áminning hefur reynst mér vel undanfarin ár.
Af ófyrirséðu má rifja upp Covid-faraldur sem setti heimsbyggðina á hliðina, hræðilegt stríð í miðri Evrópu, sem því miður stendur enn, hryllilega atburði fyrir botni Miðjarðarhafs. Verðbólgu og stórfelldar vaxtahækkanir, sem við af yngri kynslóðum héldum að heyrðu sögunni til, eldgos og jarðhræringar í nágrannabyggð. Milljónir ferðamanna sem minna helst á síldarævintýri fyrri ára og þúsundir flóttamanna sem leita hér skjóls. Allt hefur þetta áhrif á okkur og plön okkar um framtíðina.
„Lífið er núna og mikilvægt að fara vel með það og njóta eins og kostur er“
Ótímabær og nístandi dauðsföll í minni fjölskyldu á liðnu ári og veikindi hafa sömuleiðis minnt mig á að lífið er ófyrirsjáanlegt. Lífið er núna og mikilvægt að fara vel með það og njóta eins og kostur er. „Enginn veit sína ævi fyrr en öll er.“
Við lok árs er tími til að fara yfir farinn veg og þakka fyrir það sem hefur gengið vel. Tíminn í Japan kenndi mér margt. Það er ekki nóg að grípa gæsina þegar hún gefst og halda á vit ævintýranna – maður þarf að taka óvissuna sem fylgir í faðminn og klára verkefnið. Sýna seiglu. Finna styrkinn í umhverfi sínu, fólkinu og fjölbreytileikanum – sérstaklega hér á eyjunni okkar Íslandi. Við erum ótrúlega heppin. Við búum í litlu samfélagi þar sem náungakærleikur er enn til staðar, ekki síst þegar á reynir. Nú síðast birtist hann í stuðningi við Grindvíkinga sem svo sannarlega lifa í mikilli óvissu vegna jarðhræringa og eldgoss í nágrenni bæjarfélagsins. Við megum ekki hætta að taka ígrundaðar ákvarðanir fyrir land okkar og þjóð, þrátt fyrir óvissu, ef við eigum að þróast áfram sem öflugt samfélag þar sem öll fá tækifæri til að njóta sín og ná árangri í sínu lífi.
Enginn veit hvað árið 2024 ber í skauti sér – en með sterkum stoðum, öflugu fólki með opinn faðminn og áttavita samstöðu og samhjálpar, eru okkur allir vegir færir.
Hvernig gekk þer i Japan yfirhöfuð?
Hvenig fekkst þu þetta tkifæri?