2023 er árið þegar hitabylgjur, stríð og jarðeldar í bakgarði okkar kveiktu í heiminum. Ég var unglingur á 8. áratug síðustu aldar þegar ég heyrði fyrst talað um veltu hergagnaiðnaðarins, ég man ekki töluna sjálfa en ég man að það voru 21 núll á eftir henni. Talið í milljónum dollara. Eða kannski voru það billjónir? Viðskiptamódel byggja á magni, að selja meira í ár en í fyrra. Til þess þarf stríð. Helst sem flest. Alls ekki frið. Allra síst frið. Manni skilst einmitt að árið 2023 hafi verið slegin öll fyrri met í vopnasölu í heiminum. Láttu mann hafa kalashnikov riffil og hann skýtur af honum. Afhentu honum sprengju og hann varpar henni á skírnarveislu eða brúðkaup. ,,Við tölum ekki um sprengjur því þær hafa neikvæða merkingu, heldur hernaðaraðgerðir“, heyrði ég háttsettan hernaðarráðgjafa segja í viðtali í sumar. Hljómar kunnuglega árið 2023 þegar stríð voru forgangsmál í heiminum og umhverfismál færðust enn aftar á listann en árið á undan.
Þá er ég allt í einu farin að hugsa um það hversu margir aldraðir menn halda um sprengiþræði heimsins: Ali Khamenei leiðtogi Íran er 84 ára, Biden 81 árs, Netanjyahu 74 ára, Yahya Sinwar, sem stýrir hernaðararmi Hamas, 61 árs, Pútín 71 árs, Xi Jinping 70 ára og Erdogan og Lukasjenko báðir 69 ára. (Ég hafði fyrir að fletta þessu upp). Semsé á sjötugs-, áttræðis- og níræðisaldri. (Skoðanakannanir benda þó til þess að Bandaríkjamenn ætli að yngja upp í forsetakosningum á næsta ári og kjósa Trump sem verður þá 78 ára.) Sú hugsun hvarflaði hreinlega að mér, nú þegar hillir undir eigin heimsslit í lífi þessara manna, þegar þeir þokast nær brúninni, hvort botnlaus sjálfhverfa geti ráðið því að menn vilji að heimurinn farist með þeim? Mér skilst að það sé þekkt hjá narsissistum.
„Láttu mann hafa kalashnikov riffil og hann skýtur af honum. Afhentu honum sprengju og hann varpar henni á skírnarveislu eða brúðkaup.“
Í morgun hélt ég á barnabörnunum hvort á sínum handlegg. Þau eru ung að árum, stúlka og drengur, fædd 2020 og 2023 og verða því ungt fólk árið 2050 sem er einmitt árið þegar samtök olíuframleiðenda hafa lýst því yfir að þau ætli að byrja að minnka olíuframleiðslu. Þangað til ætla þau að auka hana.
Úti var desembermyrkur og við spegluðumst í glerinu sem leiddi hugann að því að við höfum aldrei speglað okkur jafn mikið og árið 2023, aldrei tekið fleiri myndir af sjálfum okkur, aldrei framleitt jafn mikið af upplýsingum um innstu langanir okkar og þrár fyrir auglýsingastofur alþjóðlegra stórfyrirtækja. Árið sem er næstum liðið er líka árið þegar falsfréttir milljónfölduðust og við komumst að því að helmingur allra tísta er ekki frá fólki heldur vélum og er ætlað að skapa deilur.
„Nú þegar hillir undir eigin heimsslit í lífi þessara manna, þegar þeir þokast nær brúninni, hvort botnlaus sjálfhverfa geti ráðið því að menn vilji að heimurinn farist með þeim?“
Við áttuðum okkur líka á því á árinu að eldgos hafa tilhneigingu til að hefjast þegar jarðfræðingar eru búnir að aflýsa þeim. Loks var árið sem er að kveðja árið þegar útivistarsvæði við heimili minnkuðu þegar við fengum fleiri sorptunnur og í fleiri litum en nokkru sinni fyrr fyrir eigin úrgang. Það er í samræmi við aukna einkaneyslu okkar og að við höfum aldrei hent jafnmiklu og árið 2023 að allir eigi sína prívat flokkunarstöð. En þrátt fyrir myrkrið bætast héðan í frá, á hverjum degi, nokkrar mínútur við daginn og við endurtökum huggunarorðin: vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt.
Athugasemdir