Að vanda þjökuðu ýmsar bólgur og hallar hagkerfið á árinu, allar gamalkunnar. Sú alvarlegasta var vitaskuld ekki mannanna verk, jörðin bólgnaði og gekk til á Reykjanesi, skemmdi mannvirki og hótaði skemmdum á fleirum svo að yfirgefa þurfti Grindavík. Við sjáum ekki fyrir endann á þeim ósköpum, vonum það besta en búum okkur undir það versta. Það er það eina sem hægt er að gera í stöðunni. Þungt högg fyrir hagkerfið en þyngst fyrir íbúana sem vita ekki hvenær þeir geta snúið aftur.
Jarðhræringar eru óhjákvæmilegar á eldfjallaeyjunni og það virðist verðbólgan stundum vera líka. Hún hefur a.m.k. vaknað af krafti eftir stuttan blund og sér ekki heldur fyrir endann á henni. Gömul stef úr þjóðmálaumræðunni rifjuð upp fyrir vikið. Hvernig á að stöðva víxlhækkun verðlags og launa? Verða sett rauð og græn strik í kjarasamninga? Enginn þó farinn að auglýsa innfluttar vörur á „gamla verðinu“ enn þá.
Annað gamalkunnugt stef sem einnig heyrðist endurspeglaði áhyggjur af fjárlagahalla. Hann þjakaði bæði ríki og sveitarfélög. Hinn gamalkunni hallinn, á viðskiptum við umheiminn, var þó nokkurn veginn til friðs. Það eru þó framfarir!
Rykkirnir í skrykkdansinum
Vitaskuld urðu líka alls konar aðrar framfarir í efnahagsmálum á árinu, líkt og alla jafna. Það hefur raunar verið sterkasta þemað í íslenskri hagsögu síðustu tvær aldirnar eða svo, á Íslandi sem og í nágrannalöndunum. Það gerist ekki jafnt og þétt, heldur með rykkjum og skrykkjum en lífskjör hafa ótvírætt farið batnandi. Sé horft til langs tíma er breytingin ótrúleg. Rykkirnir í skrykkdansinum að sönnu ýktari hér en í stærri hagkerfum en flestir í rétta átt. Áður fyrr mátti oftast rekja niðursveiflurnar til sjávarútvegs en hann er nú mun stöðugari en áður og vægi hans miklu minna. Í þess stað höfum við m.a. fengið niðursveiflur vegna samdráttar í ferðaþjónustu eða glannaskapar í fjármálum. Sum höggin koma frá náttúrunni, jarðhræringar og faraldrar, önnur eru mannanna verk.
„Það eru aldrei allir ánægðir. Skárra væri það nú! Sumir hafa það óumdeilanlega ansi skítt“
Það er því alltaf hægt að finna eitthvað til að hafa áhyggjur af. Kaupmáttur lækkar stundum þótt langtímaleitnin sé uppávið. Þótt heilbrigðisþjónustan hafa líklega aldrei verið öflugari þá eru víða langir og leiðinlegir biðlistar. Það eru líka biðlistar í félagslega kerfinu, m.a. eftir húsnæði fyrir aldraða og öryrkja. Svo vantar líka fé í að laga myglaða skóla og skrifstofur. Losna við einbreiðar brýr, gera göt á fjöll, leggja borgarlínu og auðvitað lækka skatta. Það eru alltaf einhverjir hópar sem hafa dregist aftur úr öðrum hópum í launum og þar með lífsgæðakapphlaupinu. Þeir vilja meira.
Þörf á að gera meira úr minna
Það eru aldrei allir ánægðir. Skárra væri það nú! Sumir hafa það óumdeilanlega ansi skítt. Aðrir hafa það í raun ágætt en öfunda þá sem hafa það enn betra. Þannig verður það örugglega alltaf. Því verður ekki breytt með hagvexti.
Það er þó ekki þar með sagt að hann sé ekki til bóta. Aukin framleiðni og verðmætasköpun gera það einmitt mögulegt að hækka laun, stytta biðlista, losna við myglu, leggja borgarlínu, og svo framvegis. Þannig fórum við úr torfkofum án rennandi vatns í steinsteypuhallir (stundum myglaðar reyndar og um skeið með alkalískemmdum en horfum fram hjá því) með öllum nútímaþægindum, rafmagnsbíla, utanlandsferðir og allt hitt.
Hagvöxtur er líka lausnin á áskorunum í umhverfismálum. Hann býr til svigrúm fyrir aðkallandi verkefni eins og orkuskipti. Mannkynið þarf að gera meira úr minna. Það kallar á nýjar lausnir sem bæta nýtingu. Nægjusemi hjálpar líka. Hún er dyggð!
Athugasemdir