Dimmt er yfir Betlehem
slokknað blik í auga
slokknuð augnastjarna 10.045 barna. Barn á götu barið var með byssuskefti, barn á götu borið út úr húsarústum, barn á götu fæðist fyrir tímann, barn allra barna, allra tíma, fæðist á röngum tíma. Sending barst af himni, villuljósið skæra, eldflaug hönnuð af vitringum, stjarnan mín og stjarnan þín og barnið ljúfa kæra bætist í hóp 10.046 barna, hverfur í blossann undurskæra.
Víða ferðast vitringar
víða funda vitringar
fjöldamargar þjóðir, ráðalausar þjóðir, víða týna vitringar vegaljósi skæru. Þeir loka augum, þegar barn á götu skotið er, heyra ekkert þegar englar gráta djúpt í rústum húsa, finna ekkert þótt sárt englar syrgi, feður og mæður, bræður, systur, frænkur, vini ...
Dimmt er yfir Betlehem
slokknar vonarstjarna, slokknar von um frið.
Sagan mín og sagan þín
saga allra barna, sama sagan aftur og aftur og aftur. Víða rata vitringar í villugötur, víða elta þjóðir villuljós þeirra, þjáða þjóðin verður þjóðin sem veldur þjáningu. Sagan mín og sagan þín, birtist núna á skjánum undurskæra, spegilmyndir af svarthvítum myndum, þú ert umkringdur, þú umkringir, þú ert ofsóttur, þú ofsækir, þú ert afmennskaður, þú afmennskar, spegill sem speglast í spegli sem speglast í spegli, Davíð verður Golíat sem verður Davíð og gettóið verður Gaza fram og aftur í aldir allra alda. Þú er niðurlægður og strípaður, þú strípar og þá birtist manneskjan, spegilmyndin. Hún er þú og þú ert hún.
Dimmt er yfir Betlehem
dauf er vonarstjarnan
en stjarnan mín og stjarnan þín er friður. Víða hafa vitringar ratað á þær slóðir. Hún er vonin undurskæra.
Stjarna allra barna.
Athugasemdir (5)