Ég hef frétt að á Íslandi séu áform um að reisa vindorkuver á ósnortnum svæðum. Það vekur furðu, sérstaklega með tilliti til reynslu Norðmanna af slíkri uppbyggingu.
Ég vil gjarnan deila með ykkur upplýsingum um hvernig staðið var að málum hér í Noregi. Þið mynduð kannski vilja forðast mistökin sem við gerðum? Við leyfðum vindorkufyrirtækjum að skaða náttúruna, umhverfið og orkukerfin okkar og þeir einu sem högnuðust á því voru örfáir einstaklingar sem voru drifnir áfram af gróðavon.
Síðustu árin hafa sex hundruð ferkílómetrar af landi tapast vegna aðgerða vindorkuiðnaðarins í Noregi. Svæðið er jafnstórt og 84.000 fótboltavellir, stærstur hluti þess áður ósnortin víðerni, fjöll og skógar. Flest svæðanna voru vinsæl útivistarsvæði, mikils metin af heimafólki á hverjum stað. Mörg svæðanna voru griðastaðir tegunda sem ekki þola rask eða eru í útrýmingarhættu, eins og t.d. grímuúfur (the great horned owl). Það tók dálítinn tíma en nú hefur almenningur vaknað til vitundar og áttað sig á því hvað er þarna á seyði.
Almenningsálit
Það tók norskan almenning ekki nema tvö ár að skipta um skoðun á vindorkuverum. Árið 2018 voru aðeins 10% Norðmanna á móti þeim, tveimur árum síðar voru 42% andsnúin en aðeins 32% hlynnt vindorkuverum. Svo hraðar breytingar á almenningsáliti eru nær óþekktar í sögu umhverfismála í Noregi.
En hvað olli þessum hröðu umskiptum? Árið 2017 hófu vindorkufyrirtækin gríðarmiklar framkvæmdir við uppbyggingu vindorkuvera víða um Noreg, eftir að hafa setið á virkjanaleyfunum í mörg ár og þrýst á um styrki frá stjórnvöldum. Almenningi blöskraði og fólk áttaði sig á því að það sem það hafði óttast og vonað að ekki yrði var nú að raungerast.
Hrikaleg áhrif þess á náttúruna að reisa vindorkuverin urðu fólki ljós. Byggingaverktakar vopnaðir dýnamíti og risavöxnum vinnuvélum sprengdu sér leið inn í fjöllin okkar og skildu eftir sig stór sár og óafturkræf náttúruspjöll á viðkvæmum heiðarlöndum sem nú eru sundurskorin. Það var alls ekki svona sem okkur var sagt að vindorkuver myndu líta út og afleiðingar á náttúru áttu að verða allt aðrar og minni.
Möstrin voru líka miklu hærri og á öðrum stöðum en okkur hafði verið sagt. Þegar fólk áttaði sig á því að það hefði verið svikið og logið að því þá varð öflug og almenn uppreisn um land allt. Í apríl 2019 voru stjórnvöld neydd til að stöðva frekari útgáfu sérleyfa til vindorkufyrirtækjanna og það hlé varði í þrjú ár.
Hverjir græða?
Þeir sem hafa fengið úthlutað leyfi til að reisa og reka vindorkuver eiga vísan mikinn auð. Viðskiptalíkan flestra einkareknu vindorkuveranna er einfalt. Samkomulag um fjármögnun er gert við stór alþjóðleg fjárfestingafyrirtæki. Þegar vindorkuverið hefur verið reist færist eignarhaldið alfarið til erlenda fjárfestingafyrirtækisins sem síðan greiðir upphaflega leyfishafanum fyrir rekstur þess.
Eignarhaldið og fjármögnunin eru hins vegar oft leynileg og sett fram á flókinn hátt. Fjárfestingasjóðirnir stofna norsk dótturfyrirtæki sem eru gerð ábyrg fyrir uppbyggingu vindorkuveranna í gegnum sérstök fyrirtæki. Þau fyrirtæki lúta stjórn móðurfyrirtækjanna og eru í skattaskjólum.
Norsk skattrannsóknasamtök (The Tax Justice Network Norway) sem eru hluti alþjóðlegra samtaka sem vinna að skattrænum jöfnuði hafa sýnt fram á reglubundna yfirfærslu stórs hluta hagnaðarins frá Noregi yfir í skattaskjól. Aðferðin er sú að greiða móðurfélögunum óeðlilega háa vexti fyrir lán til dótturfélaganna.
Sjö af tíu stærstu hagsmunaaðilum í norska vindorkubransanum eru í eigu félaga í skattaskjólum eða eru fjármagnaðir í gegnum þau. Afleiðingin er sú að flest vindorkuverin greiða lítinn sem engan tekjuskatt. Þessari aðferð er vel lýst í þriðju þáttaröð norsku sjónvarpsþáttanna Exit, en framleiðendur þáttanna unnu náið með norsku skattrannsóknarsamtökunum.
Hinn hópurinn sem hagnast verulega á vindorkuverunum eru svo lögfræðingar og bankar sem liðka fyrir yfirfærslu fjármunanna. Í umhverfi þar sem gríðarlegir fjármunir eru í húfi er mikil hætta á spillingu og blekkingum, sérstaklega varðandi leyfisveitingar en einnig þegar kemur að skattlagningu og yfirfærslu á eignarhaldi.
Raforkuverð
Í Noregi var okkur sagt að vindorkuver myndu lækka rafmagnskostnað en það hefur reynst alrangt. Þegar orka er háð veðri eins og gildir um vindorkuna stuðlar það að ytri kostnaði sem veldur stighækkandi raforkuverði.
Í fyrsta lagi þarfnast lítið orkukerfi með breytilegri orkuframleiðslu tengingar við stærri markað til þess að draga úr hættu á að raforkuverð hríðfalli í hvert sinn sem vindar blása um allan Noreg samtímis.
Ein lausn getur verið að byggja streng til annarra landa. Aðalástæðan fyrir tveimur síðustu sæstrengjunum sem Noregur lagði til Þýskalands og Englands, þar sem hátt raforkuverð tíðkast, var að flytja þyrfti þangað raforku sem framleidd var í vindorkuverunum. Annar kostur er að reisa vetnis- eða ammoníaksverksmiðjur og flytja afurðirnar sjóleiðis á evrópska markaði. Áform eru um slíkt í Noregi.
Báðar leiðirnar stuðla að hærra verði með því að auka eftirspurn eftir raforkunni með tengingu við evrópska raforkumarkaði og evrópskt raforkuverð. Þannig er hátt raforkuverð í Evrópu í raun flutt til Noregs. Í suðurhluta Noregs, þar sem tveir nýir strengir voru tengdir nýlega, er raforkuverð að meðaltali nú tvöfalt eða þrefalt hærra en það var áður en strengirnir voru lagðir.
Í öðru lagi eykst kostnaður við dreifikerfið þar sem það þarf að styrkja og stækka svo það þoli orkuflutninga þegar sterkir vindar blása um Noreg allan og framleiðslan er í hámarki. Í Noregi greiða orkunotendur gjald fyrir að nota dreifikerfið. Það gjald hefur hækkað í takt við vaxandi fjölda vindorkuvera og boðað er að gjaldið muni hækka enn frekar.
Í þriðja lagi veldur það ójafnvægi í raforkukerfinu hversu óstöðug vindorkan er, enda er hún háð veðri. Þetta ójafnvægi þarf að leiðrétta. Stjórnvöld hafa varað við því að jafnvel við núverandi aðstæður, þar sem vindorkan er ekki nema 10% heildarorkunnar í kerfinu, sé hætta á óstöðugleika. Þýskaland hefur neyðst til að reisa flókið og dýrt kerfi til að stuðla að stöðugleika og það eru orkunotendur sem bera kostnaðinn af því.
Það er ósanngjarnt að neytendur beri kostnaðinn af þessum vandamálum á meðan þeir sem eru ábyrgir fyrir þeim halda áfram að græða. Við það bætist að norsk fyrirtæki sem eru háð orku á sanngjörnu verði hafa neyðst til að flytja starfsemina um set vegna hás raforkuverðs. Afleiðingin er sú að fjöldi starfa hefur glatast.
Í Noregi hafa flest vindorkuverin valdið ágreiningi og vandamálum frá fyrsta degi. Það munu þau halda áfram að gera, jafnvel eftir að þau hætta starfsemi. Með því að nýta orkuna betur og endurbæta gamlar vatnsaflsvirkjanir hefði Noregur getað orðið sér úti um mun sjálfbærari orku en vindorkuna. Þannig hefði líka verið hægt að koma í veg fyrir ágreininginn og skaðann sem vindorkan hefur valdið. En því miður er skjótfenginn og ríkulegur gróði mikið aðdráttarafl fyrir tækifærissinnaða fjármagnseigendur, banka og lobbíista, á meðan sjálfbærar lausnir og eðlilegur afrakstur heilla minna.
Nokkrir hlekkir:
Skýrsla norsku skattrannsóknasamtakanna: Skuggahliðar vindorkunnar.
Lýsing á jöfunarferlinu og jöfnunarmörkuðum í Þýskalandi.
Skýrsla norsku vatnsauðlinda- og orkumálastofnunarinnar um jafnvægi í orkukerfinu.
Dæmi um að fyrirtæki hafi þurft að flytja rekstur til annars lands vegna hás raforkuverðs.
ALCOA fjarðarál ???
Sama dæmið.
Að mínu mati erum við nú þegar fallin fram af bjargbrúninni. Nú er ekkert annað framundan, því miður, en að sætta sig við hlutskiptið. Óheftur og endalaus hagvöxtur til eilífðarnóns er, og var alltaf, fullkomin lygi og/eða hugsanavilla. Af hverju vill fólk ekki sjá þá staðreynd?
☻g hlaut mikið lof fyrir, alla vegana hjá öðrum frjálshygglunarhugsjónapilsfaldaröfgakapítalistum.
Þetta er ekki í genunum.
Græðgin er innrætt í fólk af frjálshygglunarhugsjónapilsfaldaröfgakapítalistum!