Eftir breytingartillögu meirihluta fjárlaganefndar er áætlað að skera Rannsóknasjóð niður um 550 milljónir. Enn frekari niðurskurður er síðan boðaður næstu árin. Þessi blóðugi niðurskurður jafngildir rétt um helmingi af nýjum styrkveitingum sjóðsins en hann styrkir m.a. laun meistara- og doktorsnema í stórum rannsóknarverkefnum sem eru mikilvægur þáttur í þekkingarsköpun á Íslandi. Sjóðurinn er því algjör grunnforsenda mikilvægrar nýliðunar á sviði vísinda- og fræðastarfs á Íslandi. Hann tryggir m.a. að hægt sé að undirbúa nýja kynslóð fyrir vinnumarkað í sífellt flóknari heimi á sviði vísinda, tækni og samfélagslegra áskorana. Árangurshlutfall sjóðsins er nú um 20% en ljóst er að það færist enn neðar ef þessi niðurskurður gengur eftir. Meira en 80% umsókna fá því neitun.
Uggvænleg þróun hefur að sama skapi átt sér stað undanfarið þar sem fjármagn til grunnrannsókna er skorið niður en aukið fjármagn veitt til fyrirtækja á forsendum nýsköpunar. Samkeppnissjóðir grundvallast á samkeppni. Að fenginni erlendri umsögn fagaðila er styrkjum raðað í styrkleikaflokk og þeir sem hafa vönduðustu og bestu rannsóknaráætlunina hljóta styrk hverju sinni. Styrkir til fyrirtækja hlíta ekki sambærilegu mati. Það er ekki góð nýting á almannafé og almannagæðum að færa fé úr samkeppnissjóðum nær óheft til einkaaðila undir yfirskini vísinda og nýsköpunar án eftirlits eða vísindalegs jafningjamats. Þessi þróun lýsir bjöguðu viðhorfi til vísinda og í raun til almennrar þekkingarleitar.
„Fyrirhugaður niðurskurður er alvarleg aðför að fræðasamfélagi framtíðarinnar á Íslandi“
Ef íslenskt samfélag vill geta tekist á við framtíðaráskoranir, t.d. í tengslum við umhverfismál og tækninýjungar, er besta leiðin til þess að styrkja umgjörð til vísindastarfs á Íslandi. Nauðsynlegt er að efla skilyrði til rannsókna og menntunar á framhaldsstigi. Nú þegar er skortur er á sérfræðingum, þar á meðal í fornleifafræði, og ljóst er að nemendum mun fækka til muna ef tækifærum fækkar til þess að starfa að metnaðarfullum grunnrannsóknum.
Fyrirhugaður niðurskurður er alvarleg aðför að fræðasamfélagi framtíðarinnar á Íslandi og mun takmarka starfsmöguleika ungs vísindafólks og sérfræðinga. Án nýliðunar á þessu sviði er ljóst að nýsköpun á vinnumarkaði mun staðna. Til þess að tryggja öflugt vísindastarf og þekkingarsköpun hér á landi er nauðsynlegt að stórefla fjármögnun samkeppnissjóða Vísinda- og tækniráðs.
Höfundar eru fornleifafræðingar
Athugasemdir