„Þetta er ekkert annað en óásættanleg niðurstaða,“ sagði Dagbjört Hákonardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í umræðum um störf þingsins á Alþingi þar sem rætt var um niðurstöður PISA könnunarinnar.
Niðurstöðurnar, sem birtar voru fyrr í dag, sýna að íslenskir nemendur eru langt undir meðaltali samanburðarríkja í grunnhæfni og í afburðarhæfni. Aðeins 53% íslenskra 15 ára drengja búa yfir grunnhæfni í lesskilningi.
Dagbjört sagði að skuldinni geti ekki verið skellt á íslensku kennarastéttina. Kennaranámið hafi verið lengt og þar starfi „hæfileikaríkt fagfólk sem hefur ekki nauðsynleg tæki og tól til að grípa í stækkandi samfélag sem býður upp á sífellt flóknari áskoranir.“
Hún telji þetta ekki eingöngu verkefni mennta- og barnamálaráðherra og að það sé „kominn tími til að fjármálaráðuneytið setji menntun barna og félagslegan jöfnuð í fyrsta sæti.“
Óásættanlegar niðurstöður
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði niðurstöðurnar vera með öllu óásættanlegar. „Það er algerlega óásættanlegt að aðeins 60% 15 ára barna hafi ná grunnfærni í lestri lesskilningi. Það er óásættanlegt og við verðum að grípa til aðgerða.“
Það væru þó jákvæðar fréttir að íslenskum börnum líði vel í skóla. „Lausnin felst ekki í auknu fjármagni inn í kerfið því að við skulum líka muna það að útgjöld til menntamála á Íslandi eru með þeim hæstu innan OECD-landanna. Hér þarf þess vegna að taka til í kerfinu áttað sig á því hvaða breytinga er þörf til að ná árangri og til þess verðum við að hafa mælikvarða á það. Hvað er það sem virkar og hvað virkar ekki?“
Bryndís lagði til að norrænir ráðherrar menntamála myndu koma sér upp samnorrænni vísinda- og ráðgjafanefnd. Mikilvægt væri að „hlusta á vísindafólk okkar, fólki sem veit hvaða náms aðferðir virka.“
Athugasemdir