Út frá lögum um náttúruvernd, verndargildi náttúru friðlands Vatnsfjarðar, samfélagslegum hagsmunum og takmörkuðum möguleika á að friðlýsa „samsvarandi“ svæði á öðrum stað þá er það mat Náttúrufræðistofnunar Íslands að breytingar á friðlýsingu Vatnsfjarðar þannig að þar yrði heimilt að reisa virkjun, myndu hafa mjög mikil neikvæð áhrif á náttúruminjar og landslag friðlandsins. Þá þarf að sögn stofnunarinnar að meta vandlega fordæmisgildi slíkrar ákvörðunar og hvaða afleiðingar það gæti haft á stöðu náttúruverndar á Íslandi. „Náttúrufræðistofnun telur í ljósi þessa ekki við hæfi að litið sé til virkjunarkosta innan friðlands Vatnsfjarðar með tilheyrandi breytingum á reglum þess.“
Orkubú Vestfjarða hefur óskað eftir því að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hlutist til um það að breyta reglum um friðlandið í Vatnsfirði þannig að heimilt sé að veita leyfi til að reisa vatnsaflsvirkjun innan þess. Áður en ráðherra getur tekið ákvörðun um afnám eða breytingu á friðlýsingu ber honum, samkvæmt lögum um náttúruvernd, að leita umsagna fagstofnanna og annarra hagaðila. Eftir slíku var óskað nú í haust og hafa umsagnir m.a. borist frá Náttúrufræðistofnun og Hafrannsóknarstofnun.
„Náttúrufræðistofnun telur að ekki hafi verið sýnt á fullnægjandi hátt fram á að brýnir samfélagslegir hagsmunir krefjist þess að nauðsynlegt sé að koma fyrir vatnsaflsvirkjun innan friðlandsins í Vatnsfirði.“
Í náttúruverndarlögum kemur fram að afnám friðlýsingar eða breyting sem felur í sér að dregið er úr vernd viðkomandi náttúruminja sé aðeins heimil ef verndargildi minjanna eða svæðisins hefur rýrnað svo að forsendur eru ekki lengur fyrir friðlýsingunni eða ef mjög brýnir samfélagshagsmunir krefjast þess.
Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, bendir í sinni umsögn á að innan friðlandsins í Vatnsfirði séu fjölbreytt vatnavistkerfi, sem eru að mestu eða öllu leyti óröskuð. Þar megi telja vötn og tjarnir norður af Vatnsdal auk „urmul tjarna og smávatna“ við Glámu í 500–600 metra hæð yfir sjávarmáli.
Í Vatnsdalsá veiddist 71 lax á stöng 2022 og að meðaltali síðastliðin tíu ár 58 laxar. Í samanburði við aðrar ár sem renna suður til Breiðafjarðar hefur veiðin í Vatnsdalsá verið sú næst mesta, bendir stofnunin á. Í rannsókn á seiðaþéttleika í ám í sama landshluta sem gerð var í ágúst 2017 kom fram að þéttleiki laxaseiða í Vatnsdalsá, innan við Vatnsdalsvatn, var töluvert meiri en í nærliggjandi ám.
Vegna gagnaskorts um vatnalíf á áhrifasvæði áformaðrar virkjunar í Vatnsfirði er töluverð óvissa hver áhrifin, bæði bein og óbein, kunna að verða á vistkerfi vatna. Þó má ljóst vera, að mati Hafró, að vatnshæðabreytingar myndu aukast frá náttúrulegum sveiflum auk þess sem rennslishættir straumvatna myndu að einhverju leyti breytast. „Almennt hafa vatnsaflsvirkjanir neikvæð áhrif á lífríki í vatni þótt þær séu mismiklar og fer það eftir rekstri virkjana og uppruna vatns.“
Háslétta Vestfjarða einkennist öðru fremur að vötnum af mörgum stærðum og gerðum. Vötn þessi eru á víðerni umhverfis Glámu og síðan á Ófeigsfjarðarheiði. Óröskuð víðerni hafa hátt verndargildi á heimsvísu og minnir stofnunin á að í lögum um náttúruvernd er lögð skýr áhersla á verndun þeirra. Virkjunin myndi hafa áhrif og valda álagi á yfirborðsvatn, þar með á vatnalíf og breyta búsvæðum lífvera en samkvæmt lögum um stjórn vatnamála má ástand vatns ekki hnigna.
„Að framansögðu er það álit Hafrannsóknastofnunar að verði af þeim virkjunaráformum á vatnasviði Vatnsdalsár sem Orkubú Vestfjarða hyggur, muni verndargildi svæðisins rýrna mikið.“ Reikna megi með að áhrifin verði einkum neikvæð á óröskuð víðerni Glámusvæðisins en miðað við lýsingu á framkvæmdum myndu þau raskast töluvert með tilkomu virkjanamannvirkja, þ.m.t. miðlunarlóna, vegagerðar og flutningsmannvirkja. „Rask verður á stöðuvötnum, tjörnum og rennslishættir straumvatna munu breytast með neikvæðum áhrifum á vistkerfi í vatni.“
Í umsögn Náttúrufræðistofnunar, sem Eydís Líndal forstjóri m.a. ritar, segir að áhrif virkjunar Orkubúsins yrðu umtalsverð og fjölbreytt. Þá myndi framkvæmdin gjörbreyta ásýnd og eðli svæðisins og verndargildi svæðisins skerðast töluvert.
Verndargildi svæðis aukist frá friðlýsingu
Hvað varðar heimildir til affriðunar eða breyttrar friðlýsingarskilmála samkvæmt náttúruverndarlögum er það mat Náttúrufræðistofnunar að verndargildi náttúruminja í friðlandi Vatnsfjarðar hafi ekki minnkað frá því að svæðið var friðað árið 1975 heldur þvert á móti aukist í ljósi betri þekkingar um svæðið.
„Friðlandið samanstendur af fallegri landslagsheild. Líkt og nafnið ber með sér, þá er það ekki síst vatnið í þessum óvenju breiða dal sem setur svip sinn á umhverfið og er einstakt fyrir landshlutann. Leirurnar við Vatnsfjörð eru alþjóðlega mikilvægur áningarstaður vaðfugla t.d. rauðbrystings. Virkjanaframkvæmdir ofan við Vatnsfjörð myndu orsaka margskonar breytingar og rask sem ógnar náttúruminjum.“
Þá myndu óbyggð víðerni við Glámu skerðast en slík landsvæði á Íslandi er mikilvægt að vernda þar sem þeim fer fækkandi vegna athafna mannsins og þau eru í dag fágæt í Evrópu. „Landslag friðlandsins mun breytast verulega með tilkomu virkjunar, þ.e. úr því að vera náttúrulegt landslag yfir í manngerða ásýnd með nýjum vegum, byggingum og línulögnum.“
Hvað varðar þá heimild til að aflétta friðun ef brýnir samfélagshagsmunir krefjist þess bendir Náttúrufræðistofnun á að sterkur rökstuðningur þurfi að vera fyrir hendi í þessu skyni. „Í tilfelli Vatnsdalsvirkjunar eru aðrir virkjanakostir á Vestfjörðum á teikniborðinu og a.m.k. þrír kostir eru í mati í 5. áfanga Rammaáætlunar. Á umliðnum árum hefur einnig verið bent á að orkuöryggi Vestfjarða felst ekki síður í endurskoðun á dreifikerfi raforku í landshlutanum.“
Ekki sýnt fram á nauðsyn virkjunar í Vatnsfirði
Vatnsfjörður hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðaþjónustu og útivist. „Í ferðaþjónustu og útivist liggja mikil tækifæri til framtíðar og því felast samfélagslegir hagsmunir í verndun náttúru svæðisins fyrir sunnanverða Vestfirði sem taka þarf tillit til,“ segir stofnunin í umsögn sinni. „Náttúrufræðistofnun telur að ekki hafi verið sýnt á fullnægjandi hátt fram á að brýnir samfélagslegir hagsmunir krefjist þess að nauðsynlegt sé að koma fyrir vatnsaflsvirkjun innan friðlandsins í Vatnsfirði.“
Þá telur stofnunin að ekki sé að finna samsvarandi svæði annars staðar í landshlutanum með því samspili náttúrufarsþátta sem einkenna friðland Vatnsfjarðar, og sem gæti komið til greina að vernda í staðinn ef breytingar yrðu gerðar á reglum friðlandsins sem heimiluðu vatnsaflsvirkjun innan þess.
Athugasemdir