Í hugum margra er hagfræði hin döpru vísindi sem fjalla um atvinnuleysi, verðbólgu og hina illræmdu stýrivexti seðlabanka. En í bókinni Hagfræði daglegs lífs er varpað öðru ljósi á hagfræðivísindin. Hann setur sig í spor lesandans og leiðir hann í gegnum sitt nærumhverfi, þjóðfélagið sem hann býr í og alla leið til kirkju og guðstrúar.
Flest eða ekki allt sem við tökum okkur fyrir hendur frá degi til dags hefur hagfræðilegar skýringar. Það að lesa bók felur í sér hagfræðilega ákvarðanatöku. Lesandinn ákvað þá að kaupa bókina og fórna því þá að kaupa eitthvað annað fyrir peningana. Hann þarf einnig að ákvarða hvort hann lesi bókina heima eða á kaffihúsi, sem kostar meira. Og hann þarf stöðugt að ákveða hvort hann vilji halda lestrinum áfram. Það að hætta lestri bókar í miðjum klíðum er svipað og hætta rekstri fyrirtækis þegar illa gengur. Í báðum tilvikum er möguleikanum á betra gengi, áhugaverðari lestri á þeim síðum sem eftir er að lesa eða betri hagnaði í framtíð fórnað.
Við þurfum líka að ákveða á hverjum degi hvenær við gögnum til náða og hvenær við vöknum á morgnana. Stuttum svefni fylgir langur vinnudagur en líðan okkar og afköst eru því minni sem höfum fengið minni svefn. Þegar fólk reynir að koma of miklu í verk á daginn, sofa of lítið, þá gefur heilsan smám saman eftir. Með aldri verður líkaminn veikari, eins og vél sem úreldist og afskrifast, en við getum haldið honum betur við með líkamsrækt. Þá erum við að fjárfesta í betri líðan og lengra lífi í framtíðinni með því að verja tíma í líkamsrækt.
Í okkar daglegu lífi gerum við ýmis mistök. Við kaupum, ef við getum, dýrar vörur og klæðnað af því að þær þykja fínar, aðrir sækjast eftir þeim. Og við veljum okkur stundum nám eða starf sem nýtur virðingar í samfélaginu fremur en að við höfum sérstakan áhuga á því. Við eigum oft erfitt með að bíða og eyðum of miklum peningum frá degi til dags, borðum of mikið og vinnum oft of margar stundir en ætlum í framtíðinni að spara meira, borða minna og njóta fleiri frístunda. Lífeyrissjóðir hjálpa okkur að spara vegna þess að við verðum að leggja í þá, höfum ekki val. Við tökum það of alvarlega þegar við verðum fyrir tjóni en gleðjumst minna þegar við fáum vinning. Við hugsum í sögum um okkar eigið líf og þjóðfélagið og leitum að staðfestingu á þeim.
Makaleit svipuð starfsleit
Við fjárfestum ekki einungis í betri heilsu með hreyfingu og góðu mataræði, þ.e.a.s. þegar við höfum sjálfsaga, heldur fjárfestum við líka í menntun með því að verja stórum hluta ævinnar í skólagöngu og einnig getum við ræktað vinatengsl og fjölskyldubönd. Skólaganga gefur okkur einnig möguleika á að sanna okkur fyrir tilvonandi vinnuveitendum og reyndar einnig á hjónabandsmarkaði. Sá sem hefur lokið erfiðum prófum hefur sannað að hann getur skipulagt tíma sinn og sýnt sjálfsaga.
Flestir vilja festa ráð sitt einhvern tíma á ævinni. Makaleit er að mörgu leyti svipuð starfaleit. Við leitum að starfi og fyrirtækin leita að starfsfólki, þegar tveir aðilar hafa fundið hvor annan, fyrirtæki og umsækjandi um starf, þurfa þeir að ákveða hvort þeir vilja festa ráð sitt eða halda leitinni áfram. Eins með makaleit. Þeir sem hefja sambúð fórna þá möguleikanum á að finna einhvern eða einhverja enn betri í framtíðinni og hjónaskilnaður gefur möguleika á að hitta einhvern sem manni líður betur með, þótt margir komist seint og síðir að því að þeir flýja aldrei sjálfan sig. Kærustupar sparar pening á því að búa saman af því að húsnæðiskostnaður á mann er minni fyrir tvo en einn og báðir geta notað sömu heimilistæki og bifreið. Síðan þarf að ákveða hvort fólk vill eignast börn og þá hve mörg. Sumir vilja færri börn og fjárfesta meira í hverju þeirra í formi tómstunda og athygli og tíma með foreldrum. Barnafjölskyldur geta notfært sér kosti sérhæfingar og verkaskiptingar með því að sumir taki að sér að gæta margra barna á daginn, dagvistun og leikskólar, á meðan aðrir einbeita sér að annarri vinnu. Uppeldi barna skiptir öllu máli fyrir framtíð þjóðar. Með uppeldi fáum við góð gildi, vinnusemi, sparsemi eða þá andstæðu þessa. Við fáum stundum gott tengslanet í formi vina og vináttan getur bætt líf okkar svo lengi sem við lifum.
Við höfum það betra en afar og ömmur
Við njótum þeirra efnahagslegu lífskjara sem þróað þjóðfélag getur boðið upp á. Tækni og vöruúrval bætir lífskjör okkar. Við höfum það margfalt betra, í krónum talið, en afar okkar og ömmur. En hvað skapar þessa tækni, þessi lífskjör? Kapítalísk hagkerfi eru sjálfsprottin, það bjó þau engin til, en þau skapa umhverfi þar sem metnaðargjarnir og hugmyndaauðugir einstaklingar sjá hag sínum best borgið í að koma fram með nýjar hugmyndir, nýjar vörur eða nýjar leiðir til þess að framleiða vörur í stað þess að vega hver að öðrum, sem gerist í löndum þar sem óöld ríkir, eða taka sér fé á kostnað annarra sem er ábatasamara í spilltum löndum. Hagvöxtur á Íslandi varð til á 20. öld þegar frumkvöðlar í útgerð, margir af dönskum uppruna, fluttu inn erlenda tækni og fjármagn sem jók afköst og framleiðni í sjávarútvegi. Með auknum utanríkisviðskiptum varð til sérhæfing, Ísland flytur út sjávarafurðir og klæðnað og flestan iðnvarning inn, í stað þess að allt sé framleitt hér. Sérhæfing, frjáls verslun og starfsemi frumkvöðla skapar smám saman betri lífskjör.
En kapítalisminn er einnig stundum ógnvænlegur. Hann eyðir störfum og býr ný til. Hefðbundnar atvinnugreinar geta átt undir högg að sækja. Atvinnuleysi verður stundum mikið og hann getur átt erfitt með að rétta sig af eftir djúpar dýfur. Stundum verða fjármálakreppur, t.d. heimskreppan mikla á fjórða áratugnum og heimskreppan minni árin 2009 til 2009. En það var óttinn við óheftan kapítalisma sem framkallaði bæði kommúnisma og fasisma á 20. öldinni með skelfilegum afleiðingum. Með kommúnisma átti að leggja af eignarétt, öll framleiðslutæki áttu að vera sameign þjóðar en kommúnisminn kallaði á andsvar þeirra sem vildu verja eignarrétt sinn. Þetta var fasismi Mussólini, Peróns og náskyld en ógnvænlegri hugmyndafræði nasista í Þýskalandi. Lýðræði var afnumið og öll völd falin einum flokki, einum foringja, sem einn vissi hverjir hagsmunir þjóðar væru og gat skilgreint óvini hennar. Einstaklingsfrelsi var afnumið.
Kapítalismanum til bjargar kom breski hagfræðingurinn John Maynard Keynes sem benti á leiðir til þess að bjarga honum úr ógöngum þegar kreppuástand varð viðvarandi. Hagstjórn ríkisstjórnar og seðlabanka gætu þannig komið til bjargar. Jafnaðarstefna Benthan og John Stuart Mill sýndi einnig hvernig ríkisvald gæti bætt kjör þjóða með því að draga úr ójöfnuði, að dreifa tekjum til þeirra sem búa við lökust kjör. Hið blandaða hagkerfi Vesturlanda hefur reynst vera farsælt.
Tími til að hætta að þegja
Í veröld okkar nú á tímum takast á kraftar kapítalismans, viðleitni til að auka jöfnuð eða draga úr honum og hagstjórn á oft fullt í fangi með að hafa taumhald á þeim miklu kröftum sem draga hagkerfin áfram. Þegar lífskjör staðna og atvinnutækifærum fækkar koma fram stjórnmálaöfl sem eru spegilmyndir af kommúnisma og fasisma 20. aldar, finna óvini til þess að geta kennt einhverjum um og ala á hatri og heift, aðrar hreyfingar hafna markaðshagkerfinu. Þá þarf einhver að vera til varnar fyrir samfélag sem er byggt á lögum og rétti, lýðræði og frjálsum viðskiptum, mannréttindum og mannúð.
„Ríkisvald og stofnanir þess geta verið grimmar ef enginn þorir að rétta upp hönd og benda á það sem ekki er rétt.“
En til þess þarf oft kjark. Eins og börn sem standa út á leikvelli og sjá einhvern verða fyrir einelti, finnst það slæmt en gera ekkert, þá getum við öll í okkar fullorðinslífi ákveðið að standa hjá, þegja og horfa á slæma hluti gerast af því að það er þægilegast fyrir okkur sjálf. Edmund Burke sagði að það sem þyrfti til þess að hið illa sigraði væri að gott fólk gerði ekki neitt. Ríkisvald og stofnanir þess geta verið grimmar ef enginn þorir að rétta upp hönd og benda á það sem ekki er rétt.
Í okkar litla samfélagi er margt sem allir gætu verið sammála um að er ekki rétt. Það er heimilislaust fólk á götum Reykjavíkur, þeir sem hafa ánetjast fíkniefnum deyja á biðlistum eftir meðferð, gamla fólkið fær ekki pláss á hjúkrunarheimilum fyrr en eftir langa bið og þannig mætti áfram telja. Er ekki kominn tími til að hætta að þegja?
Athugasemdir