Ég hef lært að við trúum á þægindi. Við viljum flest hafa það náðugt. Þess vegna sækjumst við eftir alls kyns viðurkenndu öryggi sem birtist m.a. í því að síðmiðaldra fólk eins og ég sér sig í huganum renna rafmagnsbílnum sínum hljóðlega niður í einhvern bílakjallarann og ganga með fjölnota innkaupapokann að lyftuhurð. Þar er þrýst á viðeigandi hnapp sem skilar manni inn á rétta útsýnishillu þar sem staðfesta má tilveru sína með því sem nefnt er einkaneysla.
Ég hef líka orðið þess áskynja að þorri Íslendinga hefur það býsna náuðugt og þægilegt. Þess vegna er það mörgum ráðgáta af hverju fólk er aldrei ánægt. Hverju sætir að sældarlegur almenningur er síkvartandi og jafn vel bálreiður þótt kaupmáttur launa sé stórgóður í sögulegu ljósi? Ég held að þetta stafi af því að mannkyn er eina dýrategundin sem getur dáið úr tilgangsleysi.
Það sem þjáir okkur mest eru ekki áföllin í lífinu svo sem sjúkdómar, slys og öldrun. Ofanflóðin, jarðeldar og önnur náttúruvá megna heldur ekki að ræna okkur merkingu og tilgangi. Jafn vel dauðinn sjálfur skorar ekki hæst á skala mannlegrar reiði. Við þekkjum dutlunga örlaganna og höfum kynslóð fram af kynslóð beitt þeirri aðferð að hafa stjórn á sjálfum okkur, gera það sem í valdi okkar stendur og taka því sem að höndum ber. Við kunnum það.
„Mannkyn er eina dýrategundin sem getur dáið úr tilgangsleysi“
Tilgangsleysið sem hræðir okkur og vekur reiði stafar af mannlegu ranglæti. Hinu óhjákvæmilega í lífinu mætum við með jafnaðargeði en ranglætið fær mannssálin ekki þolað. Þarna er munurinn á Grindavík og Gaza.
Þó er þetta ekki alveg einfalt því, líkt og Immanuel Kant benti á, þá er alltaf eitthvað við ófarir minna bestu vina sem er mér ekki alveg á móti skapi.
Almenningur er hræddur og reiður vegna ranglætisins í heiminum sem hann vill þó alls ekki breyta. Sem dæmi erum við alltaf með um 10 þúsund íslensk börn búandi við fátækt. Þorri Íslendinga hefur húsnæðisáhyggjur stóran hluta ævinnar og þenslan í hagkerfinu bitnar mest á þeim sem ekki valda henni. Við erum svona samfélag.
Í kristinni hefð hefur þetta mótsagnakennda ástand verið nefnt erfðasynd. Í visku 12 sporanna og AA samtakanna heitir þetta vanvirk samskipti.
Ég hef sannfærst um að því að vanvirk hegðun okkar stjórnist ekki síst af óvelkomnum tilfinningum eins og ógeði, ásökun og sektarkennd, samanburði og skömm. Í nýlegri bók ber ég fram líkur á að þessar vondu tilfinningar, sem hver einasta mannssál þarf að kljást við, séu nærðar af vinnutilgátum sem mannkyn hefur notað í glímunni við veruleikann um aldaraðir. Við treystum t.d. á yfirráð fremur en samráð. Við veðjum líka á sökudólga sem bera skuli ranglætið í burtu en erum illa læs á félagsleg mynstur og deilda ábyrgð. Við reiðum okkur á hagsmuni hinna fáu fremur en almannahag og skilgreinum okkur sem keppinauta frekar en samstarfsfólk. Niðurstaðan er útbreiddur kvíði og einmanaleiki. Tilgangsleysi.
Sú vinnutilgáta sem sameinar allar hinar fjórar (yfirráða-, sakar-, forréttinda- og einstaklingshyggjuna) er að mati margra fræðimanna hin aðlaðandi hugmynd um ógildishlaðna almannarýmið sem orðið hefur geysivinsæl hér heima. Undir formerkjum hlutleysis og umburðarlyndis höfum við sameinast um þjóðfélagsandrúm þar sem obbi almennings upplifir sig jaðarsettan vegna þess að það sem ljáir lífi fólks merkingu er ekki metið hæft til opinberrar birtingar. Það er ekki eins og neinn sé með ónot. Við lifum bara í hlutlausu almannarými þar sem fólk hittist á markaðnum og orðræðan takmarkast við það sem þar er talið við hæfi, sanngjarnar leikreglur og almennar fréttir. Menningarlegum sérkennum er haldið inni í einkarýminu, nema það séu sérstakir þemadagar í skólanum eða annað viðlíka. Vissir þættir eru álitnir einkamál, svo sem heilsa þín (einkum ef það varðar geðheilsu), fjármálin þín (einkum ef þú átt lítið af peningum), trú þín (sérstaklega ef þú ert múslimi eða hefur upplifað andlega vakningu) og saga lífs þíns (einkum ef þú hefur orðið fyrir skæðum áföllum). Þá leggja fyrirtæki æ ríkari áherslu á rafræna sjálfsafgreiðslu, og ef þú þarft nauðsynlega að ná tali af einhverjum, þá er samtalið tekið upp.
Ég átti erindi inn í útibú eins af stóru bönkunum dag einn fyrir nokkru og sem ég geng inn í anddyrið mætir mér ómur af fjölmenni og mettað loft af því tagi sem oft fylgir mannfjölda í húsi. Þá rann upp fyrir mér að nú væri fyrsti virki dagur mánaðar. Fólk var í góðu spjalli með kaffi í pappamáli og númeramiða í hendi. Öll að bíða en engum lá á, og þegar gjaldkerar hrópuðu upp númerin var frekar eins og þeir væru að spilla góðri stund. Þarna var fullur salur af fólki og yfir öllu ríkti þessi sérstaka gleði sem vaknar þegar persóna mætir annarri persónu og maður verður manns gaman. Samúð mína áttu ergilegir gjaldkerarnir sem reyndu eftir megni að komast yfir verkefni sín.
Fólki fylgir skvaldur og vesen. Fólk er óútreiknanlegt og það er lykt af því, og nú er okkur í þann mund að takast að tæknihanna þjóðfélagið þannig að það verði sem fæstar svona hópamyndanir. Skilaboð almannarýmisins eru þessi: Við viljum eiga viðskipti við þig, en samskipti eru ekki í boði.
Ég er ekki einn um þá von að nú sé þessu gelgjutímabili íslenkrar menningar að ljúka. Það er svo kvíðavaldandi að tilheyra litlu samfélagi þar sem öll eru frjáls að því að vera ólík – í einrúmi. Við þurfum ekkert að hafna ólíkum þáttum eins og opinbera rýminu og einkarýminu. En við ættum ekki að líta svo á að annað skuli hafa forgang á hitt, því að þá byrjum við að glata tilgangi.
Alltaf þegar ég kem að almenningssalernum sem ekki aðgreina kyn er eitthvað sem hlær innra með mér. Mig grunar að hið nýtilkomna frelsi sem fólk hefur nú áskilið sér í nafni vekni1 (e. wokeness) til að ákvarða eigin kynverund óháð líffræðilegu kyni sé andóf mannsandans við vanvirkni menningarinnar. Það þykir mér fallegt og hressandi. Um leið er það svo óvænt og fyndið án þess að vera vitund hlægilegt. Sem kristinn maður trúi ég á heilagan anda í kynseginsamfélaginu, fýsir að heyra sögur og hefðir allra samferðamanna og vel jafnframt að tala opið um mína trú í almannarýminu.
1 Þetta nýyrði er smíð dr. Kristjáns Kristjánssonar, sjá: Kristján Kristjánsson, „Hvað er vekni?“
Athugasemdir