„Ef Gyrðir er með ljóðabók er það alltaf besta bók ársins,“ sagði myndarlegi starfsmaðurinn í Eymundsson niðri í Austurstræti og bókabúðastarfsmenn vita nú alltaf hvað þeir syngja í þessum málum svo ég keypti mér nýju ljóðatvennuna hans Gyrðis Elíassonar: Dulstirni og Meðan glerið sefur.
Á leiðinni út sagði hann mér að tékka líka á nýju ljóðabókinni hans Sölva Björns Sigurðssonar, Anatómía fiskanna. Ég elska fiska svo ég mun gera það.
Á Loft hitti ég svo bókmenntafræðinemana sem eru alltaf að læra þar og spurði hvaða ljóðabók þeim þætti mest spennó í ár. Þau voru öll sammála um að Taugatrjágróður eftir Aðalheiði Halldórsdóttur væri bókin sem þau væru öll búin að biðja um að fá í jólagjöf. Þau lýstu svo fyrir mér rosalegum gjörningum sem hún hefur verið með svo núna er ég að deyja, ég er svo spennt að ná henni einhvers staðar að lesa upp. Greinilega alveg mögnuð kona og bók hér á ferð.
Annað ljóðskáld sem ég mæli með að ná upplestrum hjá er Kristinn Óli S. Haraldsson sem er betur þekktur sem Króli. Hann var meðal ljóðskálda á borð við Eydísi Blöndal, Kristínu Ómars og Kött Grá Pje sem lásu upp á ljóðakvöldi Iceland Noir á Röntgen. Þar sem enginn annar en metsöluhöfundurinn Dan Brown mætti og hlustaði á ljóð á íslensku og smá á ensku. Það kvöld var Króli algjör stjarna svo ég er spennt að lesa bókina hans, Maður lifandi.
Bókmenntafræðinemarnir á Loft áttu heldur ekki til orð til að lýsa því hvað bókin hans Magnúsar Jochum Pálssonar, Mannakjöt, væri frábær. Ég las hana um leið og hún kom út því ég hef hitt hann á vappinu í bænum og hann er svo skemmtilegur og ljúfur. Kápan er fyndin og ógeðsleg svo það er hægt að kaupa bókina bara út á það. En svo er innihaldið alveg hræðilega dystópískt og myrkt. Alveg eins og almennilegar ljóðabækur eiga að vera. Ég alveg fokking elska hana. Þó að mig langi líka alltaf smá að gubba á meðan ég les hana. Mun gera það oft.
Stemningin í bókakreðsunum er samt ekkert svaka spes þessa dagana. Það gerist nú yfirleitt í bókaflóðinu. Stressið yfir sölu og kappið um athygli og umfjöllun virðist ekki kalla fram það fallegasta og blíðasta í persónuleikum allra höfunda. Í fyrra náðu óskemmtilegheitin hámarki þegar tilkynnt var um listamannalaunin. Í ár ætla ég að taka ráterinn minn úr sambandi þá viku.
„Kápan er fyndin og ógeðsleg svo það er hægt að kaupa bókina bara út á það“
Ein leið til að þurfa ekki að hrærast í þessum skítastemmara er að gefa út á ensku eins og Karólína Rós Ólafsdóttir gerði. Hún er kornung gella að norðan sem var að gefa út bók í Skotlandi sem heitir All in Animal Time og hélt svaka partí í Glasgow. Ég ætla að mæta þegar hún heldur annað útgáfupartí hérna í Reykjavík.
Aðrar bækur sem ég ætla alveg 100% að fá mér eru Þar sem malbikið endar eftir Magneu J. Matthíasdóttur og Tálknfirðingur BA eftir Ólaf Svein Jóhannesson. Ég er mikill aðdáandi þeirra beggja og hef lesið allt sem þau hafa gefið út hingað til.
Svo er alltaf svo gaman að fylgjast með grasrótinni. Í sumar komst ég yfir eintak af ljóðabókinni Kaffi-Skissur eftir Helenu Guðrúnu Þórsdóttur. Þetta er hennar fyrsta bók og er með ljóðum um allt milli himins og jarðar sem hún skrifaði á aldrinum 13 til 19 ára. Alveg frábær bók sem minnti mig á að allar áhyggjur af stöðu ljóðsins eru óþarfar. Það er verið og verður haldið áfram að skrifa alveg stórkostleg ljóð á Íslandi.
Athugasemdir