Piparfólkið
Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir Ljósahönnun: Ólafur Ágúst Stefánsson Tónskáld: Georg Kári Hilmarsson Aðstoð við dramatúrgíu: Hannes Óli Ágústsson
Leikhópurinn Díó er mættur aftur á svið eftir alltof langa fjarveru. Í síðasta verki sínu skoðuðu Aðalbjörg Þóra Árnadóttir og Ylfa Ösp Áskelsdóttir blakiðkun áhugafólks. Í rannsóknarrevíunni Piparfólkið fara þær allt aðrar leiðir og bjóða litlum hópi áhorfenda í Kornhlöðuna á Bankastræti að ferðast aftur í tímann. Sögusviðið er fyrstu áratugir tuttugustu aldarinnar á höfuðborgarsvæðinu þegar Reykjavík var að slíta barnsskónum og aðalpersóna verksins, sem áhorfendur heyra í en sjá aldrei, er Guðni Eyjólfsson, langafi Aðalbjargar.
Stórmerkileg heimild
Guðni, betur þekktur sem Guðni gas, enda starfsmaður á Gasstöðinni í Reykjavík, átti sér nefnilega leynisjálf sem gamanvísna- og revíuhöfundurinn Gylfi. Þegar Aðalbjörg uppgötvar þessa óvæntu staðreynd hefur hún samband við Ylfu og þær leggja af stað í rannsóknarleiðangur. Illa gengur að finna höfundarverk Gylfa nema þá helst á síðum dagblaðanna, í formi pistla og gamanvísna. En einn góðan veðurdag fá þær símtal frá starfsmanni á Handritasafni Landsbókasafns sem biður þær um að koma skjótt. Í litlu skjalasafni undir safnmarkinu Lbs 5481 4to er forláta stílabók sem inniheldur leikrit í einum þætti að nafninu Piparfólkið. Kemur í ljós að einþáttungurinn er eftir engan annan en Guðna gas.
Piparfólkið er kannski ekki góður pappír samkvæmt nútímastöðlum en er stórmerkileg heimild, ekki einungis um gamanleikrit fyrri tíma heldur einnig daglegt líf í Reykjavík á þeim tíma þegar leikþátturinn er skrifaður. Með því að rýna í smáatriði textans þræða Aðalbjörg og Ylfa saman framvindu leikritsins inn í menningarsögu Reykjavíkurborgar. Stöllurnar fá síðan leynigesti til liðs við sig til að koma leikriti Guðna/Gylfa til skila, ekki einungis í brúðuformi heldur líka af holdi og blóði.
Ríkidæmi íslenskrar sviðslista- og menningarsögu
Leikmyndina hannar Brynja Björnsdóttir af natni. Engu er ofaukið, enda leiksviðið afar smátt. Hún vinnur laglega með dýpt og stærð, liti og hlutföll. Aðalbjörg og Ylfa eru með drífandi og skemmtilega sviðsnærveru. Frásögn þeirra er grípandi, danssporin bráðfyndin og húmorinn smitandi. Aftur á móti er tónninn og frásagnarmátinn stundum of hástemmdur, eins og þær séu að flýta sér í gegnum sýninguna. Hannes Óli Ágústsson aðstoðar við dramatúrgíu en leikkonurnar leikstýra, ásamt því að standa á sviði og skrifa handritið. Hér hefði verið gott að fá annað par af höndum til að ramma sum atriði betur inn, eða jafnvel hægja á þeim. Í raun mætti Piparfólkið vera lengra, nægur er efniviðurinn og vel þess virði að staldra við sum atriði.
Eins og góðum revíum sæmir þá eru það lögin sem standa upp úr en þau eru tvö undir frábærri tónlist Georgs Kára Hilmarssonar. Annars vegar lag um baráttu gasfólksins við andgasfólkið og Lögregluljóðin eftir Gylfa og hið síðara sungið undir laginu Álfareiðin, betur þekkt eftir fyrstu línunni: „Stóð ég úti í tunglsljósi, stóð ég út við skóg“. Piparfólkið í höndum Díóparsins er skínandi dæmi um ríkidæmi íslenskrar sviðslista- og menningarsögu, sneisafullt af forvitnilegum sögum sem bíða eftir fleiri rannsakendum.
Niðurstaða: Bráðskemmtileg en hástemmd rannsóknarrevía.
Athugasemdir