Heimasíðan hjá Pennanum Eymundsson fór á hliðina daginn sem nýja bókin hennar Þórdísar Gísla, Aksturslag innfæddra, kom út. Ég skil það vel. Þórdís er svo frábær höfundur. Hún hélt samt útgáfuboðið sitt þann dag með Birnu Stefánsdóttur sem var að gefa út bókina Örverpi, sem hún hlaut nýlega Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir. Ég er mjög spennt að lesa hana. Miðað við hvað ég hef séð og heyrt er Birna eitt mesta efni íslenskra bókmennta í langan tíma.
Fleiri héldu útgáfuboðin sín í bókabúð í ár. Til dæmis Ófeigur Sigurðsson sem var að gefa út bókina Far heimur, far sæll. Hún fjallar um Kambsránið. Alveg eins og bókin hans Einars Más Guðmundssonar: Því dæmist rétt vera. Sumum finnst skrítið að það komi út tvær skáldsögur sem byggja á sömu atburðum sama árið. En mér finnst það bara gaman. Ef einhver á það skilið að verða umfjöllunarefni, að minnsta kosti 37 bóka, væri það hún Þuríður formaður sem kom upp um Kambsránið.
Annar gamall kall sem hefur mikinn áhuga á atburðum sem gerðust í gamla daga, Einar Kárason, hélt líka útgáfupartí. En hann er nú pabbi minn, svo ég get nú ekkert farið að gaspra um það hvað sú bók er góð. En ég get heils hugar mælt með staðnum þar sem útgáfuboðið var haldið. Það var á efri hæðinni á Sólon. Þórir Jóhannsson, eigandi staðarins, var mættur á barinn og reytti af sér brandara og hljóðið í salnum er gott og bæði eru sæti á staðnum en líka nóg pláss til að labba um og blanda geði.
Mér finnst yfirleitt skemmtilegra í útgáfuboðum sem eru á börum eða kaffihúsum en í bókabúðum. Mér finnst ég alltaf vera að þvælast fyrir fólki sem er þarna í sakleysi sínu að redda afmælisgjöfum á síðustu stundu eða fá sér eintak af Bo Bedre til að taka með sér í bústaðinn. Ég byrja bara alltaf að hvetja þau til að smella sér bara á nýjasta eintak af Hjemmet því það sé nú að koma helgi og svona.
„En mest hlakka ég til að halda áfram að mæta í fullt af fleirum útgáfuboðum og fara á svona níu hundruð upplestrarkvöld.“
Samt var eitt skemmtilegasta útgáfuboð haustsins í búð. Það var í Smekkleysu þar sem Einar Örn og Bragi Ólafs voru að gefa út bókina Út úr mátunarklefanum.
Þar var Sigrún Pálsdóttir sem var einmitt sjálf að gefa út bókina Men, Vorkvöld í Reykjavík, sem ég hef heyrt að sé bæði ein óvæntasta og flippaðasta bókin í ár. Ég er alltaf smá svag fyrir skáldsöguflippi. Og auðvitað alltaf bara fyrir Sigrúnu Pálsdóttur sjálfri.
Þar í búðinni rakst ég á Óskar Árna Óskarsson og náði að grafa upp aftast í bókahillu eintak af bókinni Fjörutíu ný og gömul ráð við hversdagslegum uppákomum sem ég hélt að væri löngu orðin uppseld. Keypti eintakið og fékk hann til að árita. Ég er nú alla jafna ekki mikið fyrir sjálfshjálparbækur, en út af þessari bók, þá helli ég alltaf upp á kúmenkaffi og minnist Heklugöngu Eggerts og Bjarna þegar það kemur móða á gleraugun.
Aðrar skáldsögur sem ég er búin að setja á óskalistann minn eru Serótónínendurupptökuhemlar eftir Friðgeir Einarsson, Kjöt eftir Braga Pál Sigurðarson og Deus eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur og vinir mínir segja að ég ætti að bæta við bókinni Rambó er týndur eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur svo ég hlakka til að tékka á henni líka.
En mest hlakka ég til að halda áfram að mæta í fullt af fleirum útgáfuboðum og fara á svona níu hundruð upplestrarkvöld. Bækur eru það besta við þennan árstíma.
Athugasemdir