Ég átti í meiri samskiptum við ónefnda íslenska lögmannsstofu fyrr á árinu en ég hefði kosið. Reynslan veitti óvænta innsýn í tilgang lífsins.
Þegar útgáfufyrirtæki Fréttablaðsins óskaði eftir gjaldþrotaskiptum síðasta vor voru lausapennar blaðsins, undirrituð þeirra á meðal, hlunnfarnir um umtalsverð laun. Þar sem við, flokkuð sem verktakar, sátum og klóruðum okkur í höfðinu yfir innra eðli viðskiptafrömuða, sem pöntuðu þjónustu af einyrkjum án þess að geta greitt fyrir hana, mætti okkur ómanneskjulegt viðmót sem vakti hugrenningatengsl við næsta skref í atvinnusögu mannkyns.
Forsætisráðherra Bretlands efndi í síðustu viku til alþjóðlegrar ráðstefnu um gervigreind. Þar lýsti tækniforkólfurinn Elon Musk yfir áhyggjum af öllum þeim störfum sem gervigreind kynni að leysa af hólmi. Musk taldi þróunina grafalvarlega. „Hvar eigum við þá að finna tilgang lífsins?“ spurði hann.
Þegar undirrituð sendi kröfu um ógreidd laun á þrotabú útgáfufélags Fréttablaðsins ásamt einfaldri spurningu um hvort skiptastjóra nægði að fá kröfuna í tölvupósti eða hvort hún þyrfti að berast á pappír á lögmannsstofu hans var svarið svo vélrænt að ætla mætti að gervigreindin hefði þegar tekið yfir starfsstöð hans. Í tölvupósti, sem virtist saminn af afkvæmi rafræns lagasafns og faxtækis, sagði að „frumrit kröfulýsingar“ skyldi berast á skrifstofuna „ella er þess að vænta að kröfunni verði hafnað, sbr. 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og Hrd. í máli nr. 557/2013“.
Þarna hefði nægt að segja: „Á pappír“.
Þegar undirrituð óskaði síðar eftir upplýsingum um hvort eitthvað fengist upp í kröfuna barst svar sem geislaði af jafnmikilli mannúð og Arnold Schwarzenegger í Terminator 1. „Sbr. 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti“ fengi ég ekkert. Það var ekki einu sinni splæst í „því miður“.
Stærsta ógnin
Ég geri mér ekki nokkrar grillur um að það sem ég aðhefst á vinnutíma búi yfir minnsta mikilvægi. Hyrfu skrif mín af síðum blaðanna hefði það engin áhrif á veröldina. Líklega tæki ekki nokkur sála eftir því aðrir en foreldrar mínir.
En þótt það sem ég geri sé vita marklaust er það í senn óendanlega mikilvægt. Rétt eins og það veitir lögmanni úti í bæ tilgang í lífinu að sneiða af aðdáunarverðri færni hjá mannamáli er hann tilkynnir tilgangslausum lausapenna að hún hafi verið féflett, er vinnan ástæðan fyrir því að ég fer fram úr rúminu á morgnana.
En gæti málum verið öðruvísi háttað?
Vinnan fæðir okkur og klæðir. En ekki nóg með það. Í vinnunni finnum við okkur félagsskap, sjálfsmynd, keppum um vegtyllur, komumst til metorða og leitum að tilgangi. Mannfræðingurinn James Suzman heldur því hins vegar fram í nýrri bók að það sé alls ekki náttúrulegt ástand mannsins að líf hans snúist að svo miklu leyti um vinnustaðinn.
„En þótt það sem ég geri sé vita marklaust er það í senn óendanlega mikilvægt“
Suzman hefur helgað sig rannsóknum á frumbyggjum Kalaharí-eyðimerkurinnar sem lifðu þangað til nýlega, eins og homo sapiens í árdaga, sem veiðimenn og safnarar. Var löngum talið að slík veiðimannasamfélög byggju við þrotlaust streð. Rannsóknir sýndu hins vegar fram á hið gagnstæða. Frumbyggjar eyðimerkurinnar vörðu aðeins tveimur tímum á dag við að afla sér matar en nutu lífsins þess á milli.
Elon Musk óttast að senn þurfum við ekki að vinna eitt einasta handtak. Spár um að tækninýjungar frelsi okkur undan brauðstriti rætast þó sjaldan. Árið 1928 spáði hagfræðingurinn John Maynard Keynes því að vinnuvika almennings yrði ekki nema 15 klukkustundir árið 2028 vegna tækniframfara. Að sögn Suzman var það einmitt með nýjungum landbúnaðarbyltingarinnar sem vinnustundum mannkynsins fór fjölgandi.
Samkvæmt athugun Princeton-háskóla er lögmannsþjónusta sú atvinnugrein sem stafar mest hætta af tilkomu gervigreindar. En þótt Elon Musk telji skiptastjóra munu veslast upp af tilgangsleysi þegar ChatGPT leysir þá af hólmi eygir mannfræðingurinn Suzman von.
Bróðurpart mannkynssögunnar lifði dýrategundin homo sapiens frjáls undan vinnublæti samtímans sem veiðimenn og safnarar. Suzman telur okkur fullfær um að slíta sjálfsvitund okkar og tíma úr heljargreipum starfsferilsins að fyrirmynd forfeðra okkar.
Kannski að stærsta ógnin við tilkomu gervigreindar sé ekki sú að við týnum tilgangi okkar þegar við hættum að þurfa að mæta í vinnuna. Kannski er hún þvert á móti sú að enn á ný fái hinn almenni launþegi ekki hlutdeild í aukinni skilvirkni sem hlýst af tækninýjungum.
Athugasemdir (4)