Það er svo margt sem ég skil ekki við pólitík. Ég er viss um að ef ég myndi leita gæti ég fundið svör við spurningum á borð við: Hvað gera alþingismenn á daginn? Hvaða tilgangi þjóna allar þessar nefndir? Eru allir alltaf með sama sæti inni í alþingissal?
Aðrar spurningar eru aðeins flóknari, líkt og: Hvernig er ákveðið hver fær hvaða ráðherrastól eftir kosningar? Má skipta um ráðherrastól ef maður skítur sinn út og hafa kjósendur eitthvað um það að segja? Svarið sem virðist alltaf dúkka upp við þessum spurningum er pólitík. Pólitík ræður. Ég hélt einu sinni að reynt væri að úthluta verkefnum í ríkisstjórn eftir reynslu og hæfni, með vilja kjósenda í huga, en nei, auðvitað er það pólitíkin sem stýrir þessu og almenningur neyðist til að sætta sig við það. Svona virkar víst þessi pólitík.
„Má skipta um ráðherrastól ef maður skítur sinn út og hafa kjósendur eitthvað um það að segja?“
Pólitík er svar sem dugar samt ekki við erfiðustu spurningunum, þessum sem þú vaknar við, þessum sem ásækja þig á daginn, láta þig skammast þín á kvöldin. Spurningar eins og: hvernig fór Ísland frá því að vera fyrsta vestræna ríkið til að viðurkenna sjálfstæði Palestínu yfir í að vilja ekki blanda sér í pólitík hennar vegna?
Hvernig getur Ísland setið hjá í atkvæðagreiðslu um vopnahlé milli Ísraelsstjórnar og Hamas?
Hvað er hægt að kalla loftárásir á flóttamannabúðir annað en árás?
Hvernig geta ráðamenn hunsað ákall þjóðarinnar og hvern samstöðufund með Palestínu á fætur öðrum?
Hvað þarf margt fólk að vera myrt til að ríkisstjórnin taki afstöðu ef tíu þúsund er ekki nóg?
Fimmtán þúsund?
Hundrað þúsund?
En hversu mörg börn?
Skipta líf þessara tæplega fimm þúsund myrtu barna ekki nógu miklu máli til að hægt sé að fordæma morð þeirra opinberlega?
Hvernig getur íslenska ríkisstjórnin horft undan á meðan framið er þjóðarmorð?
Ég skil kannski ekki mikið um pólitík en ég veit samt að það er ekkert viðunandi svar við þessum spurningum.
Athugasemdir