„Ef ég heyrði þig rétt, sagðir þú árás á flóttamannabúðirnar? Það heyrðist mér.“
Þannig brást utanríkisráðherra Íslands, Bjarni Benediktsson, við spurningu fréttamanns norska ríkisútvarpsins á blaðamannafundi utanríkisráðherra á Norðurlandaþingi í Ósló í gær. Fréttamaðurinn hafði spurt ráðherrana hvaða orð þeir myndu nota um árás Ísraela á Jabalia-flóttamannabúðirnar.
Það kom hik á fréttamanninn við svar Bjarna en svo sagði hann: „Þú getur notað hvaða orð sem þú vilt, herra.“
Bjarni greip fram í og hélt áfram: „Ef þú ert að biðja mig að bregðast við árás á flóttamannabúðir, þá ertu að segja að það hafi verið árás á flóttamannabúðir.“
„Ég skil,“ sagði fréttamaðurinn, „leyfðu mér að umorða þetta: Hvaða orð myndir þú nota yfir það sem Ísraelar hafa gert í tengslum við Jabalia-flóttamannabúðirnar?“
Gegn alþjóðalögum
„Sko, það fer eftir því hvernig þú nálgast þetta,“ svaraði ráðherrann íslenski þá. „Eins og ég sé þetta er í gangi stríð gegn hryðjuverkamönnum. Allt það sem gerist, eins og við höfum séð í fjölmiðlum í flóttamannabúðum, er algjörlega skelfilegt. Eitthvað sem ætti alltaf að forðast. Er gegn alþjóðalögum. En þú getur ekki slitið þetta úr samhengi. Það eru hryðjuverkamenn núna að berjast gegn Ísraelum, þeir eru enn að því. Og það er ákveðið viðbragð við því. Við höfum séð mörg dæmi þess að hryðjuverkamenn noti almenna borgara sem skildi. Og það er það sem gerir þetta gríðarlega flókið. Þannig að það sem við erum að sjá í fjölmiðlum er skelfilegt og hryggir okkur. Þetta er ástæðan fyrir því að við köllum eftir mannúðarvopnahléi.“
Setið hjá um mannúðarhlé
Fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum sat á föstudag hjá við afgreiðslu allsherjarþingsins á ályktun þess efnis að mannúðarvopnahléi yrði komið á tafarlaust. Tillagan var lögð fram af Jórdönum. Kanada lagði fram breytingartillögu um að árás Hamas-samtakanna á ísraelska borgara yrði fordæmd samtímis. Á hana féllst meirihluti aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna ekki. Utanríkisráðuneytið segist hafa stutt tillögu Kanada og þar sem ekki hafi náðst samstaða um hana hafi Ísland setið hjá.
Ísraelski herinn gerði loftárásir á flóttamannabúðir á Gaza tvo daga í röð og er talið að um 200 manns hafi látið lífið við árásina. Ísraelsk stjórnvöld segja árásina hafa verið gerða til að fella háttsetta Hamas-liða og fullyrða að það ætlunarverk hafi náðst. „Það er enginn sigurvegari í stríði þar sem þúsundir barna eru drepin,“ sagði nefnd um réttindi barna á vegum Sameinuðu þjóðanna í yfirlýsingu í gær.
Fréttamaðurinn átti að kalla þetta sínu rétta nafni, slátrun.
Netanjahu er að komast í hóp mestu íllmenna sögunnar.
Þinn timi er löngu kominn B.B. lattu þig hverfa i þinni luxus ibuð sem þu "gleymdir"
að telja fram og skilaðu til baka þessum milljörðum sem voru afskrifaðar a sinum tima.