„Þúsund þakkir. Milljón þakkir,“ sagði Rán Flygenring þegar hún tók við barna- og unglingabókaverðlaunum Norðurlandaráðs við hátíðlega athöfn í Óperuhúsinu í Osló í kvöld. Rán þakkaði einnig meðal annars forlaginu Angústúru sem gaf bókina út og mömmu sinni og pabba.
Í kynningu á bókinni á vef Norðurlandaráðs segir að eldgosið sem hófst snemma árs 2021 nærri helsta þéttbýlisstað Íslands hafi vakið óttablandna hrifningu hjá börnum og fullorðnum. „Í bókinni Eldgos er uggurinn sem þessi atburður vakti afbyggður með hjálp hversdagsógna sem okkur klæjar undan. Við fylgjumst með degi í lífi Kaktusar. Þennan dag tekur mamma hans, Brá, Kaktus með sér í vinnuna til að halda honum frá lúsafaraldri í skólanum. Brá starfar sem leiðsögumaður og þau leggja af stað með fulla rútu af ferðamönnum og skoða fjöll og náttúrufyrirbrigði. Kaktus kemur skyndilega auga á nokkuð óvenjulegt út um gluggann: eldgos! Brá tekur skyndiákvörðun og hleypir ferðalöngunum úr rútunni …
Athugasemdir