Alþingi hefur ákveðið að efna til samkeppni um nafn á nýtt skrifstofuhús stofnunarinnar. Í fréttatilkynningu Alþingis segir að löng hefð sé fyrir nafngjöf húsa í eigu þess. Þetta er rangt en fyrrverandi forseti og fyrrverandi skrifstofustjóri hafa, í algjöru heimildarleysi, nefnt hús í eigu þingsins en þau nöfn eru líklega á vitorði fárra. Alþingi á húsin við Kirkjustræti sem þar hafa staðið í rúm 100 ár að undanskildu húsinu nr. 4, á horni Kirkjustrætis og Tjarnargötu, en það var áður Vonarstræti 12 og var flutt á núverandi stað í desember 2010. Þá á Alþingi einnig húsið Vonarstræti 8 sem og núverandi aðsetur Umboðsmanns Alþingis í Þórshamri, Templarasund 10.
Hvers vegna er húsum gefið nafn? Fyrir daga formlegra götuheita og merkinga voru hús í þéttbýli iðulega kennd við ábúendur, oft fjölskylduföður, ef viðkomandi hafði ekki gefið húsinu nafn sem oftar en ekki var sótt í átthagana. Þegar húsi er gefið nafn með formlegum hætti er það yfirleitt gert til að halda á lofti einhverju nafni sem er tengt þeirri starfsemi sem er í húsinu. Mjög sjaldgæft er í dag að hús, hvað þá hús í opinberri eigu, séu kennd við einstaklinga nema starfsemi hússins tengist lífsverki viðkomandi. Ástæða er til skoða þau nöfn sem núverandi forseti Alþingis segir að sé löng hefð fyrir og velta fyrir sér hvort ástæða sé til að nefna hús, og þá sérstaklega eftir einhverjum körlum.
Húsalengja við Kirkjustræti komst í eigu ríkissjóðs um 1980. Lengi stóð til að rífa húsin og rýma fyrir nýbyggingu Alþingis en ekkert varð úr þeim áformum. Um 1995 var hafist handa við að endurgera húsin og hefur það tekist vel. Ekkert húsa Alþingis hafði sérstakt nafn að undanskildu Kirkjustræti 8, sem hafði borið heitið Skjaldbreið áratugum saman en þar hafði verið rekið hótel undir þessu nafni. Þá má geta þess að Templarasund 10 hefur heitið Þórshamar allt frá því að það var reist árið 1912. Fljótlega eftir að húsin við Kirkjustræti höfðu verið endurgerð var farið að nefna Kirkjustræti 10 Kristjánshús af yfirstjórn á skrifstofu Alþingis. Ástæðan var sögð sú að Kristján Ó. Þorgrímsson (1857-1915) konsúll og kaupmaður sem lét byggja húsið 1879 og hafi búið þar ásamt fjölskyldu sinni alla sína tíð. Aldrei hefur komið fram ástæða þess að það þurfti að nefna húsið en kannski kom það í ljós síðar, því þegar það er búið að nefna eitt hús er hægt að nefna önnur hús.
Einungis kennd við karla
Skjaldbreið, Kirkjustræti 8, hélt sínu nafni en ekkert nafn var á Kirkjustræti 8b og hafði aldrei verið. Húsið á Kirkjustræti 8b var byggt af Magnúsi Th. S. Blöndahl trésmið, og um tíma forstjóra Völundar, en hann bjó aldrei í húsinu heldur seldi hann það þegar það var enn í byggingu, Chr. Fr. Nielsen konsúl, sem síðar seldi það Sveini Jónssyni stofnanda og síðar forstjóra Völundar sem bjó þar ásamt fjölskyldu sinni. Í húsinu voru nokkrar íbúðir og herbergi til útleigu en einnig verslanir og skrifstofur. Árið 2010 var húsið að Vonarstræti 12 flutt yfir á auða lóð við Kirkjustræti 4 til að rýma fyrir nýbyggingu Alþingis við Vonarstræti. Húsið Vonarstræti 12 var byggt eftir teikningu Rögnvaldar Ólafssonar arkitekts fyrir Skúla Thoroddsen og fjölskyldu hans árið 1908. Skúli lést árið 1916 og ári síðar seldi Theódóra Thoroddsen ekkja hans húsið en bjó áfram í því til ársins 1930.
Það vekur athygli að þau hús Alþingis sem þingið hefur eignast nafnlaus og gefið nafn eru einungis kennd við karla. Húsin Þórshamar og Skjaldbreið höfðu fengið nöfn áður en þau komust í eigu Alþingis. Kristjánshús er kennt við Kristján sem lét byggja húsið og bjó í því alla tíð síðan, eða í tæp 40 ár. Vonarstræti 12 var farið að nefna Skúlahús þegar það var flutt 2010 en það er kennt við manninn sem lét byggja húsið og bjó í því í tæp 8 ár en ekkjan hans, skáldkonan þekkta Theódóra Thoroddsen, bjó þar í 22 ár. Blöndahlshús er kennt við ættarnafn mannsins sem byggði eða lét byggja húsið (hann eða Trésmiðjan Völundur), bjó þar aldrei og seldi áður en það var fullklárað. Hvernig stendur á þessum nöfnum og hver ákvað þau?
Forsætisnefnd Alþingis hefur aldrei tekið formlega ákvörðun um nafngiftir á húsum Alþingis. Nýbygging Alþings frá árinu 2002 hefur verið kölluð „Skálinn“ eða „Alþingisskálinn“ og sumir segja að húsið hafi verið nefnt eftir Listamannaskálanum sem stóð þar á svipuðum slóðum en engin samkeppni fór fram um nafnið og svo virðist sem engin formleg ákvörðun hafi verið tekin um þetta nafn. Ákvörðun um Skúlahús var tekin af fyrrverandi skrifstofustjóra um það leyti sem húsið var flutt en fram að því hafði það einungis verið nefnt Vonarstræti 12, eða „Von 12“ meðal starfsmanna. Þess má geta að afkomandi Skúla, Ármann Jakobsson prófessor, skrifaði sögulega skáldsögu um þau Skúla og Theódóru og atburði ársins 1908 sem hann nefndi „Vonarstræti“. Hvergi er húsið kennt við Skúla en svo skemmtilega vill til að „Bókmenntaborgin Reykjavík“ hefur merkt húsið Theódóru Thoroddsen.
Standi hugur forsætisnefndar Alþingis til að nefna húsið eftir einstaklingi þá væri „Theódóruhús“ vel við hæfi. Að kenna húsið Kirkjustræti 8b við ættarnafn manns sem vann að byggingu þess en bjó þar ekki, er sérkennilegt en á sér sínar skýringar. Magnúsi Th. S. Blöndahl tók upp ættarnafnið Blöndahl þar sem ættarnöfn erfðust aðeins í karllegg á þeim tíma (19. öld) en hann var dóttursonur Björns Blöndals sýslumanns í Hvammi, ættföður Blöndalsættarinnar. Með því að nefna húsið Blöndahlshús var hægt að svala hégómagirnd Halldórs Blöndal forseta Alþingis 1999-2005 og tengja Blöndalsættina við sögu Alþingis, eins og m.a. hefur verið gert í æviskrám alþingismanna. Ef tengja ætti þetta hús við fólk þá kemur „Völundarfólkið“, þ.e. stjórnendur og eigendur Trésmiðjunnar Völundar um áratuga skeið, helst til greina en a.m.k. þrjár kynslóðir af því fólki bjó í húsinu um lengri eða skemmri tíma, og væri þá húsið réttnefnt „Völundarhús“. Forsætisnefnd Alþingis þarf að svara því hvers vegna hún hefur það látið viðgangast að hús í hennar eigu gangi undir þessum nöfnum og hvort nefndin vilji að svo verði áfram.
Húsið Vonarstræti 8 hefur verið í eigu Alþingis um áratuga skeið en það er ekki kennt við neinn. Þar bjuggu lengi Sigurjón Sigurðsson trésmiður og Elín Ingimundardóttir. Sigurjón byggði húsið sjálfur en hann byggði einnig Templarasund 10, Þórshamar, og var yfirsmiður við fjölmargar byggingar í Reykjavík á fyrri hluta 20. aldar sem hann byggði fyrir eigin reikning eða aðra. Þau Sigurjón og Elín voru þekktir borgarar á sinni tíð, vel látin og vinnusöm, en drukku ekki vín sér til vandræða, báru ekki ættarnöfn né skiptu sér af stjórnmálum. Fyrrverandi forsetum, forsætisnefndum og skrifstofustjórum hefur ekki þótt ástæða til nefna húsið í höfuðið á þeim heiðurshjónum!
Það er alls ekki löng hefð fyrir nafngjöf húsa Alþingis og þau þrjú hús sem hafa verið nefnd, hafa verið gerð svo eftir geðþóttaákvörðun fyrrverandi skrifstofustjóra og forseta Alþingis. Nú þegar Alþingi hefur ákveðið að efna til nafnasamkeppni um hið nýja hús er ástæða til að forsætisnefnd þingsins fjalli um fyrri nafngiftir og nafnleysi og endurskoði þær eða rökstyðji hvers vegna húsin eigi að heita einhverju nafni. Alþingi Íslendinga getur ekki leyft sér þegar að kemur að ákvörðun um nafngiftir húsa í þess eigu að taka geðþóttaákvarðanir sem byggjast á hégóma.
Athugasemdir (2)