Þann 24. október hefur verið boðað „kvennaverkfall“ sem er þó hvorki verkfall í skilningi vinnulöggjafarinnar né frídagur launafólks. Kvennaverkfallið er baráttudagur fyrir jafnrétti á vinnumarkaði þar sem þátttaka hvers og eins er á þeirra eigin forsendum.
En hvers vegna kvennaverkfall árið 2023 í jafnréttisparadísinni Íslandi þar sem kynjajafnrétti er orðið útflutningsvara? Hvað hefur breyst síðan meirihluti starfandi kvenna lagði niður vinnu 24. október árið 1975 og þyrptust á Lækjartorg til að vekja athygli á mikilvægi þeirra starfa sem konur sinntu innan heimilis og í atvinnulífinu?
Staða kvenna 1975
Kvennafrídagurinn árið 1975 átti sér ekki stað í tómarúmi. Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar voru tækifæri kvenna til opinberrar þátttöku takmörkuð. Árið 1960 voru einungis um 34 prósent kvenna á vinnumarkaði samanborið við 87 prósent karla. Alls staðar voru konur sniðgengnar og valdaleysi þeirra áberandi. Undir niðri kraumaði óánægja meðal kvenna með stöðuna og umræða um aukin réttindi þeirra varð fyrirferðarmeiri. Jafnframt báru fjölmiðlar fregnir af nýju kvenfrelsisbaráttunni í löndunum í kringum okkur. Árið 1970 varð Rauðsokkahreyfingin til á Íslandi en hún var nátengd hinni alþjóðlegu kvennahreyfingu. Þessi róttæka hreyfing var vettvangur umræðu og aðgerða þar sem kvenna- og stéttabaráttan tvinnaðist saman. Á þessum árum sóttu sífellt fleiri konur sér menntun og atvinnuþátttaka þeirra jókst og var orðin 51 prósent árið 1971 (sjá Vitund vaknar – augu opnast og Konur sem kjósa. Aldarsaga).
Fjölmörg málefni voru til umræðu á þessum tíma svo sem jafn réttur allra til náms og starfa, kynbundinn launamunur, staða verkakvenna, réttur kvenna yfir eigin líkama, húsmóðurhlutverkið og möguleikar kvenna til virkrar þátttöku á hinu opinbera sviði. Til að konur gætu unnið fullan vinnudag var ljóst að mikilvægt var að koma á heilsdags dagheimilum fyrir öll börn, samfelldum skóladögum og skólamötuneytum. Þá var stjórnmálaþátttaka kvenna dræm og tækifæri þeirra til áhrifa lítil. Það var ekki fyrr en árið 1970 að Íslendingar eignuðust sinn fyrsta kvenráðherra og í alþingiskosningunum 1971 voru í fyrsta skiptið þrjár konur kjörnar á þing (sjá Konur sem kjósa. Aldarsaga).
Árið 1973 var samþykkt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að árið 1975 yrði helgað málefnum kvenna til að kortleggja stöðu þeirra í heiminum. Kvennaársnefnd var skipuð á Íslandi þar sem rauðsokkar fengu sæti ásamt ýmsum samtökum kvenna, Félagi Sameinuðu þjóðanna, ASÍ og BSRB. Á stórri kvennaráðstefnu í júní 1975 var borin fram tillaga um kvennaverkfall þar sem skorað var á konur að leggja niður störf á degi Sameinuðu þjóðanna þann 24. október það sama ár. Ekki voru allar konurnar sáttar við nafngiftina og úr varð að kalla þetta „kvennafrí” (sjá vef Kvennasögusafnsins).
Hvað hefur áunnist og hvar getum við gert betur?
Á þeim 48 árum sem liðin eru frá fyrsta kvennafríinu hafa konur á Íslandi lagt niður vinnu í fimm skipti til að mótmæla kynbundnu misrétti: 1985, 2005, 2010, 2016 og 2018. Árið 2020 var einnig blásið til netherferðar þar sem ekki var hægt að koma saman vegna heimsfaraldar. Staða kvenna og samfélagsleg umræða hafa sett svip á áherslurnar hverju sinni líkt og #Metoo gerði árið 2018.
Fjölmargir aðilar, meðal annars á sviði stjórnmála og kvenna- og félagasamtaka, hafa átt þátt í því að Ísland hefur í dag öflugan lagaramma sem styður við atvinnuþátttöku kynjanna. Þar má meðal annars nefna lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um fæðingar- og foreldraorlof, lög um leikskóla og kynjakvóta við stjórn atvinnulífsins. Fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976 og beindust fyrst og fremst að stöðu kynjanna á vinnumarkaði og launajafnrétti. Í núgildandi jafnréttislögum nr. 150/2020 er í fyrsta skipti kveðið á um að kyn eigi við um konur, karla og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá.
Þrátt fyrir ítrekuð mótmæli og öfluga jafnréttisbaráttu á breiðum grunni eigum við enn langt í land með að ná jafnrétti á Íslandi
Lagaumhverfið hefur stuðlað að því að konur eru nú sýnilegar á flestum sviðum samfélagsins og samkvæmt Hagstofu Íslands (2023) var atvinnuþátttaka kynjanna svipuð árið 2022, eða 77 prósent hjá konum og 83 prósent hjá körlum. Tækifæri kvenna til menntunar hafa einnig aukist og nú er svo komið að konur hafa í langan tíma verið meirihluti brautskráðra nemenda úr framhalds- og háskólum. Slakur námsárangur drengja, brotthvarf þeirra úr námi og kynbundið námsval er áhyggjuefni í dag þar sem staðalímyndir um nám skipta máli.
En hvað þýðir þetta? Hefur menntun skilað konum auknum tækifærum í atvinnulífinu? Staða kvenna í stjórnmálum er góð en í dag eru konur 47,6 prósent þingmanna og 50 prósent ráðherra. Aftur á móti sýna gögn að það hallar á konur í flestum áhrifastöðum í samfélaginu. Æðstu stöður innan fyrirtækja tilheyra að miklu leyti körlum og ítrekað hefur verið sýnt fram á að karlar ráða íslenskum peningaheimi. Nýlegar rannsóknir á stöðunni innan háskólanna sýna meðal annars að doktorsnám skilar körlum lengra í atvinnulífinu en konum og karlar eru almennt í meirihluta í efsta akademíska stöðugildinu en konur í því lægsta. Þá er kynbundinn launamunur enn til staðar. Aðstandendur kvennaverkfallsins benda á nýjustu tölur Hagstofu Íslands (2021) sem sýna að meðalatvinnutekjur kvenna eru 77,2 prósent af meðalatvinnutekjum karla. Miðað við fullan 8 tíma vinnudag eru konur því búnar að vinna fyrir launum sínum eftir 6 klukkustundir og 10 mínútur. Í nýlegri skýrslu forsætisráðherra um verðmætamat kvennastarfa (2021) er kerfisbundið vanmat á hefðbundnum kvennastörfum afhjúpað sem endurspeglast í kjörum og aðbúnaði fólks í þessum störfum og hefur meðal annars áhrif á heilsu og velferð kvenna.
Hvað varðar stöðu kvenna inni á heimilum þurfa konur iðulega að minnka við sig launaða vinnu til að sinna ólaunaðri vinnu innan veggja heimilisins. Í nýjustu stöðuskýrslu yfir kortlagningu kynjasjónarmiða (2022) kemur fram að kynbundin hlutverk og ábyrgð á fjölskyldu og heimilisstörfum er enn mikið til í höndum kvenna ásamt hugrænni vinnu, eða hinni svokölluðu „þriðju vakt“.
Undanfarna áratugi hafa ýmsir hópar stigið fram og mótmælt stöðu sinni. Þar má nefna fatlaðar konur sem hafa meðal annars vakið athygli á mismunun innan heilbrigðiskerfisins, ofbeldi gegn fötluðum konum og misbrestum í aðgengismálum. Mikil gróska hefur verið í hinsegin samfélaginu á Íslandi seinustu áratugina og árið 2019 var lagafrumvarp um kynrænt sjálfræði samþykkt sem felur í sér mikilvægar breytingar á réttarstöðu hinsegin fólks. Undanfarið hefur þó borið á umfjöllun um bakslag í hinsegin baráttunni og neikvæðri orðræðu um hinsegin fólk. Kvár upplifa sig óörugg á vinnumarkaðnum og treysta sér ekki til að vera þau sjálf í vinnu af ótta við útskúfun. Þá hefur ítrekað verið bent á viðkvæma stöðu kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaðnum. Þær eru oft ofmenntaðar fyrir þau störf sem þær sinna, vinnudagar þeirra eru oft langir, störfin einhæf og launin lág. Hluti vandans eru fordómar í garð fólks af erlendum uppruna og kynþáttafordómar.
Ljóst er að eitt alvarlegasta samfélagsmeinið í íslensku samfélagi er kynbundið ofbeldi og áreitni líkt og endurspeglaðist í #Metoo byltingunni þar sem mikill fjöldi kvenna steig fram með frásagnir af ofbeldi og mismunun. Einnig varð ljóst að kynbundið ofbeldi og áreitni snertir alla hópa samfélagsins. Aðstandendur kvennverkfallsins benda á að um 40 prósent kvenna verða fyrir kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni, sjöttu hverri stúlku í tíunda bekk hefur verið nauðgað af jafnaldra og fatlaðar konur verða fyrir meira ofbeldi en aðrar konur.
Þrátt fyrir ítrekuð mótmæli og öfluga jafnréttisbaráttu á breiðum grunni eigum við enn langt í land með að ná jafnrétti á Íslandi. Núverandi staða setur svip sinn á kvennaverkfallið í ár og eru konur og kvár hvött til að leggja niður störf í heilan dag til að mótmæla vanmati á vinnuframlagi kvenna og kynbundnu ofbeldi.
Athugasemdir