Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, kallar eftir því að „leyndarhjúpur“ yfir veitingu ríkisborgararéttar verði skoðaður í ljósi gagnsæis og hæfisreglna.
Þetta koma fram í máli þingmannsins í upphafi þingfundar í dag undir liðnum störf þingsins. „Að veita ríkisborgararétt er stórmál, stórmál fyrir þann sem veitir hann og stórmál fyrir þá sem fá ríkisborgararétt á Íslandi. Nú líður að þeim tíma að umsóknir sem berast til Alþingis um ríkisborgararétt verði teknar til umfjöllunar og afgreiddar. Við höfum áður tekist á um það hér í þingsal og þá hafa verið deildar meiningar um hvernig eigi að vinna með slíkar umsóknir og þetta kerfi verið gagnrýnt,“ sagði Jón.
Dylgjur, atvinnurógur og slúður
Átökin sem fyrrverandi dómsmálaráðherra vísaði í áttu sér stað í byrjun apríl þegar Jón, sem þá var dómsmálaráðherra, lét þau orð falla á þingi að hann teldi tilefni til að skoða það í allsherjar- og menntamálanefnd hvort þingmenn í nefndinni hefðu tengsl við eða þegið gjafir frá því fólki sem fengið hefur ríkisborgararétt með lögum frá Alþingi. Í kjölfarið steig hver þingmaðurinn á fætur öðrum í pontu til að bera af sér sakir og dómsmálaráðherrann var sakaður um dylgjur, atvinnuróg og slúður úr ræðustól.
Orðrétt sagði Jón, í umræðum um fundarstjórn forseta:
„Hitt er svo hvernig staðið hefur verið að ríkisborgararéttarveitingu hér á Alþingi, það held ég að sé tilefni til þess að skoða, virðulegur forseti, og það má líka skoða það, t.a.m. í nefndinni sem um þetta fjallaði, hver eru möguleg tengsl fólks við það fólk sem hefur verið veittur ríkisborgararéttur. Var mögulegt að einhverjir hefðu komið að borðinu áður með atvinnu eða vinnu við að sinna þeim hælisleitendum sem voru að fá veitingu ríkisborgararéttar, hafa mönnum borist einhver sérstakur þakklætisvottur fyrir að hafa veitt ríkisborgararétt. Þetta eru kannski atriði sem, virðulegur forseti, væri ástæða til að fá til skoðunar hjá nefndinni og fá svör við því hvort einhver orðrómur um slíkt eigi við rök að styðjast.“
Jón fleytti með orðum sínum áfram dylgjum sem settar höfðu verið fram, sér í lagi um tvo tiltekna stjórnarandstöðuþingmenn sem á árum áður störfuðu sem lögmenn, m.a. við réttargæslu einstaklinga sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi. Önnur þeirra, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir þingmaður Pírata sagði orð dómsmálaráðherra viðurstyggileg og að mörgu leyti ekki svaraverð en fann sig knúna til að koma upp í pontu og bera af sér sakir. „Ég hef aldrei þegið mútur fyrir það að veita fólki ríkisborgararétt með frá Alþingi, aldrei, og myndi aldrei gera,“ sagði Arndís í umræðum á þingi í apríl.
Ómögulegt að þrír þingmenn fari yfir umsóknir
Jón, nú sem óbreyttur þingmaður, ræddi veitingu ríkisborgararéttar á þingfundi í dag og sagði það „ómögulegt að það séu einhverjir þrír þingmenn í undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar sem sjá um að fara yfir þessar umsóknir, leggi á þær mat, taki á móti upplýsingum sem berast meðal annars frá Útlendingastofnun og lögreglu og síðan komi tillaga inn til þingsins en háttvirtir þingmenn hafi engin tök á að kynna sér þær umsóknir, taki enga umræðu um það af hverju verið er að hafna ákveðnum umsóknum, af hverju verið er að samþykkja ákveðnar umsóknir.“
Þetta telur Jón að gangi ekki upp og ætlar hann að kalla eftir því að þingmenn fái aðgang að öllum upplýsingum um umsækjendur um ríkisborgararétt.
„Það getur varla talist neitt annað réttlætanlegt í þessu en að háttvirtir þingmenn séu upplýstir um það hvaða ákvarðanir þeir eru að taka í þessu mikilvæga máli,“ sagði Jón.
Veiting ríkisborgararéttar er yfirleitt með síðustu verkum Alþingis fyrir jólafrí. Meðal þeirra sem sótt hafa um ríkisborgararétt er Isaac Kwateng, vallarstjóri Þróttar, sem hefur búið hér á landi í tæp sex ár og á hverju ári fengið símtal frá Útlendingastofnun um að vísa eigi honum burt. Isaac var vísað úr landi í gærmorgun, í lögreglufylgd, alla leið til Gana og verður hann að öllum líkindum ekki á landinu þegar umsókn hans verður tekin fyrir. Félagar hans í Þrótti ætla hins vegar ekki að leggja árar í bát. Þeir líta á ferð vallarstjórans sem frí sem hann muni koma aftur úr bráðlega. „Allt snýst um að koma honum heim fyrir jól,“ segir þjálfari hjá Þrótti.
Athugasemdir (1)