Bjarni Benediktsson og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir munu hafa sætaskipti innan ríkisstjórnarinnar. Bjarni, sem sagði af sér embætti fjármála- og efnahagsráðherra á þriðjudag, mun færa sig yfir í utanríkisráðuneytið og Þórdís tekur við fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem Bjarni hefur stýrt, meira og minna, síðastliðinn rúma áratug.
Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi sem formenn stjórnarflokkanna þriggja: Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks, héldu í Eddu, húsi íslenskunnar, klukkan 11 í dag. Þar sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að ríkisstjórnarsamstarfið stæði styrkum fótum. Hún taldi svo upp þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur ráðist í og telur að séu að virka til að draga úr verðbólgu, sem mælist enn átta prósent og fer hækkandi.
Skilaboðin sem Katrín vildi koma til skila, í stuttri ræðu sinni, var að ríkisstjórnin ætlaði sér að klára kjörtímabilið.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, tók svo við og sagði ríkisstjórnina þegar búna með um 60 prósent af þeim verkefnum sem hún ætlaði sér að ljúka samkvæmt stjórnarsáttmála. Hans skilaboð voru í meginatriðum þau sömu og Katrínar: Ríkisstjórnin mun sitja út kjörtímabilið. Áskoranirnar sem samfélagið stæði frammi fyrir, verðbólga og efnahagsleg óvissa, þyldi það ekki að þau hættu nú. „Það væri ábyrgðarhluti að henda þessu upp í loft á þessum tíma. Við ætlum ekki að gera það.“
Bjarni sagðist hafa verið með algjörlega opin hug gagnvart sínu persónulega framhaldi þegar hann sagði af sér á þriðjudag. En eftir samtöl síðustu daga væri það niðurstaða hans að halda áfram, sem formaður Sjálfstæðisflokks, í ríkisstjórninni. Hann væri fullur eldmóðs fyrir komandi verkefnum í utanríkisráðuneytinu.
Mikil óvissa síðustu daga
Síðustu daga hefur ríkt mikil óvissa í stjórnmálum landsins. Afsögn Bjarna kom til vegna þess að umboðsmaður Alþingis birti álit þess efnis að Bjarna hefði brostið hæfi til að taka ákvörðun um að selja hlut í Íslandsbanka til félags í eigu föður síns, Benedikts Sveinssonar, í mars í fyrra. Um var að ræða enn eitt áfellið yfir lokuðu söluferli á hlutum ríkisins í Íslandsbanka vorið 2022, en áður hafði Ríkisendurskoðun skilað svartri skýrslu um starfshætti Bankasýslu ríkisins og söluferlið í heild. Þá gerði Íslandsbanki sjálfur sátt við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands þar sem bankinn gekkst við því að hafa framið lögbrot í hlutverki sínu sem söluráðgjafi á hlutum í sjálfum sér. Íslandsbanki greiddi 1,2 milljarða króna sekt í ríkissjóð, sem er metsekt, vegna brota sinna og málið kostaði bæði stjórnendur og stjórnarmenn starfið. Á meðal þeirra sem þurftu að víkja var Birna Einarsdóttir bankastjóri og Finnur Árnason stjórnarformaður.
Bjarni sagði í afsagnarræðu sinni að hann væri miður sín; að það hefði verið betra ef faðir hans hefði sleppt því að kaupa hlutinn í Íslandsbanka og að það væri „ekki alveg gott að segja á þessari stundu“ hvaða þýðingu ákvörðun hans myndi hafa á ríkisstjórnarsamstarfið.
Síðustu dagar hafa svo farið í að berja í þá bresti sem voru til staðar í samstarfinu og niðurstaðan er sú að stjórnin ætli sér að sitja út kjörtímabilið, sem klárast 2025.
Sjö af hverjum tíu vildu Bjarna úr ríkisstjórn
Maskína kannaði hug landsmanna til þeirrar atburðarásar sem átt hefur sér stað í vikunni með könnun sem lögð var fyrir aðspurðra á fimmtudag og föstudag. Þar var meðal annars spurt um hvað fólk teldi að Bjarni Benediktsson ætti að gera í kjölfar afsagnar sinnar.
Niðurstaðan var afgerandi, alls sögðu 71 prósent að þeir vildu að Bjarni hætti alfarið sem ráðherra í kjölfar afsagnar hans sem fjármála- og efnahagsráðherra á þriðjudag. Einungis 13 prósent töldu að hann ætti að færa sig til innan stjórnarráðsins og taka við öðru ráðuneyti, líkt og nú er orðin raunin.
Stólaskipti Bjarna njóta mest stuðnings á meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins, en 43 prósent þeirra vildu sjá hann í öðru ráðuneyti á meðan að tæpur fjórðungur, 24 prósent, töldu að hann ætti að hætta alveg í ríkisstjórninni. Einungis 12,7 prósent kjósenda flokksins sem Bjarni hefur leitt frá árinu 2009 telja að hann eigi að draga afsögn sína til baka og halda áfram sem fjármála- og efnahagsráðherra. Kjósendur annarra flokka eru að miklum meirihluta á sama máli: Bjarni á að hætta sem ráðherra.
Það sárgrætilegasta við þetta allt saman, er að þegar næsta bankaráni verður skellt á almenning, hið svokallaða „hrun“2.
Þá fer hér allt í bál og brand (í smá tíma), stjórnarandstaðan fær lykklavöldin en munu svo ekki ráða við þann risa bálköst sem hrunverjarnir (ÞJÓFARNIR), tendruðu.
☻g hvað skeður þá ?
Nú sagan endurtekur sig enn og aftur og nýju stjórninni verður kennt um (þjófnaðinn), og allar ófarirnar.
Þá koma brennuvargarnir (þjófarnir), aftur eins og riddarar á hvítum hestum sem segjast að þeir séu þeir einu sem geti bjargað þjóðinni frá þessum rumpulýð sem fer nú með lykklavöldin.
☻g GARGA SKILIÐ ÞIÐ LYKKLUNUM!
Og þjóðin kok gleypir svo við eins og hrafnsunginn. AFTUR!
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra seldi föður sínum hlut
í ríkisbanka.
Í nágrannalöndunum væri stjórnmálaferli hans þess vegna lokið.
Þar vilja stjórnmálaflokkarnir ekki hafa slíka menn í forsvari.
"Ef þetta er fjármálaráðherrann þeirra, hvernig eru þá hinir ?"
Bjarni Ben. hagar sér eins og óuppalinn dekurkrakki í nammibúð
*************************************************************************