Pabbastrákar
Tónlist og flutningur: Andrés Þór Þorvarðarson Dramatúrg og meðhöfundur: Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir Leikmynd og búningar: Aron Martin Ásgerðarson Ljósahönnun: Magnús Thorlacius
Spánarstrendur hafa lengi verið leiksvið íslenskra látalæta. Guðmundur Steinsson bauð íslenskum leikhúsgestum á ströndina í gamanleiknum Sólarferð árið 1976 þegar margir þeirra höfðu hreinlega ekki stigið fæti á spænska strönd. Rúmlega fjörutíu árum seinna fór Friðgeir Einarsson með leikhúsgesti á Club Romantica í annars konar sólarferð. Bæði leikritin gera gys að hegðun þjóðarinnar en samtímis grandskoða frá ólíkum sjónarmiðum í verkum þar sem form og innihald spila saman.
Óspennandi ferðalag
Sviðshöfundarnir Hákon Örn Helgason og Helgi Grímur Hermannsson staðsetja Pabbastráka sömuleiðis á spænskri strönd, innan veggja Tjarnarbíós. Sumarið 2007 hittast Ólafur og Hannes fyrir tilviljun við farangursbeltið og taka tösku hvor annars í misgripum. Ólafur er rúðustrikaður fjölskyldufaðir sem getur ekki án áætlunar verið og reynir af öllum lífs og sálar kröftum að ná sambandi við unglingsson sinn með litlum árangri. Hannes er unglingur í líkama fullorðins manns sem hefur alltaf litið upp til landsfræga pabba síns sem er nýlega látinn og ætlar að nýta ferðina til að skrifa ævisögu hans. Í leit sinni að svörum finna þeir óvænt hvor annan.
Þrátt fyrir forvitnileg fyrirheit er Pabbastrákar langdregið og óspennandi ferðalag. Nálgun Hákonar og Helga flakkar á milli einlægni, góðlátlegs gríns, aftengingar, súrrealisma og uppistands, líkt og höfundarnir treysti sér ekki til að taka afstöðu hvorki í handriti né leik. Þá er öruggara að halda sig í fjarlægð við persónur verksins, forðast einhvers konar sjálfskoðun og ríghalda í söguþráðinn, ef svo skyldi kalla. Niðurstaðan er fremur ófyndin flatneskja sem gefur lítið af sér.
„Þrátt fyrir forvitnileg fyrirheit er Pabbastrákar langdregið og óspennandi ferðalag.“
Ágætis hugmynd dugar ekki í sýningu
Atburðarásin gerist kannski sumarið 2007 og á að vera byggð á sannri sögu en höfundar vinna ekki með þessar hugmyndir að neinu ráði. Fyrir utan formála í byrjun er yfirvofandi fjármálahrun sýningunni óviðkomandi heldur er fortíðin endursögð með spaugilegum áherslum nostalgíunnar og söguþráðurinn teygður áfram atburð fyrir atburð án þess að rannsaka ævisöguformið neitt sérstaklega. Hér víkja form og innihald fyrir yfirborðskenndu spaugi sem skilur afskaplega lítið eftir.
Sviðsmyndin er einföld; samansafn af strandhúsgögnum, handklæðum og uppblásnum sundlaugaleikföngum. Ólafur og Hannes klæðast útivistarbuxum með skálmum sem hægt er að renna af, sandölum og sokkum. Hönnun Aronar Martin Ásgerðarsonar einkennist af naívisma, sem hefur verið mikið í tísku upp á síðkastið, en í stað þess að styrkja sýninguna eða vinna frumlega með fagurfræðina er hér frekar á ferðinni samansafn af ódýrum lausnum, ekki ólíkt sýningunni sjálfri.
Gáturnar í Pabbastrákum eru fjölmargar. Nokkrum þeirra er svarað en erfiðara er að skilja hvert listamennirnir eru að fara eða hvað þeir vilja sýna áhorfendum. Ungt listafólk á að fá pláss til að prufa sig áfram, mistakast og reyna síðan aftur. En að sama skapi þurfa þau líka að ögra sjálfum sér og áhorfendum, að standa á sviði með ágætis hugmynd dugar hreinlega ekki í heila sýningu.
Niðurstaða: Klukkan gengur og gengur en Pabbastrákar fer ekki neitt.
Athugasemdir