„Jæja, þá erum við komin“, sagði pabbi og brosti tregablöndnu brosi. Við vorum að keyra inn í einn fegursta fjörð Íslands, fjörð arnanna, hvalanna og laxanna; Arnarfjörð. Við augum okkar blasti dimmblár sjórinn er teygði sig í átt að úthafinu, mikilfengleg þverhnípt fjöll, haustlegt landslag umhverfis fjörðinn – og hrikalegar opnar sjókvíar með norskum eldislaxi. „Við erum sannarlega á slóðum sjókvíaeldisskrímsla“, sagði pabbi er við keyrðum framhjá kvíum í löngum röðum á leið okkar í átt að fjarðarmynninu, á vit áa hinna sögufrægu Ketildala.
Ég horfði út á haf og hugsaði til þess tíma er Íslendingar höfðu óttablandnar tilfinningar gagnvart ægilegum sjóskrímslum, er sögur fóru af að gengu upp í íslenskar ár og vötn og yllu tjóni á lífríki þar. Þau fornu sjóskrímsli voru þjóðsagnaverur – en skrímslin sem pabbi vísaði til voru í sjónmáli; norskir sjókvíaeldislaxar sem ganga upp í íslenskar ár og spilla þar íslenskum laxastofnum með þátttöku sinni í hrygningu villta laxins.
Níu ár höfðu liðið frá því að faðir minn, Jóhannes Sturlaugsson líffræðingur, hóf vöktunarrannsókn á þremur ám í Ketildölum í samvinnu við heimamenn. Í níu ár hafði hann lagt leið sína vestur í Arnarfjörð, að hausti, til að feta árnar að næturþeli í leit sinni að sjókvíaeldisskrímslum. Hér um ræðir rannsókn af hendi manns, sem taldi sér skylt sem náttúrufræðingi og náttúruverndarsinna, að verja ferskvatnsríkið gegn manngerðum hættum eldisiðnaðar norskra auðjöfra og íslenskra stjórnvalda. Það er harmaþrungin reynsla að horfa upp á vísindamanninn föður sinn, sem lengst af hefur rannsakað líf laxfiska – nú leggja stund á rannsókn á útrýmingu hins forna íslenska lax. Ég hef aðstoðað pabba við rannsóknarstörf hans um árabil, og um árabil hef ég verið vitni að framtaki hans í þágu íslenska laxins.
Saga norska eldisiðnaðarins sem nú hefur skollið af fullum þunga á Íslandsströndum, á sér sögu sem spannar allt norðan frá Noregi og Kanada suður til Chile. Eldissaga sú vitnar um mikilvægi þeirra vísindamanna sem þora að berjast fyrir tilvist villta laxins, nokkuð sem útheimtir fórn þeirra á eigin tíma og fé – sjálfstæðir vísindamenn á borð við Alexandra Morton sem hefur í marga áratugi háð varnarbaráttu í þágu villta laxins í Kanada, og skrifaði hina merku bók Not on My Watch (2021). Téðir vísindamenn þurfa ekki aðeins að verjast ágangi norskra eldislaxa er ganga upp í ár, heldur einnig etja kappi við stjórnvöld sem varða hagsmuni hins úrelta og mengandi sjókvíaeldisiðnaðar.
Er ég horfði út fjörðinn á hinar norsku sjókvíar, varð mér hugsað til þeirra daga er Íslendingar voru undir stjórn Noregskonungs; hví vorum við, nú mörgum öldum síðar, enn á ný orðin nýlenda fyrir erlend auðvaldsöfl? Raðir norskra sjókvía í íslenskum fjörðum vitna um að íslenskt lýðræði, íslensk náttúruvernd, nær ekki út fyrir árbakkann og ekki út fyrir sjávarstrendur landsins. Slík andlýðræðisleg aðför að Íslandi, eyju hinna hundruði áa, gengur gegn arfleifð formæðra okkar og forfeðra, sem allt frá landnámi báru virðingu fyrir og lifðu í samhljómi við lífríki ferskvatnsins: Hefur íslenska þjóðin gleymt að við erum laxaþjóð?
Við keyrðum meðfram strandlengjunni, framhjá Auðahrísdal, Hvestudal, Hringsdal, Bakkadal, Austmannsdal uns við komum að hinum dáfallega Fífustaðadal, þar sem áin Fífustaðadalsá rennur niður tær og tignarleg, í sjó fram. Í dalsmynninu er hið stæðilega kot Kirkjuból sem byggt var árið 1905 – og á hlaðinu stóð landeigandinn Ari sem hefur aðstoðað pabba við vöktunina öll þessi níu ár. „Verið þið velkomin“ sagði Ari með sínum milda raddblæ. Kveðja vísindamannsins og áreigandans var einlæg á bæjarhlaðinu, en um leið gat ég greint ákveðinn ugg í andrúmsloftinu, því í baksýn rann áin fagra og hennar lífríki, sem þeir báðir vissu að væri í stórhættu. Sjókvíaeldislaxar voru orðnir árvissir þátttakendur í hrygningunni í Fífustaðadalsá, og það á tímum þegar að lítið eða ekkert fór fyrir skráðum slysasleppingum úr sjókvíum.
En þetta sumarið urðu sögulegar vendingar í náttúrusögu Íslands; er þúsundir kynþroska norskra eldislaxa sluppu úr sjókvíum í Patreksfirði. Kvíðanlegar fréttir voru farnar að berast af því að sjókvíaeldislaxinn væri farinn að ganga í ár víða um land. Útlitið fyrir Fífustaðadalsá var dökkt. „Ég gekk fram með árbakkanum fyrr í dag – þetta lítur ekki vel út,“ sagði Ari brúnaþungur og horfði inn eftir dalnum, að rótum árinnar þar sem aldinn foss steyptist niður. Við gengum inn í kotið – og biðum uns nóttin skylli á. Því nóttin er góðvinur þessara vaktmanna Ketildalaánna, sem styðjast ætíð við næturveiðiaðferðafræði sem pabbi hefur þróað í gegnum árin, er grundvallast á því að fanga fiska eftir að rökkrið hefur sigið á, með háf og vasaljós að vopni. Aðferðafræði sú mun ótvírætt vera móðins á næstu árum, þegar íslenskir áreigendur munu sjá sig knúna til að fjarlægja norska eldisfiska úr ám sínum. Og að óbreyttum áherslum stjórnvalda þá bíða þau örlög einnig komandi kynslóða áreiganda, að feta ár sínar að næturþeli, hremma eldisfiska, og trega stofna á hverfandi hveli.
Ég, höfundur þessara orða, er sagnfræðingur sem vinn nú að viðtalsrannsókn á sambandi íslenskra áreiganda við ár sínar og laxastofna þeirra, á þessum miklu vátímum í Íslandssögunni sökum sjókvíaeldisiðnaðarins. Íslenskar ár búa að óendanlegri fegurð og margbreytileika, sem er iðulega hulinn augum manna; undirdjúp ánna. Hver laxastofn býr að eigin ásýnd, aðlögunarhæfni, og erfðaefni – eru listaverk sem árnar hafa skapað í aldanna rás. Íslandssagan er rík af lýsingum af djúpstæðum tengslum Íslendinga við lífríki þessara huliðsheima, ánna sem renna allt í kringum okkur. Sögulegar heimildir sýna hvernig áreigendur, sem eru alla jafna bændur, hafa í gegnum aldirnar vaktað og varðað tilvist heimastofna sinna. Heimildir er spanna allt frá Íslendingasögum til endurminninga segja frá framtíðarsýn áreiganda, en viðtöl mín við nútímans áreigendur, miðla annarri og uggvænlegri sýn. Sagnir þeirra byggja á nýjum tóni, á ótta og vanmætti gagnvart framtíð laxastofna, smárra sem stórra, gegn manngerðum hættum. Það er sem ég sé að skrá upphaf harmsögu íslenska laxins, út frá röddum áreiganda.
„Ertu með vasaljósin Jóhannes?“ kallaði Ari um leið og hann klæddi sig í vöðlurnar „Já hérna“ sagði pabbi og lyfti upp bakþoka með vasaljósum, fiskmerkingabúnaði og nesti, fyrir hina löngu nótt framundan. Ari kinkaði kolli og lyfti slagbrandinum á hurðinni, úti var niðamyrkur og kalsarigning: „Dalrún taktu einn háfinn“ sagði pabbi – og við gengum út. Í bakgrunninum ómaði sjávarniðurinn í dalsmynninu. Það sem við vissum ekki þá, gátum ekki vitað er við gengum hægum skrefum niður hlíðina, í myrkrinu, í gegnum vott grasið, með háfa á lofti, var að við marseruðum á fund stórrar fylkingar eldislaxa sem boðuðu feigð Fífustaðadalsárlaxastofnsins.
Við gengum örugg að árbakkanum, ofan í blákalda ánna, og lýstum upp svartnætti árinnar með neðanvatnsvasaljósum okkar: „Það er einn hér“ kallaði pabbi um hæl og óð hröðum skrefum að stórum silfruðum fiski sem stirndi á vatninu: „Náði honum“ kallaði pabbi, „það er eldislax“ bætti hann við og æddi með háfinn að árbakkanum. Og þar tók hann stóran norskan eldislax úr háfnum, lagði hann á blautt grasið, og mændi á sorglega ásýnd fisksins: „Það er eins og venjulega, uggarnir eru trosnaðir og hann er allur í sárum eftir laxalús“ sagði pabbi og renndi fingrum sínum eftir stórum, bleikum, opnum sárum sjókvíaeldislaxins. Hver skapar svo þjáða skepnu? hugsaði ég með mér, er ég leiddi hugann að skelfilegum aðbúnaði sjókvíaeldislaxa, sem alast upp í þrengslum, sársauka og volæði, líkt og agalegt atgervi þeirra vitnar um. Hver leggur sér slíka skepnu til munns? hugsaði ég, er ég horfði til eyðingarmáttar sjókvíaeldisins gagnvart villtri náttúru, og framleiðslu þess iðnaðar á særðum, sýktum fúkkalyfjafiski, sem étur daglega bjakk í bland við plastagnir úr fóðurkerfinu.
„Hver skapar svo þjáða skepnu?“
Alla nóttina endurómuðu orðin „hér er einn“ „hér er annar“ í næturþögn dalsins, og háfarnir risu trekk í trekk upp úr ánni með stórum silfruðum sjókvíaeldislöxum. Þess á milli ríkti þögn og angurvær kliður árinnar, er við fetuðum upp árfarveginn þungum skrefum; árkliður sem mér fannst taka á sig hljóm andarsliturs er leið á nóttina: „Hér er annar Jóhannes“ kallaði Ari og háfaði enn einn sjókvíaeldislaxinn í myrkri næturinnar. Nóttin var ei sú ágæt ein. Það veiddist 21 sjókvíaeldislax í Fífustaðadalsánni þá nóttina. Sjókvíaeldislaxar þeir voru komnir til að hrygna í ánni, nokkuð sem fól í sér ígildi dauðadóms yfir hinum litla laxastofni Fífustaðadalsár, ef þeir hefðu ekki verið fjarlægðir. Raðir sjókvíaeldislaxanna spönnuðu allan fiskgengan hluta Fífustaðadalsár, upp að fossinum aldna í botni dalsins „Veistu hvað þetta þýðir Dalrún? Þessir sjóvkíaeldislaxar láta ekki staðar numið fyrr en þeir mæta ófiskgengum fossi“, sagði pabbi. Það tók að birta. Nú skyldi haldið heim að Kirkjubóli.
Þegjandi og hljóðalaust hengdu þeir vöðlur sínar og ullarfatnað til þerris. Í kotinu ríkti dauðaþögn. Ari settist við eldhúsborðið og horfði út um gluggann, og í morgunskímunni greindi ég hryggð í svipbrigðum hans. Hvernig meta stjórnvöld tilfinningalegt tjón áreiganda? hugsaði ég er ég virti fyrir mér Ara sem barist hefur fyrir tilvist heimastofnar Fífustaðadalsárinnar um árabil. Til móts við hann sat pabbi minn, vísindamaðurinn sem hefur árum saman barist fyrir tilverurétti laxastofna á Íslandi í ölduróti sjókvíaeldisins. Og í augum hans var að finna vonbrigði, sem gætir aðeins í augum þeirra sem hafa barist af öllum sálarkrafti, aðeins til þess að sjá fram á ósigur.
„Pabbi“ sagði ég og rauf um leið þögnina í kotinu. Pabbi horfði á mig, dótturina, og um leið vottaði fyrir blíðlegu augnaráði hans. Þá vissi ég að þetta var aðeins stund á milli stríða, að barátta pabba fyrir tilvist íslenska laxins byggir á ást hans á náttúrunni, og ást sú er óslökkvandi, líkt og föðurást hans: „Það er kominn tími til að halla sér“ sagði pabbi vinalega. Hinum megin við fjallið beið næsta á, næsti dalur og næsta nótt; Selá í Selárdal. Pabbi og Ari lögðust til hvílu í morgunroðanum – hvað þeir hugsuðu er þeir lögðu vinnulúin höfuð sín á koddann, veit ég ei.
Út um gluggann horfði ég á Fífustaðadalsánna streyma áfram, niður dalinn oní sjó. Ásýnd hennar hafði breyst frá því við komum daginn áður, full vonar. Nú var áin tregafull ásýndum, og ég dróst að henni, líkt og að særðu dýri. Ég gekk úr þöglu kotinu, niður að ánni, meðfram bökkum hennar, uns ég kom að hljómandi ósi hennar. Við ströndina mátti heyra ljúfan nið árinnar sameinast hvössum tóni aldanna sem risu og féllu þar sem áin féll til sjávar; hviss, seitl, hviss, seitl, heyrðist er Fífustaðadalsáin sameinaðist sjónum.
Löngum táknaði árósinn líf í huga mér; táknaði göngu laxfiska úr ánum í sjóinn og aftur til baka. Nú eygði ég ósinn, og sá aðeins yfirvofandi dauða villta laxins; ósinn, sameining ár og sjávar, var nú anddyri norskra sjókvíaeldislaxa í íslenskar ár. Ég hélt aftur til baka, gekk meðfram ánni, er bugðast eftir dalnum. Heyrði á þýðan straum hennar, horfði á yfirborð hennar er gáraði og glampaði undir gráleitum himninum. Skyndilega sé ég, undir vatnsyfirborðinu, móta fyrir silfruðum norskum sjókvíaeldislaxi, alsettum bleikum opnum sárum; synda frá ósnum, upp ánna, á móti straumnum. Ég staðnæmdist í sporum mínum. Fann vanmáttatilfinningu hellast yfir mig er ég fylgdi eldisfiskinum eftir með augunum. Í sömu andrá hófst úrhellisrigning – dropar féllu í stríðum straumi frá himnum á yfirborð árinnar. Þá stundina sá ég himinn gráta á vota gröf.
Höfundur er doktor í sagnfræði
Athugasemdir (4)