Ástand félagsheimilisins Kirkjuhvols á Kirkjubæjarklaustri „er í raun skelfilegt í alla staði“ að mati sveitarstjórnar Skaftárhrepps. Sveitarfélagið fékk verkfræðistofuna EFLU til að gera rakaskimun og taka sýni í félagsheimilinu. Við ástandsskoðunina kom í ljós að rakaskemmdir og rakaummerki voru víða. Drög að kostnaðaráætlun vegna viðgerða á húsinu, til að gera það hættulaust fyrir starfsemi, hljóða upp á 250 milljónir króna.
Skýrsla EFLU var lögð fram til kynningar á síðasta fundi sveitarstjórnar Skaftárhrepps. Auk þess að meta ástand Kirkjuhvols skoðaði fyrirtækið einnig hjúkrunar- og dvalarheimilið Klausturhóla en var sú skoðun mjög takmörkuð. „Skýrsla EFLU sýnir að ástand Félagsheimilisins Kirkjuhvols er í raun skelfilegt í alla staði og með réttu mætti segja að húsnæðið væri það illa farið af viðhaldsleysi og raka að það borgar sig ekki að gera við það,“ segir í tilkynningu á vef Skaftárhrepps vegna málsins.
Í húsinu er í dag rekin Skaftárstofa, upplýsingamiðstöð ferðamanna.
Félagsheimilið Kirkjuhvoll var byggt árið 1960 og er um 540 fermetrar að stærð. Á því er bogaþak og fyrir um áratug var það orðið mjög lekt og úrbætur því gerðar. Úttekt EFLU var gerð í júlí og sýndi hún fram á verulegar rakaskemmdir og sveppagróður. Öll byggingasýni sem tekin voru reyndust mygluð. Reiknað er með að nýleg þakklæðning sé í lagi en að aðrar klæðningar og einangrun verði að endurnýja til að húsið teljist nothæft.
Ástand kjallara hússins er slæmt og við skoðun flæddi vatn að utan í gegnum kjallarann og í gegnum veggi hans. Eins og ástandið er núna, segir í skýrslu EFLU, er kjallarinn undir eldhúsi félagsheimilisins ónothæfur. DNA sýni voru tekin í móttöku og í sal og sýndu þau fram á sveppagróður sem getur valdið óþægindum hjá fólki. Þá virðist regnvatn komast inn undir klæðingu utan á húsinu og þakkantur er illa sprunginn.
Raki við glugga og hurðir
Hvað hjúkrunarheimilið varðar kom í ljós að vatn flæðir þar reglulega í kjallara og þarf því að bæta við drenlögnum. Þá kom raki í ljós á nokkrum stöðum á jarðhæð við glugga og hurðir.
„Verst er ástandið í Félagsheimili Skaftárhrepps,“ segir EFLA í skýrslunni eftir skoðun allra bygginganna.
Ráðbarður Sf., ráðgjafar- og verkfræðiþjónusta, áætlar að kostnaður við nauðsynlegar viðgerðir yrði rúmlega 250 milljónir króna.
Athugasemdir