„Mætti ég fá að segja nokkur orð um stöðu hinsegin fólks í Venesúela?“ það var mjúkróma kurteis maður sem ávarpaði mig. Hann hafði séð hljóðnema Heimildarinnar á lofti á mótmælum Venesúelabúa fyrir framan Hallgrímskirkju og vildi vekja athygli á því að það væri ekki bara skortur á mat og viðeigandi heilbrigðisþjónustu og há glæpatíðni sem legðist þungt á fólk í Venesúela. Það væri til fólk eins og hann – samkynhneigt fólk, tvíkynhneigt fólk, trans fólk; allur regnboginn – í Venesúela. Og staða þess væri mjög aum.
„Ef ég fer aftur til Venesúela get ég ekki tjáð kynhneigð mína,“ sagði maðurinn. Hann heitir Isaac Rodríguez og er samkynhneigður.
„Þetta er í fyrsta sinn á ævinni sem mér líður eins og ég sé umkringdur fólki sem er eins og ég,“
Í nýlegum úrskurði kærunefndar útlendingamála segir að þrátt fyrir að stjórnarskrá Venesúela leggi bann við mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar verði hinsegin fólk fyrir mismunun á atvinnu- og leigumarkaði og í mennta- og heilbrigðiskerfinu. Jafnframt veigri fólk sem verður fyrir ofbeldi vegna kynhneigðar sinnar sér við því að leita sér aðstoðar vegna vantrausts í garð lögregluyfirvalda.
„Við höfum engin réttindi. Við getum ekki gift okkur, við getum ekki lifað lífinu sem við viljum,“ sagði Isaac um stöðu hinsegin fólks í Venesúela.
„Við erum til, við erum hér og við viljum bara fá að vera við í okkar sönnu litum.“
Á Íslandi hefur hann fengið að taka virkan þátt í hinsegin samfélaginu. „Þetta er í fyrsta sinn á ævinni sem mér líður eins og ég sé umkringdur fólki sem er eins og ég,“ sagði Isaac.
Hann kom hingað til lands fyrir þremur mánuðum síðan og hefur honum þegar verið neitað um vernd.
Málið hans bíður nú kærunefndar útlendingamála en nefndin sagði í síðustu viku að ástandið í Venesúela hefði batnað og því væri verjanlegt að senda fólk þangað aftur.
Isaac sagði það ekki rétt, hann hafði sjálfur bara yfirgefið landið sitt fyrir nokkrum mánuðum og staðan var þá mjög slæm hvað varðar aðgengi að heilbrigðisþjónustu og mat, svo ekki sé minnst á fjölda glæpa og aðgerðir stjórnvalda gegn borgurum sínum.
Blaðamenn sem hurfu mánuðum saman
Isaac starfaði sem blaðamaður í Venesúela og sagði ritskoðunina í Venesúela verulega sem og afskipti stjórnvalda af fjölmiðlum.
„Ég á vini sem hafa verið pyntaðir, horfið mánuðum saman bara vegna þess að þau reyndu að fordæma harkalega meðferð og pyndingar sem eru enn í gangi,“ sagði Isaac. „Að segja að Venesúela sé öruggur staður – mér finnst það vera langt frá raunveruleikanum.“
Óháð nefnd á vegum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna komst nýverið að því að alvarleg mannréttindabrot gegn raunverulegum og ætluðum andstæðingum ríkisstjórnarinnar í Venesúela á síðastliðnu ári hafi meðal annars beinst að blaðamönnum og baráttufólki fyrir mannréttindum.
Tannlæknir sem vill að tölvunarfræðingur fái að vera
Mótmælin við Hallgrímskirkju voru haldin á miðvikudag og komu þar saman um 50 Venesúelabúar, vinir þeirra, íslenskukennarar og samstarfsfólk.
Yaniser Silano var ein þeirra venesúelsku ríkisborgara sem mættu á mótmælin. Hún sagði mér sína sögu á íslensku, tungumáli sem hún talar reiprennandi. Hún hefur verið hér í fimm ár ásamt móður sinni og unnið sem tanntæknir, en hún er menntaður tannlæknir. Hún mætti á mótmælin fyrir bróður sinn sem er 26 ára gamall og er að sækja hér um hæli. Hann er tölvunarfræðingur og hefur fengið neitun frá Útlendingastofnun. Mál hans er í kæruferli hjá kærunefnd útlendingamála.
„Ég treysti ekki forsetanum okkar og ekki lögreglunni heldur. Það var svo erfitt að búa [í Venesúela],“ sagði Yaniser um venesúelsk stjórnvöld.
„Ég held ég eigi það skilið að hafa fjölskylduna mína hér. Ég er búin að vera svo dugleg.“
Yaniser, eins og hver einasti Venesúelabúi sem Heimildin ræddi við, segir það af og frá að ástandið í Venesúela fari batnandi.
„Ég á enn fjölskyldu þar og þau segja mér að það sé ekki betra, það sé bara verra,“ sagði Yaniser sem hefur miklar áhyggjur af bróður sínum.
„Það er svo erfitt að sjá fjölskylduna þína fara svona langt í burtu. Ég held ég eigi það skilið að hafa fjölskylduna mína hér. Ég er búin að vera svo dugleg.“
Þar sem Útlendingastofnun er hætt að veita öllum Venesúelabúum viðbótarvernd vegna slæmra aðstæðna í landinu mun kærunefndin þurfa að fara í gegnum hverja einustu kæru frá Venesúelabúum. Neitanir Útlendingastofnunar sem Venesúelabúar hafa kært hlaupa á hundruðum en félagsmálaráðherra sagði við fjölmiðla á dögunum að úrskurðir kærunefndarinnar sem segja verjanlegt að senda fólk aftur til Venesúela líklega vera fordæmisgefandi.
Athugasemdir