Zarkis Abraham Mulki Peña bjó í húsi sem var að hruni komið með móður sinni þegar hann las viðtal breska ríkisútvarpsins við argentínskan fótboltaaðdáanda sem búsettur var á Íslandi. Zarkis bjó sjálfur við stöðugan ótta vegna verulega hárrar glæpatíðni í heimalandinu. Ítrekað hafði lífi hans verið ógnað af örvæntingarfullum þjófum. Í umfjöllun BBC kom fram að íslenska þjóðin væri sú sem væri hvað vinveittust innflytjendum. Zarkis hugsaði með sér að þar væri kannski gott að búa, þar yrðu mannréttindi hans virt.
Efnahagsástandið í Venesúela var mjög slæmt og það tók Zarkis þrjú til fjögur ár að spara fyrir flugmiða. En hann komst loksins hingað í desember síðastliðnum. Hann var sendur beint á Ásbrú, 22 ára gamall maðurinn.
Zarkis er ekki hár vexti og segir að honum hafi liðið óþægilega á Ásbrú þar sem hann gisti í herbergi með þremur öðrum fullorðnum karlmönnum. „Mér var hótað ofbeldi,“ segir Zarkis.
Lögmaðurinn hætti að svara
Eftir hálft ár á Íslandi var honum loksins útvegaður talsmaður, lögmaðurinn Helgi Bergmann. Í fyrstu segir Zarkis að Helgi hafi sagst ætlað að vinna í málinu en svo hafi hann hætt að svara. Zarkis segist hafa reynt ítrekað að ná í Helga án árangurs.
„Ég þarf á hjálp þinni að halda,“ skrifaði Zarkis í skilaboð til Helga. Miðað við skjáskot sem Zarkis sýndi Heimildinni reyndi hann að hringja í Helga, senda honum tölvupósta og skilaboð á Messenger og Snapchat. En þar var fátt um svör.
Helgi hefur ekki heldur svarað símtölum og skilaboðum Heimildarinnar.
Í síðustu viku tjáði Útlendingastofnun Zarkis, sem þá var búsettur í JL-húsinu, að það ætti að færa hann til Hafnarfjarðar.
„Ég hélt kannski að það væri jákvætt, það væri búið að samþykkja beiðnina mína,“ segir Zarkis. En það var ekki raunin. Flytja átti hann í brottvísunarúrræði þar sem 15 dögum áður hafði Útlendingastofnun hafnað beiðni hans um hæli á Íslandi. Frestur fyrir Zarkis til þess að kæra ákvörðunina var runninn út. Alveg án þess að hann hefði verið látinn vita af höfnuninni.
„Vissirðu það ekki? Það er ömurlegt,“ segir Zarkis að starfsmenn Útlendingastofnunar hafi sagt þegar þeir tjáðu honum í bílnum á leið í Hafnarfjörðinn að hann væri á leið í brottvísunarúrræði.
„Hjálpaðu mér að áfrýja, gerðu það svaraðu mér“
Zarkis brast í grát. „En ég var mest reiður því þetta var svo ósanngjarnt,“ segir hann.
Daginn eftir skrifaði hann skilaboð til Helga.
„Hey maður, þú verður að koma og hjálpa mér – þeir sögðu mér að þú hafir ekki kært [...] Ég er örvæntingarfullur!!!“
Þessum skilaboðum segir Zarkis að Helgi hafi aldrei svarað.
Vildi hjálpa öðrum hælisleitendum
Zarkis talar góða ensku, sem hann lærði af tölvuleikjum, og er komin með tengsl inn í íslensk samfélag í gegnum Hitt húsið þar sem hann kennir ensku og aðstoðar við matarviðburði.
„Við búum til empanadas og arepas,“ segir Zarkis og vísar til tveggja venesúelskra rétta.
Böðvar Nielsen, verkefnastjóri hjá upplýsingamiðstöð Hins hússins, segir að Zarkis hafi byrjað að mæta í Hitt húsið í byrjun ársins eftir kynningu á starfsemi hússins fyrir ungt fólk. Þegar Zarkis spurði hvort einhver störf væru í boði sagði Böðvar Zarkis að honum væri frjálst að halda námskeið á sínum eigin vegum, á meðan hann rukkaði ekki fyrir það. Zarkis ákvað að halda enskunámskeið, sérstaklega fyrir spænskumælandi fólk, vikulega sem hafa verið vel sótt.
„Ég sá tækifæri í Hinu húsinu til þess að ná fólki úr samfélagi mínu þangað, það eru svo margir sem eru bara inni hjá sér, þunglyndir og vissir um að það eigi að vísa þeim úr landi. Ég vildi hjálpa þessu fólki að hætta að hugsa um það,“ segir Zarkis.
Skrópaði í tíma til þess að styðja Zarkis
Með honum í viðtal hjá Heimildinni mætti Margrét Rebekka Valgarðsdóttir. Hún átti að vera í tíma í Háskóla Íslands en vildi frekar styðja við bakið á vini sínum. Það er þannig væntumþykja sem hefur myndast á milli Zarkis og fjölmargra Íslendinga nú þegar.
„Þetta er svo ósanngjarnt því hann vill ekkert nema gott. Hann er svo góð manneskja og á betra skilið,“ sagði Margrét sem kynntist Zarkis í Hinu húsinu.
„Hann er orðinn partur af hópnum og það eru allir að fylgjast með því hvað er að gerast hjá honum. Hann er með allt húsið á bak við sig“
Nú í haust fór Hitt húsið svo að leita að starfsfólki fyrir frítímastarf fatlaðra. Zarkis, sem var á þeim tímapunkti orðinn vel liðinn í Hinu húsinu, sótti um starf þar og fór í gegnum hefðbundið ráðningarferli með atvinnuviðtali. Það gekk vel og nú bíður hans ráðningarsamningur hjá Hinu húsinu. Lítil aðsókn var í störfin og vantar enn fimm til sex starfsmenn.
En Zarkis getur ekki mætt og sinnt vinnunni með fötluðu ungmennunum nema hann fái að kæra ákvörðun Útlendingastofnunar og fái svo samþykkt tímabundið atvinnuleyfi á meðan mál hans er til meðferðar.
Neikvæðir úrskurðir langoftast kærðir
Jón Sigurðsson, formaður Félags talsmanna um alþjóðlega vernd, tók mál Zarkis að sér fyrr í vikunni og hefur lagt fram síðbúna kæru á úrskurðinum fyrir hönd Zarkis. Enn er óljóst hvort kærubeiðnin verði tekin til greina. Jón segir alveg ljóst að fyrri talsmaður Zarkis, Helgi Bergmann, hafi borið ábyrgð á því að láta unga manninn vita af því að búið væri að hafna umsókn hans. Langoftast séu neikvæðir úrskurðir kærðir.
„Ég hef alla vega ekki heyrt af því áður að menn séu ekki að kæra,“ segir Jón. „[Zarkis] fellur utan kærufrests vegna þess að talsmaðurinn hans klúðraði því.“
Er talsmaðurinn hans þarna að vanvirða skyldur sínar?
„Ef maður leggur frásögn [Zarkis] til grundvallar – ég hef ekkert annað en það – þá virkar þetta á mig sem alvarlegt brot á lögbundnum skyldum hans sem talsmaður,“ segir Jón.
Hefur allt Hitt húsið á bak við sig
Atvinnutilboðið frá Hinu húsinu mun ekki hafa áhrif á það hvort Zarkis fái að vera hér eða ekki, segir Jón.
En Hitt húsið vill mjög gjarnan fá Zarkis, sem er að læra íslensku, í vinnu og segir Böðvar að það verði mikill missir af Zarkis ef honum verður vísað úr landi.
„Hann hefur verið með mikið frumkvæði á námskeiðunum, hjálpað mikið til,“ segir Böðvar. „Hann er orðinn partur af hópnum og það eru allir að fylgjast með því hvað er að gerast hjá honum. Hann er með allt húsið á bak við sig.“
Úrskurður um vernd venesúelskra gæti skipt sköpum
Á tímabili samþykkti Útlendingastofnun allar umsóknir um hæli frá Venesúela. Í desember frysti stofnunin umsóknir frá hópnum og byrjaði ekki að afgreiða þær aftur fyrr en í desember. Stofnunin mat það þá svo að umsækjendur ættu ekki lengur sjálfkrafa rétt á viðbótarvernd þar sem aðstæður hefðu breyst í Venesúela.
Á fjórða hundrað Venesúelabúar hafa síðan kært ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Niðurstöðu í því máli er enn beðið en miðað við upplýsingar Heimildarinnar er hennar að vænta fljótlega. Ef sú niðurstaða verður jákvæð gæti það haft veruleg áhrif á stöðu Zarkis.
„Jafnvel þó að ekki sé fallist á kæruna hans þá væri jafnvel hægt að enduropna málið hans hjá Útlendingastofnun,“ segir Jón um það.
Var við það að gefast upp
Zarkis segist sjálfur vera í forréttindastöðu miðað við marga aðra hælisleitendur vegna þess að hann talar góða ensku og hefur eignast vini á Íslandi. Hann segist vilja segja sína sögu opinberlega til þess að fólk sem hefur lent í sömu stöðu og hann – að heyra ekkert frá talsmönnum sínum – en talar ekki ensku og hefur engin tengsl til þess að bjarga sér í íslensku samfélagi fái rödd.
Það eru einmitt íslensku vinirnir sem hafa aðstoðað Zarkis við að feta þrönga stíga regluverksins í útlendingamálum og stutt hann þegar hann er við það að hætta bara við allt saman og fara aftur til Venesúela.
Zarkis var við það að gefast upp á mánudaginn en þá sagði Margrét við vin sinn: „Við þurfum að halda áfram, ekki gefast upp.“
„Fæstir eiga vini svo þeir gefast bara upp,“ segir Zarkis.
Móðir hans er að vinna í því að koma sér frá Venesúela svo ef hann verður sendur þangað sér Zarkis ekki fram á að þar bíði hans nokkuð nema há glæpatíðni og slæmt efnahags ástand.
Nú vinnur Jón að því að koma í veg fyrir að Zarkis verði vísað úr landi með því að reyna að fá úrskurði Útlendingastofnunar hnekkt. Enn er óljóst hvort Útlendingastofnun muni samþykkja kæruna þar sem kærufresturinn er tæknilega runninn út. Ráðningarsamningur frá 1. október bíður Zarkis í Hinu húsinu ef Jóni tekst að kæra ákvörðun Útlendingastofnunar.
Vinur minn var í marga mánuði í kolakjallara með fjölskyldu Bróður síns. Hans bíður vinna. Á sama tíma er fólk sem kemur úr austri og vill ekki vinna, en hefur réttan augnlit og þau fá kennitölu án þess að við vitum neitt um þau.
Ég er búin að gefast uppá að bjóða því fólki vinnu. En fólk sem vill getur og vill vinna er rekið í burtu.
Hann er á sama aldri og sonur minn. 🥺