Verðbólga heldur áfram að hækka og mælist nú átta prósent á tólf mánaða tímabili. Verðhækkanir á fötum og skóm og kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði eru stærstu áhrifaþættir til hækkunar. Lækkun verðs á flugferðum til útlanda temprar hækkunina.
Þetta er annar mánuðirnn í röð sem verðbólga á tólf mánaða tímabili, það er verðbreytingar sem hafa orðið á heilu ári, hækkar. Áður hafði verðbólga lækkað fjóra mánuði í röð. Hæst hefur verðbólgan mælst 10,2 prósent á síðustu misserum; í febrúar á þessu ári.
Þróun síðustu ára má sjá á grafinu hér að neðan.
Samkvæmt umfjöllun Hagstofunnar um verðþróun sem birt er í dag hafa allir undirliðir vísitölunnar hækkað á síðustu tólf mánuðum nema flokkurinn póstur og sími. Kostnaður sem flokkast þar undir, sem meðal annars er internetþjónusta, hefur lækkað um 4,4 prósent á síðustu tólf mánuðum.
Matur og drykkur hefur hins vegar hækkað mest; um 12,4 prósent á ársgrundvelli. Húsnæðiskostnaður hefur hækkað um 8,9 prósent á tímabilinu en það er langstærsti útgjaldaliður meðalheimilis og vega verðbreytingar undir þeim lið þyngst þegar verðbólgan er mæld.
Athugasemdir