Útgerðin og samtök atvinnurekenda eru miður sín yfir því að Samkeppniseftirlitið hafi misst tiltrú samfélagsins. Þessir aðilar geta ekki á heila sínum tekið eins og einhver sagði, og virðast ekki eiga neina ósk heitari en þá að það nái að endurvinna traust aftur. Útgerðinni finnst að þangað til tiltrúin hefur verið endurheimt ætti þessi stofnun að láta lítið fyrir sér fara og helst ekki að gera neitt. Atvinnurekendum er hvort sem er langbest treystandi fyrir sjálfum sér og heilbrigðri samkeppni eins og vitað er. Um það eru mörg dæmi, t.d. hjá olíufélögum og skipafélögum á undanförnum árum.
Morgunblaðið er málgagn útgerðarmanna og atvinnurekenda eins og allir vita sem vilja. Í dag, 25.09.´23 er grein í blaðinu þar sem sýnt er fram á hversu ósanngjarnt Samkeppniseftirlitið er. Greinin ber yfirskriftina Engin neðri mörk í skoðun Samkeppniseftirlitsins. Þar er margt skondið og athyglisvert þetta með neðri mörkin.
Glefsur úr Mogga:
„Upplýsingarnar sem Samkeppniseftirlitið (SKE) krafðist að sjávarútvegsfyrirtæki afhentu í tengslum við kortlagningu eignatengsla í greininni, í samræmi við ólögmætan samning við matvælaráðuneytið, voru … hluthafalistar fyrir hvert ár aftur til ársins 2019 með nöfnum, kennitölum og eignarhlut, sem og afriti af fundargerð hluthafafunda og upplýsingar um hvernig hver og einn hluthafi greiddi atkvæði á hluthafafundum þrjú ár aftur í tíma. … Til stóð að birta opinberlega skýrslu í kjölfar þess að kortlagningu SKE væri lokið.“
Til að bjarga SKE upp úr þessu flónskufeni hafa útgerðarmenn fært málið í stjórnsýslulegt völundarhús því „eftir áliti Persónuverndar í tengslum við birtingu þeirra upplýsinga sem aflað var, (hefur) áfrýjunarnefnd samkeppnismála úrskurðað skoðunina ólögmæta. Það er því óljóst hvort heimilt yrði að birta umræddar upplýsingar í opinberri skýrslu,“ segir Mogginn.
Eftir þennan lestur og margar fréttir á síðustu vikum er ljóst að útgerðarmenn eru ekki hlynntir því að SKE beiti sér fyrir gagnsæi í sjávarútvegi með því að skýra frá því hverjir séu raunaverulegir eigendu sjávarútvegsfyrirtækja og hver tengsl eru þeirra á milli og á milli fyrirtækja sem starfa í greininni, hverjir það eru sem mæta á aðalfundi fyrirtækjanna í krafti beins og/eða óbeins eignarhalds og ráða þar ráðum sínum.
„Auðveldast væri að útgerðarfyrirtækin upplýstu þetta sjálf og óumbeðin.“
Snúum aðeins upp á málið:
Útgerðarmenn gætu með léttu lagi leyst vandann á meðan SKE er að endurheimta „traust þeirra“.
Auðveldast væri að útgerðarfyrirtækin upplýstu þetta sjálf og óumbeðin. Þau gætu jafnvel birt þetta allt á heimasíðum sínum eða í Lögbirtingarblaðinu, jafnvel Morgunblaðinu ef því væri að skipta; þeir eiga það. Gerðu þau þetta þyrfti engin útgerð að þjást vegna „frumhlaups“ Samkeppniseftirlitsins eða íhuga kærur vegna málsins.
En þetta gera þau auðvitað ekki vegna þess að þau vilja hvorki upplýsa um eignarhaldið né tengslanetið milli einstaklinga og fyrirtækja.
Í veröld sem nú er haugfull af fréttum, sönnum og lognum, er ekki auðvelt fyrir okkur óbreytta að greina aðalatriði mála; það eru svo margar yfirbreiðslur sem lagðar eru ofan á þau til þess að hylja kjarnann og dreifa hismi. Þess vegna snýst umræðan nú, að undirlagi útgerðarmanna og Morgunblaðsins, um vantraust á Samkeppniseftirlitinu og loftkennda ósk um að SKE endurheimti traust á næstu áratugum. Útgerðarmenn telja sig hins vegar ekki þurfa að endurheimta neitt svoleiðis. Ef eitthvað er, þjást þeir af sjálfstrausti. Vammleysi þeirra er algjört og óumdeilt, finnst þeim.
Höfundur er rithöfundur
Athugasemdir (1)