Egill Helgason byrjaði með Silfur Egils á Skjá einum árið 1999. Sex árum síðar, 2005, færðist þátturinn yfir á Stöð 2. „Þá höfðu harðsvíraðir flokksmenn úr Sjálfstæðisflokknum tekið yfir og þeir losuðu sig við mig út af pólitík. Það mátti ekkert. Ef ég talaði við Ingibjörgu Sólrúnu urðu þeir bara reiðir og móðgaðir. Þá bauð Sigurður G. Guðjónsson mér að koma á Stöð 2 og þar var ég í fjögur ár.“
Þetta er meðal þess sem kemur fram í forsíðuviðtali við Egil í nýjustu útgáfu Heimildarinnar.
Þar segir hann móralinn á Stöð 2 hafa verið skrýtinn þegar hann kom þangað yfir. „Það var svona verið að benda manni á eitt og annað sem þótti ekki í lagi. Það var leiðindamórall og augljóst að það var verið að beita þessum fjölmiðlum í ákveðnu stríði.“
Þarna var miðillinn í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem hefur verið sagður beita miðlum sínum á ákveðinn hátt. Egill segist þó aldrei hafa fengið athugasemdir frá honum. „En ég var auðvitað að taka viðtöl við Jón Gerald, Jónínu Ben, Jóhönnu Sigurðardóttur og Björn Bjarnason. Mér fannst fjölmiðillinn ekki mega vera sjálfstæður. Ég hef alveg verið frekur til fjörsins og hef getað ýtt frá mér ef menn eru að pota í mig. En þarna voru sumsé ákveðin mál sem voru að þvælast fyrir. Mér fannst gott að losna þaðan og ég held að þeir hafi verið frekar fegnir að sjá að baki mér á Stöð 2.“
Þaðan fór Egill á RÚV þar sem hann hefur verið með Silfrið þar sem hann segist aldrei hafa fundið neitt nema fullan stuðning. Þar naut ég frelsis. Síðan kom þetta blessaða hrun og um tíma var Silfrið mikill brennipunktur fyrir alla umræðu því tengdu. Þetta var aðalþátturinn á þessum tíma og alls konar fólk sem síðar átti eftir að springa út í pólitík kom þarna. Allir voru til í að koma. Það var líka stöðugur straumur af erlendum álitsgjöfum, Nóbelsverðlaunahöfum og ég veit ekki hvað.“
Nú er hann hættur í þættinum, 24 árum eftir að Silfur Egils var fyrst sett á dagskrá.
Athugasemdir (4)