Einu sinni las ég útþynnta Disney-myndasögu sem sýndi Bangsímon veiða fisk. Fiskurinn horfði bænaraugum á Bangsímon svo hann ákvað að sleppa fiskinum og grilla pylsu í staðinn. Enda vita allir að pylsa er ekki dýr! Grimmi undirtextinn – Hvar er Gríslingur? – Var ekki hluti af íróníunni. Þá var ég að skrifa Söguna af Bláa hnettinum og ég ákvað að láta villibörnin borða seli. Það var tilvísun í líf afa míns sem fæddist á Melrakkasléttu og hugsað sem einhvers konar jarðtenging.
„Stundum ertu að drepa sel þótt þú sért ekki beint að rota hann með lurki.“
Bókin seldist fljótlega um allan heim, Færeyjar og Grænland voru fljót að þýða verkið en einhverra hluta vegna gekk illa að brjótast inn í norður-ameríska heiminn. Einn útgefandi vildi gefa bókina út en vildi fjarlægja tilvísanir í selaát. Mér fannst þetta sérkennilegt, ég sendi þeim myndir af afa að verka sel og spurði, hvenær eiga börn í Norður-Ameríku að frétta að börn til dæmis á Grænlandi borða seli? 15 ára? Eða 19 ára þegar þau koma heim úr Íraksstríði? Ég sagði honum að þótt börn í Ameríku ætu ekki seli, fjallaði bókin um stærri myndina, að stundum ertu að drepa sel þótt þú sért ekki beint að rota hann með lurki. Útgefandinn sat við sitt en ég lét ekki bifast og missti af nokkuð góðum samningi. Það liðu 10 ár þar til ég fékk loksins útgefanda sem vildi gefa út bókina óbreytta. Seven Stories Press í New York.
Nú sé ég að þetta sama forlag er að gera allt vitlaust á Íslandi en bók þeirra um kynfræðslu er komin út á íslensku og má nálgast á vef Menntamálastofnunar. Mér sýnist þetta vera nokkuð vandað verk, róttækt á köflum ef róttækt er að vera eins og sænsk bók frá 1977, og auðvitað vandræðalegt eins og kynfræðsla virðist dæmd til að vera. En aftur er það spurningin, hvenær og hvernig eiga börn að frétta af hlutum? 10 ára? 12 ára? 18 ára? Er alveg víst að mesta ógnin sem að þeim steðjar sé yfirleitt í bók? Búa þau ekki annars í heimi þar sem þau eyða að meðaltali sjö tímum á dag í tækjum og trilljón klukkustundir af myndskeiðum lúra á bak við næsta smell?
Æi....Páll Hrannar Hermannsson finnst þér þá betra að þessi sömu 7-10 ára gömlu krakkar séu að horfa á hið argasta klám á veraldarvefnum ?
Eins og staðfest hefur verið í fjölmiðum að hátt upp í þónokkuð af þeim gera ?