Í dönskum fræðiritum hefur einelti verið líkt við skæruhernað. Aðferðafræði slíks hernaðar felst í því að skæruliðinn liggur í leyni og bíður færis. Hann gerir svo leifturárás úr óvæntri átt, þegar honum hentar og árásarþolinn á sér einskis ills von. Skæruliðinn fer svo fljótt í felur eftir árásina en endurtekur árásarmynstrið, með hléum. Þannig veldur hann viðvaranda ótta og óvissu.
Hvenær á einelti sér stað?
Þetta mynstur skæruhernaðar sést einkum í frímínútum í skólum. Eineltisgerandinn velur sér þar fórnarlamb sem á sér einskis ills von og níðist á því þegar þau fullorðnu eru fjarri. Þetta mynstur er svo endurtekið með hléum og veldur vanlíðan og kvíða hjá fórnarlambinu.
Fórnarlambið getur t.d. verið strákurinn með eldrauða hárið, stelpan með framstæðu tennurnar, þau sem eru lesblind, á einhverfurófinu eða með ADHD, strákurinn með löngu augnahárin eða þessi sem tekur kalt kaffi og ristað brauð með sér í nesti. Listinn er endalaus. Flest fórnarlambanna eiga það sameiginlegt að sérkennið þeirra er áberandi eða félagsfærni áfátt. Stundum á hvort tveggja við eða hvorugt.
Ég var nærsýni nördinn, með ógreindu einhverfuna, sem kunni ekki á félagsleg samskipti; var bæði ofurhreinskilinn og talaði látlaust óumbeðið. Það nægði til að vera löggilt skotmark.
Listina að laða að sér viðhlæjendur kann eineltisgerandinn manna best. Hann fær fólk áreynslulaust til að taka þátt í eineltinu með sér og finnast það gaman. Sum standa óvirk hjá en vita ekki að með aðgerðaleysinu taka þau afstöðu. Bekkurinn minn í grunnskóla hefði fengið A í einkunn fyrir samstöðu með einelti.
Eineltisgerandinn er gjarnan fleiri en einn einstaklingur. Oft er hvert þeirra eitt að verki en þau geta líka áreitt í hópi. Samanlagt valda þau miklum skaða hjá fórnarlambinu, oft án þess að átta sig á því að margt smátt (úr ýmsum áttum) gerir eitt stórt gagnvart þeim sem fyrir árásunum verður. Eineltisgerandinn getur verið dekraði strákurinn sem býr einn hjá ömmu sinni og afa; sæta stelpan í bekknum sem veit af sér; sá stærsti í bekknum sem fílar það að vera sterkastur. Hann getur líka verið vansæla skilnaðarbarnið sem þarf að fá útrás á öðrum; nýja stelpan í bekknum sem þarf að sanna sig félagslega og fyndni strákurinn sem fær alla til að hlæja að manni. Eineltisgerandinn hefur mörg og gjarnan geðþekk andlit sem sjást á mismunandi tímum - allt eftir því hvernig liggur á honum eða henni þann daginn.
Erfiðar æskuminningar um einelti
Eineltið gagnvart mér í grunnskóla í smábæ úti á landi við hringveginn, fyrir um 40 árum síðan, varði í fimm ár. Þetta var eins og langvarandi ofbeldissamband þar sem góðu tímabilin gáfu von um betra líf. Svo allt í einu þegar einhverjum leiddist eða leið illa, þá varð maður skotmark á ný.
Það skrítna og hálf óskiljanlega er að maður kvartaði sjaldan við foreldra sína. Kannski var það út af voninni um að allt myndi lagast ef maður styggði engan. Skólinn tók sjaldan eftir nokkru og aðhafðist lítið sem ekkert.
Leikfimi- og sundtímarnir voru verstir. Fötin mín voru oft horfin eftir tímann. Fataleysið gerir mann alveg ótrúlega varnarlausan. Einnig er vitavonlaust að þurrka sér með rennandi blautu handklæði.
Skórnir mínir hurfu t.d. um vetur eftir einn leikfimitímann og ég neyddist til að ganga heim á sokkaleistunum. Ég man enn áratugum seinna hvað klakinn var kaldur og hrjúfur og stakkst í iljarnar á mér. Í eitt skiptið þurfti ég að líka að labba heim í rennblautum skóm.
Stór stelpa, í bekknum fyrir ofan mig, stundaði það eitt árið að stíga með klossum á tærnar á mér. Hún hætti því ekki fyrr en móðir mín sá blóðugar tærnar á mér og hringdi brjáluð í stelpuna og las henni pistilinn.
Einu sinni réðust tveir bekkjarbræður mínir aftan að mér í teiknitíma (kennarinn hafði brugðið sér frá) og tróðu upp í mig dauðri flugu. Ég varð svo reiður að ég sparkaði í annan þeirra svo hann meiddi sig. Nokkrum klukkustundum seinna, eftir leikfimitíma, mynduðu strákarnir í bekknum hring í kringum mig úti á götu og horfðu á þennan strák berja mig í jörðina. Ég man óljóst að mér fannst ég eiga ráða við hann en ég lét mig tapa; þorði ekki að eiga það á hættu að allur hópurinn lemdi mig.
Það sem fór þó algerlega á sálina hjá manni var félagslega útilokunin og hunsunin. Maður fékk stöðugt skilaboð um að maður væri gallaður og óvelkominn. Ég dró mig því að mestu í hlé félagslega og hlutverk einfarans varð hlutskipti mitt. Það eina góða sem gerðist í einverunni var að ég varð betri námsmaður.
Þessi eineltistilvik eru meðal þeirra sem ég gleymi aldrei - en þau voru mun fleiri.
Ég flutti strax eftir grunnskóla burt frá fjölskyldu minni til Reykjavíkur til að fara í framhaldsskóla. Gat ekki hugsað mér að búa í smábænum lengur. Hef alltaf eftir það keyrt hratt þar í gegn, þegar ég hef átt leið um, og ekki stoppað þar nema til að versla í matinn.
Afleiðingar eineltis
Einelti skilur eftir sig sár á sálinni og brotna sjálfsmynd fórnarlambsins. Sárin gróa en örin hverfa aldrei alveg. Látið mig þekkja það. Ein afleiðingin var t.d. sú að ég var í mörg ár reiður og bitur, svo og óöruggur í samskiptum. Fyrir vikið sé ég t.a.m. eftir sumum þeirra samskipta sem ég átti við fólk á framhaldsskólaárunum og jafnvel sem fullorðinn maður.
Í dag hef ég lært að elska sjálfan mig eins og ég er og öðlast lífshamingju og innri ró á mínum eigin forsendum. Það tók þó mörg ár og ég hefði tæpast getað það án konunnar minnar. Maður er í raun stöðugt að vinna í sjálfum sér.
Það breytti líka miklu fyrir mig að fá einhverfuforgreiningu fyrir þremur árum þegar ég var 49 ára gamall. Það útskýrði margt úr fortíðinni og hjálpaði mér að skilja sjálfan mig betur. Því miður hefur það verið hlutskipti margra sem eru á einhverfurófinu eða með ADHD (eða bæði) að sæta einelti í æsku og jafnvel á fullorðinsárum líka. Vakningar er þörf um þarfir þessa hóps, og réttan félagslegan stuðning og skilning.
Staðan í eineltismálum í dag
Hvers vegna er ég að rifja þetta upp 40 árum síðar? Að hluta er það af persónulegri þörf fyrir að koma þessum minningum á blað. Þær geta vonandi orðið öðrum vakning og víti til varnaðar. Raddir þolenda í eineltismálum, ekki síst barna, heyrast of sjaldan; ekki hafa heldur öll styrk eða löngun til að rifja upp sára og erfiða lífsreynslu æskuáranna. Sum ræða aldrei þessi mál og byrgja þau inni alla tíð. Í dag er samfélag okkar þó að verða sífellt opnara og aukin tækifæri til samtals um erfið samfélagsmál sem áður voru lítið eða ekkert rædd.
Hin ástæðan er sú að enn í dag viðgengst einelti í skólum landsins og frekari aðgerða er þörf. Við vitum það öll. Flest okkar þekkja líka án efa einhver nýleg eineltisdæmi úr stórfjölskyldunni eða frá vinum og kunningjum. Toppurinn á ísjakanum eru hræðilegustu málin sem við lesum um í fjölmiðlum þegar nokkuð er liðið á skólaárið.
Hin málin sem lenda aldrei í fréttum eru m.a. eineltismál sem ná að grassera, oft svo árum skiptir. Þessi tilvik eru víða. Ég á t.d. ættingja sem útskrifaðist nýlega úr grunnskóla í Grafarvogi eftir að hafa verið lagður þar í einelti megnið af sinni skólagöngu. Einnig þekki ég nýlegt dæmi um nemanda í Hlíðaskóla hvurs foreldrar sáu sig tilneydda til að flytja í annan skóla. Þá er eitt barnabarnanna minna þessa dagana að byrja í grunnskóla. Á þessum gleðilegu tímamótum í lífi barnsins hef ég þó áhyggjur af því að það kunni að verða lagt í einelti þar sem það á í erfiðleikum með að bera fram bókstafinn ess. Mér finnst absúrd árið 2023 að þurfa að hafa þessar áhyggjur, en svona er bara staðan í eineltismálum í dag.
Lögmæltur réttur barna til öryggis
En þetta þarf ekki og á ekki að vera svona. Börnunum okkar á að geta liðið vel á öllum skólastigum. Þau eiga líka lögmæltan rétt á því samkvæmt t.a.m. 19. gr. barnasáttmálans (sbr. lög nr. 19/2013) að stjórnvöld verndi þau m.a. gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum og illri meðferð.
Þrátt fyrir regluverk um aðgerðir gegn einelti í skólalöggjöfinni, einkum um fagráð eineltismála, þá valda skólayfirvöld verkefninu ekki ein. Við foreldrar (og börnin okkar), skólastjórnendur, kennarar og önnur þau sem vilja láta sig eineltismál varða verðum að vinna í þessu saman.
Foreldrar vinna sinn hluta með því að tala við börnin sín og senda þeim skýr og stöðug skilaboð um að einelti er bannað og að mannvirðing er það sem gildir. Foreldrar verða að geta borið kennsl á vísbendingar um einelti í garð barna sinni og brugðist rétt við. Þá er gríðarlega mikilvægt og alger lykilforsenda að foreldrar axli ábyrgð, þegar börnin þeirra reynast gerendur, í stað þess að fara í afneitun. Börnin okkar þurfa svo sjálf að þekkja birtingarmyndir eineltis og fá fræðslu um það hvernig bregðast á við í eineltisaðstæðum.
Skólastjórnendur eiga að axla sína lögmæltu stjórnendaábyrgð í eineltismálum. Þeir þurfa að tryggja viðeigandi þekkingu kennara á eineltisforvörnum og aðgerðaáætlunum, það að verkferlar séu til og beitt rétt, svo og að halda uppi virku og gagnsæju samtali við foreldra og fulltrúa þeirra. Kennarar eiga sömuleiðis að vera vakandi fyrir eineltistilburðum. Þeir þurfa að búa yfir og viðhalda faglegri þekkingu sinni til að geta stigið inn í eineltismál og komið þeim í réttan farveg.
Þjóðarátak gegn einelti í skólum
Einelti í skólum er einhliða og endurtekið félagslegt ofbeldi í garð barna og unglinga sem minna mega sín. Það veldur sársauka og niðurlægingu sem ekkert barn á að þurfa að upplifa. Það er verkefni okkar allra sem samfélags að kveða einelti niður. Í raun er löngu kominn tími á viðvarandi þjóðarátaki gegn einelti í skólum landsins.
Forsenda slíks átaks er stöðug forvarnarfræðsla til barna (og foreldra) og eftirfylgni af hálfu foreldra og skóla, ennfremur virkt og viðvarandi samtal skólasamfélagsins og foreldra. Ég hvet því skólayfirvöld til að hrinda af stað þjóðarátaki gegn einelti í skólum. Þannig stuðlum við sem samfélag enn frekar að farsæld barna.
Athugasemdir (1)